Úlfar Þór Indriðason fæddist á Akureyri 4. september 1959. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 19. nóvember 2017.
Foreldrar Úlfars eru hjónin Indriði Úlfsson, fv. skólastjóri á Akureyri, f. 3. júní 1932, og Helga Þórólfsdóttir, f. 29. janúar 1939. Systir Úlfars er Ingunn Líney, f. 1962, hennar maður er Ingvar Sveinbjörnsson, dætur þeirra eru Helga Margrét, f. 1990, og Ingibjörg Ósk, f. 1999. Úlfar ólst upp með foreldrum og systur á Akureyri, hann var Þingeyingur að ætt og uppruna.
Úlfar kvæntist Þórdísi Wíum, f. 4. nóvember 1960, dóttur Narfa Wíum, f. 1936, d. 1994, og Svanhvítar Aðalsteinsdóttur, f. 1941. Börn Úlfars og Þórdísar eru: 1) Yrsa, f. 10. desember 1985, sambýlismaður hennar er Pétur Pétursson, f. 1982. 2) Hringur, f. 13. maí 1991. 3) Baldvin Narfi, f. 25. ágúst 1994. 4) Hrafnkell Úlfur, f. 25. ágúst 1994.
Úlfar lauk stúdentsprófi frá MA 1979, cand. oecon.-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1983 og löggildingu í verðbréfamiðlun árið 1988.
Úlfar starfaði hjá Búnaðarbanka Íslands frá 1984 til 2002, lengst af sem útibússtjóri í Kópavogi og einnig útibússtjóri á Selfossi, Flúðum og Laugarvatni. Síðan starfaði hann lengi sem forstöðumaður hjá Landsbanka Íslands, var framkvæmdastjóri hjá Íbúðalánasjóði um árabil og síðast starfaði hann sem framkvæmdastjóri Búmanna.
Úlfar var virkur félagsmaður í Rótarýklúbbi Kópavogs og síðar einn af stofnendum Rótarýklúbbsins Þinghóls í Kópavogi. Síðustu mánuðina glímdi hann við krabbamein. Útför hans fer fram frá Langholtskirkju í dag, 28. nóvember 2017, klukkan 13.
Farinn er góður drengur, eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Blákaldur raunveruleikinn blasir við, Úlli bróðir er dáinn.
Með þökk og sorg í hjarta minnist ég hans, hann lést fyrir aldur fram. Ekki nema 58 ára að aldri. Hver er tilgangurinn? Af hverju er tilveran stundum svona grimm? Hann skilur eftir risastórt skarð hjá fjölskyldu, ættingjum og vinum.
Sem lítill gutti fór Úlli alltaf í sveitina strax á vorin og skólinn var búinn, til afa og ömmu á Héðinshöfða, með nesti og nýja gúmmískó. Hann var í miklu uppáhaldi hjá þeim gömlu, enda natinn og góður drengur sem ekkert aumt mátti sjá. Svolítið stríðinn sér í lagi ef litla systir (ég) var einhvers staðar nærri.
Við systkinin ólumst upp í Vanabyggðinni á Akureyri í stórum vinahópi. Fullt af krökkum á svipuðum aldri. Mikið leikið úti á kvöldin. Farið í „Löggu og bófa“ og „Fallna spýtu“.
Við fluttum í Suðurbyggðina kringum 1970 og ekki var nú minna af krökkum þar.
Hann vann á Hótel KEA sem pikkoló eitt sumar og vann á vélum hjá vegagerðinni á Akureyri í sumarvinnu. Strax á menntaskólaárunum fór hann að vinna hjá Búnaðarbankanum í sumarvinnu. Eftir stúdentspróf stefndi hann í viðskiptafræði í HÍ. Vann sem bankastjóri Búnaðarbankans á Selfossi, vann í Búnaðarbankanum í Reykjavík og Landsbankanum einnig, Nú í seinni tíð vann hann í Íbúðalánasjóði og nú síðast hjá Búmönnum.
