Stjórnandinn Arndís Björk Ásgeirsdóttir stýrir keppni.
Stjórnandinn Arndís Björk Ásgeirsdóttir stýrir keppni.
Spurningakeppni af ýmsu tagi getur verið með besta efni ljósvakamiðla, meðan fólk heldur sig við spurningar og svör en fer ekki út í hlaup, látbragðsleik eða annan viðlíka kjánaskap.

Spurningakeppni af ýmsu tagi getur verið með besta efni ljósvakamiðla, meðan fólk heldur sig við spurningar og svör en fer ekki út í hlaup, látbragðsleik eða annan viðlíka kjánaskap. Þegar þekkingu og gáfum þátttakenda er ekki treyst til að skemmta þeim sem horfa eða hlýða á, og gripið til fíflaláta, þá kárnar gamanið fljótt.

Kontrapunktur er einhver eftirminnilegasta spurningakeppni sem boðið hefur verið upp á í sjónvarpi hér á landi en þar kepptu fulltrúar Norðurlandanna í þekkingu á klassískri tónlist. Þættirnir voru bráðskemmtilegir og einstaklega upplýsandi; trúi ég að margir sem á horfðu hafi kynnst tónskáldum og verkum sem hafa glatt sálartetur þeirra síðan.

Um þessar mundir stýrir Arndís Björk Ásgeirsdóttir, þáttagerðarkona á Rás 1, stórfínum og áheyrilegum þáttum, Hvað er að heyra?, spurningaleik um tónlist þar sem þátttakendur eru beðnir um að þekkja tónverk frá ýmsum tímaskeiðum tónlistarsögunnar. Tveggja manna lið etja kappi, skemmtilega saman sett, til að mynda systkini og fræðimenn, og ræða þáttakendur sig á afslappaðan hátt að niðurstöðum um tóndæmin sem gefin eru – og fá stig fyrir.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson