Berglind lauk prófi, Master of Marriage and Family Theraphy, við St. Mary's University of Minnesota í Bandaríkjunum og starfar á Shalom sem er heildræn meðferðarstofa. En Berglind – er nóg að gera?
„Það er allt brjálað. Það er allt upppantað hjá mér fram í febrúar.“
Hvers vegna er það? Er þjóðin að ganga af göflunum?
„Nei, nei. Við erum bara að þroskast sem þjóð og einstaklingar. Við vitum orðið svo miklu meira um samspil einstaklinga og fjölskyldna en við vissum áður. Fólk er orðið meðvitaðra um þetta samspil og vill gjarnan vinna í málunum á uppbyggilegan hátt. Við erum öll á leiðinni út úr skápnum. Það er bara jákvætt.“
Berglind ólst upp í Breiðholtinu, dóttir Ólafs Jóhannessonar og Halldóru Ólafar Ágústsdóttur. Eiginmaður hennar er Björgvin Franz Gíslason, leikari og skemmtikraftur, og dætur þeirra eru Edda Lovísa og Dóra Marín Björgvinsdætur.
Berglind lauk prófi sem grunnskólakennari 2006. En hvers vegna lærði hún hjónabands- og fjölskyldufræði? „Ég fór að starfa innan Hjallastefnunnar, fékk þá áhuga á fjölskyldunni og meðlimum hennar og langaði að breyta til. Við fórum út 2011 og komum heim 2015. Það var ekki auðvelt að rífa alla upp með rótum, borða hrísgrjón í flest mál fyrst um sinn og þurfa að læra á fjármál heimilisins. En það var þess virði. Við ökum á gömlum beygluðum Ford Focus, búum í gömlu, góðu íbúðinni okkar og ætlum að nýta fjármunina í ferðalög og aðra uppbyggilega reynslu fyrir fjölskylduna.“