Úlli var mikill fjölskyldumaður. Fjölskyldan var í fyrrirúmi. Hann kynntist Þórdísi sinni í Reykjavík meðan hann var í viðskiptafræðinni, Þau eignuðust fjögur yndisleg börn; Yrsu, Hring, Baldvin Narfa og Hrafnkel Úlf. Úlfar og Þórdís áttu einn yndislegan tengdason, hann Pétur.
Úlli var með mikla bíladellu, átti sportbíla af flottustu gerð. Fór gjarnan með Hring á rúntinn á sunnudögum og þá voru gjarnan skoðaðar bílasölur.
Ég er heppin að hafa átt þig að sem bróður og á eftir að sakna þín óendanlega, en við hittumst síðar og þá verða fagnaðarfundir.
Við áttum hér saman svo indæla stund
sem aldrei mér hverfur úr minni.
Og nú ertu genginn á guðanna fund
það geislar af minningu þinni.
(Friðrik Steingrímsson)
Elsku Þórdís, Yrsa, Pétur, Hringur, Baldvin Narfi, Hrafnkell Úlfur, Mamma og pabbi. Guð gefi ykkur styrk í sorginni.
Minning um góðan dreng lifir í hjörtum okkar allra. Hafðu þökk fyrir allt og allt
Þin systir
Ingunn Indriðadóttir.
Meðal annars í Múlakoti sælureit fjölskyldunnar sem Úlfar tók ástfóstri við. Þar héldu Þórdís og Úlfar glæsilega brúðkaupsveislu sem lengi verður í minnum höfð.
Einnig ferðuðumst við saman hér heima og erlendis. Mikið áfall reið yfir fjölskylduna þegar Hringur slasaðist alvarlega í umferðaslysi árið 1998. Hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með dugnaði þeirra hjóna við að annast hann. Úlfar sýndi ótrúlega þrautseigju og ósérhlífni og fór meðal annars með Hring til Kína til að leita lækninga.
Eyddu þeir feðgarnir miklum tíma saman og var jafnan létt yfir þeim þegar þeir ráku inn nefið í sínum reglulegu hjólaferðum. Voru þá sagðir ófáir brandarar. Það var okkur öllum mikið áfall þegar Úlfar greindist með krabbamein nú í vor.
En Úlfar var ákveðinn í að takast á við veikindin af jákvæðni og sýndi mikið æðruleysi og styrk. Stórt skarð er nú hoggið í fjölskylduna sem verður ekki fyllt. Sorg og söknuður fylla hug okkar og hjörtu en um leið erum við óendanlega þakklát fyrir samfylgdina með honum og allar góðu minningarnar sem við eigum. Minningin um góðan dreng lifir.
Hver minning dýrmæt perla að liðn um lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Svanhvít, Snorri, Heimir,
Sólveig og Guðmundur.
Það er ekki langt síðan að hann hringdi í mig og sagði að nú væri ljótt í efni, hann hefði greinst með krabbamein.
Við vorum bjartsýnir að hann myndi vinna þessa glímu, en svo fór þó að lokum að hann gat ekki meira og veikindin sigruðu.
Ekki bara það að móðir mín og faðir hans væru náskyld, heldur var mikill samgangur á milli heimilanna.
Úlli var eins og stóri bróðir minn, hann var fjórum árum eldri, þannig að hann upplifði hlutina á undan mér og ég leit upp til hans.
Það var ekki leiðinlegt fyrir 13 ára strák eins og mig að vera boðið á rúntinn á flottum amerískum bílum, en Úlli var forfallinn bílaáhugamaður allt sitt líf.
Það var sama hvenær maður hafði samband við Úlfar, alltaf hafði hann tíma til skrafs og ráðagerða. Tala nú ekki um ef maður þurfti hjálp við bílakaup, þá var minn maður fljótur til.
Hann var einlægur náttúrunnandi með ríka réttlætiskennd sem aldrei mátti aumt sjá og vildi ávallt hjálpa þar til sem í hans valdi stóð, en umfram allt var hann góður drengur.
