Ingibjörg Ólafsdóttir fæddist á Akranesi 19. júlí 1925. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi 19. nóvember 2017.
Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur B. Björnsson ritstjóri, f. 6.7. 1895, d. 15.5. 1959 og María Ása Ólafsdóttir Finsen, f. 24.9. 1902, d. 7.8. 2001. Bróðir Ingibjargar var Ólafur Björn, f. 29.11. 1923, d. 22.2. 2015. Uppeldissystir þeirra var Kolbrún Ólafsdóttir, f. 24.4. 1940, d. 15.8. 2006.
Ingibjörg giftist 3. júlí 1948 Valdimar Indriðasyni, framkvæmdastjóra og alþingismanni, f. 9.9. 1925, d. 9.1. 1995. Foreldrar hans voru Vilborg Þjóðbjarnardóttir, f. 2.1. 1903, d. 12.7. 1984 og Indriði Jónsson vélstjóri, f. 2.2. 1899, d. 20.1. 1933. Seinni maður hennar var Kristján Þorsteinsson f. 20.11.1908, d. 16.8.1989.
Börn Ingibjargar og Valdimars eru: 1) Indriði, skrifstofustjóri, f. 1948. Kona hans er Sigurlaug Guðmundsdóttir og eiga þau þrjú börn, Sigríði, Ingibjörgu og Valdimar. 2) Ása María, leiðsögumaður og kennari, f. 1950. Maki var Svavar Haraldsson. Þau skildu en eiga tvo syni, Valdimar og Ólaf Má. 3) Ingveldur, útibússtjóri, f. 1954, d. 1992. Eftirlifandi maki er Lúðvík Ibsen Helgason og eiga þau þrjú börn; Þóri Björn, Vilborgu og Ingólf.
Ingibjörg ólst upp á Neðri Skaganum. Eftir hefðbundna skólagöngu þess tíma vann hún við ýmis störf á Akranesi áður en hún fór suður til náms í Húsmæðraskólanum. Síðar nam hún píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún kenndi á píanó í einkatímum og við Tónlistarskólann á Akranesi, en helgaði sig þó aðallega húsmóðurstörfum eftir giftingu. Þegar börnin voru komin á legg vann hún við skrifstofu- og verslunarstörf, m.a. í verslun Helga Júlíussonar úrsmiðs. Ingibjörg og Valdimar hófu búskap á loftinu hjá foreldrum hennar að Háteigi 16 (sem áður var Miðteigur og enn áður Unnarstígur) en byggðu síðan hús við hliðina að Háteigi 14. Þar bjuggu þau lengst af en áttu þó annað heimili í Reykjavík þegar Valdimar var á þingi 1983-1987. 1993 fluttu þau að Höfðagrund 21. Valdimar lést 1995, en frá janúar 2014 til dauðadags bjó Ingibjörg á dvalarheimilinu Höfða. Ingibjörg starfaði mikið á vettvangi kirkjunnar, söng í kirkjukórnum og var um árabil í sóknarnefnd. Einnig var hún fararstjóri í Hvanneyrarferðum eldri borgara á vegum kirkjunnar. Hún starfaði mikið í Oddfellowreglunni og var einn af stofnendum Rebekkustúkunnar nr. 5, Ásgerðar. Einnig var hún um árabil í stjórn Tónlistarfélags Akraness.
Útför Ingibjargar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 28. nóvember 2017, klukkan 13.
Hlýja, þakklæti og einlæg gleði koma upp í hugann þegar ég hugsa til ömmu Ingibjargar. Amma var alltaf svo einlæglega glöð þegar ég kom í heimsókn. Ég fékk ávallt hlýjar móttökur hjá henni og við vorum báðar þakklátar hvor fyrir aðra.
Barnæskuminningarnar með ömmu Ingibjörgu eru ljúfar. Þær eru óteljandi stundirnar sem við áttum saman í sumarbústaðnum hennar og afa Valda í Ölveri.
Amma ræktaði þar jarðarber af mikilli natni en það tíðkaðist nú ekki víða á þeim tíma. Berin voru afar ljúffeng. Amma var líka með rabarbararækt í Ölveri og það var sá rauðasti rabarbari sem ég hef séð á ævinni. Úr honum gerði hún einstaklega bragðgóðan rabarbaragraut sem við frændsystkinin elskuðum og gátum aldrei fengið nóg af.
Ég var svo heppin að fá að búa í sama bæjarfélagi og amma Ingibjörg og afi Valdi og var því oft að þvælast hjá þeim á Háteignum. Við amma vorum báðar miklir sælkerar og After Eight var í algjöru uppáhaldi hjá okkur.
Hún átti gjarnan kassa af After Eight í borðstofuskenknum og bauð nú stundum litlu ömmuskottunni með sér. Enn þann dag í dag fyllist hjartað mitt af góðum minningum frá Háteignum við það eitt að opna After Eight kassa og finna ljúfan piparmyntuilminn.
Amma var alltaf með spilastokk við höndina enda elskaði hún að leggja kapla og spila á spil.
Þegar ég var lítil sátum við stundum tímunum saman og spiluðum rommý eða marías, bæði á Háteignum og í Ölveri. Amma var mikil félagsvera og þau afi áttu marga vini og kunningja og oftar en ekki var gripið í spil þegar gesti bar að garði.
Ég fékk að vera með og fannst það alltaf mikil upphefð að fá að spila og spjalla með fullorðna fólkinu. Amma var líka snillingur í að töfra fram dýrindis veislur, jafnvel þó að ein og ein skál með grænum baunum hafi stundum gleymst í örbylgjuofninum.
