Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
„Við erum nú að safna í neyðarsjóðinn fyrir komandi jól sem nýttur er til matarkaupa handa þeim einstaklingum sem lægstu framfærsluna hafa,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, spurð hvernig jólaúthlutun hjá þeim gangi. „Manni finnst ástandið ekki vera nógu gott.“
Alls höfðu sl. föstudag 300 fjölskyldur, eða 750 einstaklingar, sótt um aðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands fyrir komandi jólahátíð. „Þessi fjöldi á eftir að aukast enn frekar því við munum taka á móti skráningum [í dag] og á miðvikudaginn í Reykjavík og fyrir Suðurnesin verður tekið á móti skráningum fyrstu vikuna í desember. Þetta verður því ekki minni fjöldi en í fyrra, því miður,“ segir Ásgerður Jóna.
Jólaúthlutunin fyrir einstaklinga fer fram í Iðufelli 14 í Reykjavík 18. desember næstkomandi og fyrir fjölskyldufólk á sama stað 20. desember. Á Suðurnesjum fer úthlutun fram á Baldursgötu 14 í Reykjanesbæ 22. desember.
Fjölskyldum fækkar
Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, segist eiga von á svipuðum fjölda umsókna í ár og í fyrra. Hún segir þó ekki útilokað að umsóknirnar verði eilítið færri nú. „Það koma hingað um 400 manns á viku, fjöldinn hefur aðeins minnkað frá því sem áður var. En fyrir um ári síðan var talan um 600,“ segir Anna H. í samtali við Morgunblaðið. „Efnahagur fólks virðist því aðeins vera að batna. Við finnum a.m.k. fyrir því að fjölskyldunum hefur örlítið fækkað.“Aðspurð segir hún Mæðrastyrksnefnd eiga von á um 1.000 umsóknum fyrir þessi jól, borið saman við 1.200 í fyrra. „Þetta er 1.000 umsóknum of mikið,“ segir Anna H.
Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur er með matarúthlutanir fyrir einstaklinga á þriðjudögum og fyrir fjölskyldur á miðvikudögum. Fyrstu vikuna í mánuði er hins vegar haldin fataúthlutun.
Jólaúthlutun fer fram 20. desember á Korputorgi í Reykjavík. „Við verðum með fataúthlutun 6. desember og síðan verður jólaúthlutunin, sem er mjög stór og umfangsmikil,“ segir Anna H.
Jólaaðstoð
» Fjölskylduhjálp Íslands úthlutar nauðsynjum til fólks 18. og 20. desember í Reykjavík og 21. desember á Suðurnesjum.
» Úthlutun Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur fer fram 20. desember.