Hrafn Sveinbjarnarson fæddist í Reykjavík 5. febrúar 1958. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 18. nóvember 2017.
Foreldrar hans eru Anna Jónsdóttir, f. 6. mars 1926, og Sveinbjörn Markússon, f. 25. júní 1919, d. 3. október 2011.
Systkini Hrafns eru Bjartmar, f. 1945; Sigrún, f. 1946; Sveinbjörg, f. 1947; Ásta Björk, f. 1952, og Björn Ragnar, f. 1962.
Sambýliskona Hrafns var Anna S. Valdimarsdóttir, f. 24. nóvember 1960, og þau eignuðust tvö börn. 1) Finnur, f. 8. nóvember 1982, sambýliskona hans er Gunnhildur Blöndal og dóttir þeirra Alda Kristín, f. 28. september 2017. Fyrir á Gunnhildur Tönju, f. 29. janúar 2009. 2) Kristín Inga, f. 14. maí 1991. Sambýlismaður hennar er Arnar Freyr Hermannsson. Hrafn og Anna slitu samvistum. Hrafn vann hjá Málmsteypu Þorgríms Jónssonar og lauk sveinsprófi í þeirri grein frá Iðnskólanum í Reykjavík. Framhaldsnám í iðninni stundaði hann í Svíþjóð, þar sem hann hafði dvalist áður við ýmis störf. Heim kominn frá Svíþjóð vann hann á Grundartanga, geðdeild Landspítalans og víðar. Hann rak einnig hreingerningafyrirtæki í nokkur ár en síðustu árin var hann vagnstjóri hjá Hagvögnum hf.
Útför Hrafns verður gerð frá Laugarneskirkju í dag, 28. nóvember 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku besti pabbi,
Nú er baráttunni lokið og þú ert kominn á betri stað og í góðan félagsskap.
Eins og með allt sem á vegi þínum varð stóðstu þig eins og hetja, tókst hlutunum með þinni elskulegu ró og yfirvegun og kenndir okkur sem í kringum þig voru hvernig bera skuli höfuðið hátt á góðum tímum jafnt sem erfiðum.
Það sem skiptir máli í þessu lífi er nefnilega ekki veraldlegu hlutirnir heldur eru það samverustundir, að vera góð fyrirmynd og að gleðja aðra sem gefa lífinu gildi þegar uppi er staðið. Þar er úr of mörgu að velja, en ofarlega í huga eru þær fjölmörgu heimsóknir sem farið var í og þegar tekið var á móti fólki. Alltaf var tími gefinn fyrir yngri kynslóðina og púsl, tindátaleikir, kubbar og sögur einkenndu þessar stundir.
Eitt af því sem þú hafðir alltaf gaman af voru bílar. Við fórum oft saman að skoða bíla og láta okkur dreyma um það sem gæti orðið þegar lottóvinningurinn félli okkur í skaut. Á þeim árum sem þú varst með þinn eigin rekstur leyfðirðu þér að eignast skárri bílkost en ella. Þess vegna stendur minningin um vetrarkvöldið þar sem nýi jeppinn var klesstur svo ofarlega í minni. Þú leyfðir börnunum þínum auðvitað að njóta bílkostanna og þetta kvöld var komið heim með tárin í augunum. Nýja bílnum hafði verið bakkað á staur og hann klesstur. Það eina sem þú lést eftir þér hafði verið skemmt. Þú varst fljótur að taka afstöðu í þessu máli, enda einungis líflaus málmklumpur sem um ræddi. Þetta skipti engu máli, að okkur liði vel og skildum það sem hafði skeð var lexían sem hægt væri að læra af.
Margir hafa orð á því að þú hafir verið prýðis mann- og sagnfræðingur. Þú varst alltaf afar forvitin hvað varðar fólk, bæi og staðarhætti og spurðir alla spjörunum úr um þeirra staðarhætti. Dæmi um spurningar voru „hvernig er kynjaskipting í þínum bæ?“ og „er meira um fjölskyldufólk eða einstaklinga í bæjarfélaginu?“. Svör við þessum spurningum dugðu oft þó ekki, heldur vildir þú kynna þér hlutina sjálfur með því að fara á staðina. Við og aðrir uppskárum því stundum ferðir á þessar slóðir, hvort sem var á æskuslóðir Hrafns Sveinbjarnarsonar læknis á Hrafnseyri eða til suðvesturhorns Írlands, sem var alltaf í sérstöku uppáhaldi.