Við gátum báðar verið dálítið utan við okkur og hlógum oft að því.
Við amma tengdumst mjög sterkum böndum eftir að afi Valdi dó og urðum mjög nánar í seinni tíð.
Við pössuðum vel upp á hvor aðra og hittumst oft. Amma var röggsöm og sjálfstæð og ég dáðist oft að því hvað hún var dugleg að þvælast út um allt á litla bílnum sínum, bæði með vinkonum sínum eða bara til að heimsækja vini og ættingja.
Hún hafði líka mjög gaman af því að vera með dætrum mínum eftir að við fluttum aftur á Akranes eftir námsárin í Reykjavík og nutu þær oft félagsskapar langömmu sinnar eftir skóla eða leikskóla. Það er ómetanlegt til þess að hugsa í dag hvað við vorum heppnar að fá að njóta samvista hver við aðra. Þrjár kynslóðir. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.
Amma Ingibjörg var glæsileg kona í alla staði, með góða nærveru og fallega sál. Hún var bæði vinkona mín og fyrirmynd og ég mun alltaf geyma minninguna um hlýja, mjúka faðmlagið hennar og allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman.
Takk fyrir allt, elsku amma. Hvíldu í friði.
Sigríður Indriðadóttir.
Mér þótti afskaplega vænt um hana frænku mína, sem ég fékk blessunarlega að eiga samleið með lengi og vel. Við vorum góðar vinkonur, áttum ýmis sameiginleg áhugamál og samgangurinn var reglulegur alla tíð.
Það var alltaf notalegt að koma í heimsókn til hennar, hvort heldur var á Háteiginn, þar sem hennar ljúfi og virðulegi eiginmaður Valdimar lagði sitt til gestrisninnar, eða á Höfðagrundina þar sem andi Háteigsins varðveittist einstaklega vel.
Alltaf var mín með bakkelsi á borðum og hér á árum áður þótti mér hún skemmtilega áhugasöm um að prufa nýjar uppskriftir, þegar víðast hvar annars staðar voru sömu klassísku kökurnar í umferð.
Og hún var líka snjöll hannyrðakona, heklaði mikið og alltaf var gaman að grandskoða nýjustu gripina, frá dúllum til dúkkufata.
Þá má ekki láta þess ógetið að hún var sjálf ævinlega vel til höfð, hafði gaman af fínum og litríkum fötum í tilteknum tónum sem fóru henni vel og við tengjum ósjálfrátt enn hennar nafni.
Ingibjörg var rösk, kát og félagslynd kona, hún var m.a. í Oddfellow-stúkunni og í Kirkjunefnd Akraneskirkju, sem leiddi til þess að ég tók einnig sæti í Kirkjunefndinni, rétt eins og amma Ása, móðir Ingibjargar, hafði gert á sínum tíma. Auk þess söng hún lengi með Kirkjukór Akraness og var liðtæk á píanóið í stofunni.
Í jólaboðunum hjá Ingibjörgu var eins og gefur að skilja alltaf skemmtilegt. Með hverjum áratug stækkaði líka fjölskyldan og teygði út anga sína; Ingibjörg á nú myndarlegan hóp afkomenda sem henni var mjög kær og hlýjan var úr öllum áttum gagnkvæm.
Að leiðarlokum vil ég ásamt Þresti og dætrum mínum tveimur þakka Ingibjörgu hjartanlega fyrir samfylgdina og votta Ásu Maríu, Indriða og fjölskyldum þeirra hugheila samúð.
Guðmunda Ólafsdóttir (Búbba).
Í næsta húsi við okkur bjuggu Ingibjörg og maður hennar, Valdimar Indriðason, ásamt þremur börnum sínum, Indriða, Ásu Maríu og Ingveldi, sem lést langt um aldur fram fyrir mörgum árum. Það tókust góð kynni með okkur og öllu þessu ágæta fólki og hefur sú vinátta haldist æ síðan. Þegar ég hóf störf sem organisti sungu þau bæði í kirkjukórnum hjá mér, Valdimar, með sína djúpu og hreinu bassarödd, og Ingibjörg með sína hreinu og einstaklega fallegu altrödd. Mér er mjög minnisstæð ástundun Ingibjargar í kórnum og hvað hún lifði sig inn í verkefnin, sem voru á þeim tíma, m.a. eftir Bach, Schütz, Pergolesi og marga aðra. Við flutning verkanna voru kórfélagar yfirleitt með blað eða bók í hönd og þannig var efnisskráin sungin. Eitt sinn kom Ingibjörg á æfingu og söng alla efnisskrána án nótna og prentaðs texta. Þetta hafði þau áhrif, að ekki leið á löngu þar til allur kórinn söng utanbókar heila efnisskrá.
Hún sagði mér síðar meir, að hún hefði tekið sig til, í heila viku, að læra þetta við píanóið, því hún lék á píanó.
Hún hafði verið við nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og var ennfremur um nokkurra ár skeið kennari við Tónlistarskólann á Akranesi. Það er hverjum kórstjóra happ að hafa með sér áhugasamt fólk og mikill munur að geta horft í augu þeirra er flytja fagurt tónverk og að geta þá með augunum gefið söngfólkinu merki um túlkun og fagran flutning.
Með þessum fáu orðum vil ég tjá þakklæti okkar Grímhildar og sona okkar, Braga Leifs og Guðlaugs Inga, til Ingibjargar, fyrir góð kynni og góðar stundir með henni og fjölskyldu hennar fyrr og síðar.
Haukur Guðlaugsson.