[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Hafþór Harðarson byrjaði vel í einstaklingsflokki karla á heimsmeistaramótinu í keilu sem fram fer í Las Vegas. Fyrsta keppnisdegi lauk í fyrrinótt að íslenskum tíma og Hafþór var þá í 26.

* Hafþór Harðarson byrjaði vel í einstaklingsflokki karla á heimsmeistaramótinu í keilu sem fram fer í Las Vegas. Fyrsta keppnisdegi lauk í fyrrinótt að íslenskum tíma og Hafþór var þá í 26. sæti og möguleikar hans á að komast í lokaúrslit 24 efstu manna því góðir. Hann fékk 1.247 stig, sem gera 207,83 í meðaltal. Dagný Edda Þórisdóttir spilaði best íslensku keppendanna í einstaklingskeppni kvenna. Hún var með 1.062 stig og 177 í meðaltal og hafnaði í 128. sæti.

*Ítalska knattspyrnufélagið AC Milan rak í gær þjálfarann Vincenzo Montella úr starfi og réð Gennaro Gattuso , fyrrverandi leikmann félagsins, í staðinn. Montella tók við þjálfun Mílanóliðsins sumarið 2016 og undir hans stjórn endaði það í sjötta sæti í ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð. AC Milan gerði markalaust jafntefli við Torino á heimavelli um nýliðna helgi og það reyndist vera síðasti leikur liðsins undir stjórn Montella en AC Milan er í 7. sæti, 18 stigum á eftir toppliði Napoli.

*Velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale snýr aftur inn í lið Real Madrid þegar það mætir C-deildarliðinu Fuenlabrada í síðari viðureign liðanna í spænsku bikarkeppninni í kvöld. Bale hefur verið frá keppni í rúma tvo mánuði vegna meiðsla en hann er nú orðinn klár í slaginn að sögn Zinedine Zidane , þjálfara Madridarliðsins. Bale lék síðast með Real Madrid í 3:1 sigri gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni þann 26. september.

* Jóhann Berg Guðmundsson var valinn besti maður Burnley í tapinu gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Turf Moor á sunnudaginn. Jóhann Berg var mjög sprækur í liði Burnley í leiknum. Hann átti til að mynda stangarskot í fyrri hálfleik og kom við sögu í flestum sóknum Burnley. Lið hans fékk dæmda á sig vítaspyrnu í uppbótartíma sem Alexis Sánchez skoraði úr sigurmark Arsenal.