Það eru samt ekki stórar ferðir á fjarlægar slóðir sem standa upp úr. Það er hið hversdagslega og allt sem tilheyrir því. Að fá sér kaffibolla, spjalla um atburði líðandi stundar, heyra hnerrana þína þegar þú þrjóskast til að fá þér kavíar, segja góða nótt og finna fyrir návist þinni.
Þú varst góðhjartaður, yfirvegaður, forvitinn, barngóður, góður pabbi og svo margt fleira. Minning þín mun lifa með okkur að eilífu.
Við elskum þig pabbi, góða nótt.
Þín börn,
Finnur Hrafnsson,
Kristín Inga Hrafnsdóttir.
Miðjan dag á dauðinn það til að koma,
taka mál af manninum. En sú heimsókn
gleymist, lífið líður. En fötin eru
saumuð í kyrrþey.
(Tomas Tranströmer,
þýð. Njörður P. Njarðvík)
Nú hefur Krummi fengið fötin sín.
Okkur sem enn slítum okkar veraldlega klæðnaði þykir þessi afhendingartími sár og ótímabær.
Hann kemur ekki oftar með „kruðerí“ á sunnudagsmorgnum eða í hátíðlega sviðamessu.
Ekki oftar með hjálpandi hendur og huga, til að mála, laga, flytja, starta bíl eða spjalla og njóta.
Hringir ekki framar á afmælisdaginn okkar.
Situr ekki í sænsku sólskini að loknu lífsstriti.
Stritið er búið, Krummi er farinn.
Nú situr hann í framandi sólskini.
Ég þakka fyrir minn ævivin.
Ásdís.
Leiðir okkar Krumma lágu saman í Laugalækjarskóla og fetuðum við saman veginn gegnum grunnskólann bæði í Laugalækjar- og Laugarnesskóla. Krummi lagði stund á iðnnám á sviði málmsteypu hjá föður mínum og við unnum saman um hríð hjá honum. Þar var hann prímus mótor þegar kom að félagslegri samveru og samvinnu þeirra sem höfðu dregið vagninn til margra ára og þeirra sem yngri voru. Hann sameinaði kynslóðir á vinnustaðnum. Krummi fór síðar í frekara nám á sviði málmsteypu í Jönköping í Svíþjóð.
Síðustu áratugina höfum við haft það sem reglu að hittast félagarnir ásamt mökum einu sinni á ári og eiga ánægjulega stund saman. Það var alltaf stutt í glaðværðina þegar fyrri tímar voru rifjaðir upp. Alloft barst talið að því að fara eitthvað saman, helst út fyrir landsteinana. Þegar hugmynd kom upp um að fara eitthvað í vestur kom Krummi að jafnaði með tillögu um að fara eitthvað í austur og hélt langa ræðu þar sem hann dásamaði t.d. einhvern stað í Skotlandi eða Írlandi frá víkingatíð sem við félagarnir höfðum ekki heyrt minnst á áður. Krummi var grúskari og bjó yfir mikilli söguþekkingu sem hann hafði gaman af að miðla til annarra.
Fyrir einu og hálfu ári greindist Krummi með krabbamein sem hefur nú lagt hann að velli. Hann háði baráttu við sjúkdóminn af miklu æðruleysi og þrautseigju. Þegar ljóst var hvert stefndi óttaðist hann ekkert heldur setti sér markmið um að ná og fá að upplifa mikilvæga áfanga sem börnin hans tvö stóðu frammi fyrir. Þeim markmiðum náði Krummi. Að auki náði hann að upplifa þá einstöku reynslu að verða afi. Síðasta minning mín af Krumma var þegar ég heimsótti hann á sjúkrahúsið og sá ljósmynd af honum ljómandi af gleði með fyrsta barnabarnið við hliðina á sér. Minningin er ljóslifandi og snerti mig djúpt. Það var augljóst að gleðin yfir afkomandanum svipti í burtu öllum þjáningum hans.
Ég er þakklátur fyrir samfylgdina með Krumma vini mínum sem var allt of stutt og votta öllum aðstandendum mína dýpstu hluttekningu.
Ég óska þess að minn kæri vinur hvíli í friði.
Jón Þór Þorgrímsson.
