Í höllunum
Sindri Sverrisson
Kristófer Kristjánsson
Hún er heldur betur góð búbótin sem í því felst fyrir Hauka að hafa endurheimt Adam Hauk Baumruk. Þrátt fyrir að hann sé enn að safna upp fyrri styrk eftir glímu við hinn skæða sjúkdóm einkirningasótt þá munaði mikið um Adam í 30:26-sigri Hauka á Val í 11. umferð Olís-deildarinnar í handbolta í gærkvöld. Heimamenn í Val misstu af tækifæri til að fara á topp deildarinnar og misstu Hauka upp fyrir sig í 2. sæti, en bæði lið eru með 17 stig nú þegar deildarkeppnin er hálfnuð.
Haukar voru stuttu skrefi á undan nánast allan leikinn við Val í gær. Staðan í hálfleik var þó jöfn, 13:13, en það munaði talsvert um það fyrir heimamenn þegar Ýmir Örn Gíslason fékk sína þriðju brottvísun, sautján mínútum fyrir leikslok, en hann fékk með skömmu millibili brottvísanir fyrir brot á Adam. Adam skoraði auk þess fimm mörk í leiknum og gekk vasklega fram í vörninni, en þó mátti glögglega sjá að hann mæddist hraðar en áður en hann veiktist. Líklega verður þessi öfluga skytta ekki komin í sitt fyrra form fyrr en eftir jóla- og EM-hléið langa, en það er nú einu sinni þá sem að titlarnir eru í boði. Miðað við skakkaföllin sem Haukar hafa þurft að glíma við á fyrri hluta tímabilsins hljóta þeir að geta vel við unað að vera einu stigi frá efsta sætinu.
Atli Már Báruson var sínum gömlu félögum í Valsliðinu afar erfiður. Hann skoraði sex mörk í leiknum og virðist einkar lagið að búa til mörk upp úr engu þegar fátt virðist í spilunum og nauðsynlegt að einhver taki af skarið. Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, sagði við Morgunblaðið eftir leik að vissulega hefði félagið viljað halda Atla í sumar en að hann hefði talið sig fá fleiri tækifæri hjá Haukum. Ef til vill naga Valsmenn sig í handarbakið nú að hafa ekki sótt það fastar að Atli yrði áfram á Hlíðarenda.
Valsmenn voru alls 14 mínútur manni færri í leiknum og voru oft sjálfum sér verstir við þær aðstæður. Haukar fengu að skora nokkur auðveld mörk í autt mark Vals þegar heimamenn skiptu markverði sínum út, til að mynda í lokin þegar Haukar náðu í fyrsta sinn meira en þriggja marka forystu í þessum annars spennandi leik.
Afturelding rétti úr kútnum
Afturelding vann ÍR, 33:29, í Austurbergi. Þetta var fjórði sigur liðsins í síðustu fimm leikjum en Mosfellsbæingar höfðu ekki unnið einn einasta í fyrstu sex þar áður. Árni Bragi Eyjólfsson átti stórleik fyrir Aftureldingu og skoraði 13 mörk, flest þeirra úr hraðaupphlaupum sem öflugur varnarleikur liðsins bjó til.ÍR-ingar fóru hrikalega illa af stað í leiknum og benti allt til þess að þetta yrði þægilegt fyrir gestina. Heimamönnum tókst þó að snúa taflinu við og jafna metin í 15:15 snemma í síðari hálfleik. Var það fyrst og fremst Bergvini Þór Gíslasyni að þakka en hann skoraði 11 mörk og var erfiður viðureignar. Eftir þetta koðnuðu þeir þó aftur niður og fóru ítrekað að gefa boltann illa frá sér, eitthvað sem Afturelding refsaði fyrir í hvert skipti. Eftir sterka byrjun á mótinu hafa ÍR-ingar nú tapað sex af síðustu sjö deildarleikjum sínum og þurfa þeir að fara líta um öxl enda botnliðin mörg hver farin að vinna leiki sína. Það vantar auðvitað gífurlega sterka leikmenn á borð við Björgvin Þór Hólmgeirsson í ÍR-liðið og mun það sennilega reynast góð innspýting að fá þá til baka eftir áramót.
Hjá Aftureldingu gekk flest upp í gær. Lárus Helgi Ólafsson varði vel enda vörnin fyrir framan hann gífurlega sterk og svo voru helstu burðarásarnir í sóknarleiknum allir að skora; fyrrnefndur Árni Bragi og svo þeir Ernir Hrafn Arnarson og Elvar Ásgeirsson með sitthvor sjö mörkin. Liðið hefur verið að vinna sig vel upp töfluna eftir erfiða byrjun og er til alls líklegt í framhaldinu ef það heldur svona áfram þegar horft er til mannskapsins. Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, vildi þó ekki taka undir með blaðamanni að liðið væri komið til baka eftir slæma byrjun. „Mér fannst við aldrei fara neitt, við vorum í veseni en höfðum fulla trú á því að við myndum snúa því við. Við höfum ekki látið einhverja fjölmiðla telja okkur trú um annað.“