Ég sendi fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ketill Helgason.
Hvað er að frétta af Úlfari spurðu menn gjarnan síðustu mánuðina á fundum, hugsuðu hlýlega til hans og vonuðu að hann næði sér af veikindum sínum. Hann kom til okkar síðast á fund 1. júní. Eins og venjulega lá vel á honum, bjartsýnn og hlýlegur, sem einkenndi hann alla tíð. Við vonuðum allir að senn myndi hann ná sér og koma aftur á fundi.
Úlfar var einn af stofnendum klúbbsins og einn af þeim sem unnu ötullega að undirbúningnum.
Hann var öflugur félagi og var um tveggja ára skeið gjaldkeri klúbbsins og nú síðast viðtakandi ritari.
Það koma margar ljúfar minningar upp í hugann þegar hugsað er til hans. Það voru forréttindi að vera með honum í félagi og eiga hann að vini. Hann var heilsteyptur, velviljaður og hvers manns hugljúfi.
Við sendum fjölskyldu hans allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng lifir í hugum okkar allra.
Jón Guðlaugur Magnússon.
Leiðir okkar lágu saman í ársbyrjun 2011 þegar Úlfar réðst til starfa sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Íbúðalánasjóðs. Leysa þurfti úr margvíslegum verkefnum í kjölfar efnahagshrunsins og í hlut Úlfars kom að innleiða nýtt verkefni; fjárhagslega endurskipulagningu leigufélaga. Í þeim verkefnum nýttust vel mikil reynsla úr bankastarfsemi og það hversu vandvirkur og samviskusamur Úlfar var. Hann var líka strangheiðarlegur og þoldi ekki óheilindi.
Úlfar var mikill fjölskyldumaður og var stoltur af fjölskyldunni. Hann var svo ánægður að geta hjálpað henni Yrsu sinni með íbúðina og Hrafnkell og Narfi tókust á við hvert verkefnið á fætur öðru eins og gengur og gerist þegar menn vaxa úr grasi. Við dáðumst öll að því hversu duglegur hann var að finna upp á alls kyns ævintýrum fyrir þá feðga og þeirri einstöku natni og umhyggju sem hann sýndi honum Hring sínum.
En Úlfar var ekki bara virðulegur framkvæmdastjóri, hann var líka dellukarl sem hafði ástríðu fyrir kraftmiklum bílum. Imprezan hans hafði t.d. að geyma fleiri hestöfl en bílar okkar hinna samanlagt og það var skondið að sjá virðulegan framkvæmdastjórann snarast út úr unglingabílnum eða mæta í leðurgallanum í vinnuna á fáknum sínum. Úlfar var líka góður félagi og gott að leita til hans, hvort heldur var með fagleg mál eða bara spjall. Hann hafði næmt auga fyrir því spaugilega og var mikill sögumaður og hafði frá mörgu skemmtilegu að segja. Eitt sinn þegar honum fannst rútuferð um Akureyri með norræna gesti ekki nógu lífleg þá greip hann míkrófóninn og skemmti norrænum gestum með gamansögum af íbúum bæjarins. Úlfar var traustur vinur og gaman var að spjalla við hann og hlæja með honum til að létta daginn.
Við sáum svo á eftir Úlfari til starfa hjá Búmönnum hsf. þar sem hann tók við starfi framkvæmdastjóra félagsins. Hann hafði átt áralöng samskipti við félagið. Ráðning hans í það starf segir allt um hæfileika hans, fagmennsku og hæfileika í samskiptum við erfiðar aðstæður. Hann hafði einstakt lag á því að vinna faglega og hann naut mikils trausts og virðingar allra samferðarmanna sinna.
Við minnumst Úlfars með þakklæti fyrir þann tíma sem við áttum saman og sendum Þórdísi og börnunum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Minningin lifir um góðan dreng.
Félagar úr framkvæmdastjórn Íbúðalánasjóðs;
Ágúst, Gunnhildur,
Sigurður, Sigurður
Jón og Soffía.