Við tókum allir bílpróf á svipuðum tíma en um það leyti versnaði sjónin hjá Krumma nokkuð og mátti hann ekki aka án þess að nota gleraugu. Þá var oft spennandi að sitja frammí hjá Krumma í græna Renaultinum því hann mundi aldrei eftir gleraugunum.
Þó að báðir yrðum við uppteknir við að koma upp börnum og búi héldum við alltaf góðu sambandi og hittumst alltaf öðru hvoru, sérstaklega eftir að við urðum aftur nágrannar í Laugarnesinu, hann þá skilinn við hana Önnu sína, Finnur og Kristín orðin nokkuð stálpuð og Krummi og Li byrjuð að skjóta sér saman.
Þá var oft gaman að rölta í kaffi til Krumma á Hrísateiginn og rífast aðeins um pólitík, en Krummi var alla tíð skemmtilega vinstrisinnaður og fylgdist vel með landsins málum.
Þegar ég nú hugsa til þessa vinar míns kemur alltaf upp þessi setning.
„Hann var drengur góður.“
Og víst var hann Krummi góður drengur, afskaplega ljúfur og skemmtilegur maður, hann tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og á þessari stundu vil ég þakka honum kærlega fyrir hans góða vinskap í gegnum árin.
Við Sara sendum fjölskyldu hans og vinum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Guðbjartur Rúnarsson.
Vinátta okkar Krumma var jafngömul sjálfum okkur; hún var án upphafs, skilyrðislaus, fölskvalaus, heimur inni í heiminum. Minningar og myndir drífur að í sífellu; hvað þær eru margar: njólakofar, timburkofar, torfkofar; gauf með spýtur í fjörunni í Laugarnesi þar sem skosk hjón tóku mynd af okkur og sögðust ætla að geyma hana í albúminu sínu heima; baks með báta í Vatnagörðum; langar göngur, einni lauk í Mosfellssveit; tíðar ferðir hans til góðkunningja sinna á slysavarðstofunni; Anna, mamma hans, að sauma úlpu, hún getur allt; í Lækjarbotnum með Sveinbirni að steikja pylsur á hlóðum; fermingarfötin sem við keyptum sjálfir, önnur græn, hin fjólublá, sama mynstur; glannalegur akstur á Renault og Taunusi foreldra okkar; hljóðfræðiströgl; pössun hjá systrum okkar og þegar foreldrarnir ungu komu heim úr bíó höfðu barnapíurnar tæmt ísskápinn; skrautlegt sumar í byggingarvinnu; linnulausar flettingar í landabréfabókinni; alls kyns ævilangt brall.
Við deildum gleði, ekki síst yfir börnum okkar, en við þekktum líka hvor annars raunir; Krummi fór að sársauka annarra af áreynslulausri háttvísi og nærgætni. Hann var harðgreindur, tilfinningaríkur og næmur; hjartað svo stórt og hlýtt. Einu sinni kom hann og fór hljóðlega, hafði dreymt dálítið sem hafði þegar gerst en hann vissi ekki um. Gæti hann lagt lið? Krummi gætti þess vel að lifa lífinu með reisn, vissi alltaf hvað skipti máli. Hann var traustur, vinnusamur, hjálpfús og ósérhlífinn: flutningar, pípulagningar, málning, bílakaup, skutl; hvers manns vanda vildi hann leysa. Ætti hann tvo kyrtla hikaði hann ekki andartak. Hann var góðmenni.
Ég kveð Krumma minn með trega sem er orðum fjarri, en gleðst yfir hinni fallegu, gjöfulu ævi hans, vináttunni mildu, dýrmætu, og þakka fyrir hana, bið þann mátt sem við ræddum sjaldan um, af tillitssemi hvors við annan, en sat á milli okkar í fljúgandi hálku og myrkri á slitnum sumardekkjum á norðlenskri heiði, að varðveita hann í kærleikanum þar sem fegurst er og jöfnuður ríkir, já, og réttlætið. Börnum Krumma, sem voru honum allt, Finni og Kristínu Ingu, og fjölskyldum þeirra, Önnu, móður hans, systkinum hans, tengdafólki og öðrum ástvinum og vinum, votta ég djúpa samúð að honum gengnum. Blessuð sé minning Hrafns Sveinbjarnarsonar.
Helgi Grímsson.