Sigríður Eygló Gísladóttir fæddist í Ólafsfirði 9. ágúst 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlévangi 20. nóvember 2017.
Foreldrar Eyglóar voru Lára Guðmundsdóttir frá Ólafsfirði og Gísli Vilhelm Guðmundsson vélstjóri frá Eyrabakka. Stjúpi Eyglóar var Vilmundur Rögnvaldsson. Gísli faðir Eyglóar lést 1933 og ólst Eygló upp hjá afa sínum og ömmu, Guðmundi Jónssyni og Sigríði Þorsteinsdóttur frá Ólafsfirði.
Systkini Eyglóar eru Polly Gísladóttir, f. 2. apríl 1931, og Brynjar Vilmundarson, f. 4. september 1937.
Að lokinni skólagöngu fór Eygló í vist til Akureyrar hjá Indriða Helgasyni kaupmanni og Laufeyju Jóhannsdóttur konu hans. Eftir þá vist fór hún í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Eygló vann síðan á Hótel KEA á Akureyri. Árið 1948 fór Eygló suður með öðru vertíðarfólki frá Ólafsfirði til Keflavíkur að flaka og pakka fiski. Þar kynntist hún eiginmanni sínum Garðari Jónssyni frá Keflavík. Eftir þessa vertíð fór Eygló til Reykjavíkur og vann á Hótel Borg. Leiðin lá síðan suður til Keflavíkur þar sem Eygló vann við ýmis störf hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.
Eygló og Garðar giftu sig 27. október 1951 og eignuðust tvo syni, Sigmund, f. 26. júní 1954, og Gísla f., 17. júlí 1958. Eiginkona Gísla er Kolbrún Gunnarsdóttir, f. 11. apríl 1962, og eiga þau þrjú börn, Sigríði Eygló, f. 1988, Kristin, f. 1990, og Garðar, f. 1993.
Garðar og Eygló hófu sinn búskap á Garðavegi 2 í Keflavík. Þau byggðu síðan tvö hús í Keflavík, Skólaveg 34 og Háaleiti 25, en þar bjuggu þau í 40 ár. Síðustu árin bjuggu þau á Efstaleiti 51 í Keflavík. Eygló fékk heilablóðfall í júlí 1999 og lamaðist hún vinstra megin. Garðar hugsaði um hana á heimili þeirra þar til hún fluttist á hjúkrunarheimilið Hlévang í janúar 2012 eftir að hafa verið eitt ár á spítalanum í Keflavík. Garðar lést 2. maí 2014.
Útför Eyglóar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 28. nóvember 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.
Sigríður Eygló Gísladóttir, tengdamóðir mín, lést 20. nóvember og ég á eftir að sakna hennar mikið. Ég kynntist henni fyrst þegar ég var 16 ára gömul og er hún búin að vera í lífi mínu meira en helming ævi minnar.
Hún hefur reynst mér og mínum vel öll þessi ár og sýnt okkur mikinn hlýhug og elsku. Eygló var glæsileg kona sem var alltaf vel til höfð. Heimilið hennar var fallegt og hún átti yndislegan mann og yndislega syni. Eygló var trúuð kona, hún kunni marga sálma og í sálmabókinni henni hefur hún merkt við alla þessa sálma sem sungnir verða yfir henni. Eygló gat verið ákveðin, hvöss og hún stóð fast á sínu en hún var umfram allt skemmtileg kona. Við höfum öll okkar kosti og galla en hún var tengdamóðir mín og ég elskaði hana.
Eygló og Garðar voru gift í yfir 60 ár. Þau voru afar samrýnd hjón og aðskilnaður seinustu árin var þeim erfiður. Garðar lést 2014 og var missir Eyglóar mikill.
Eftir að börnin okkar þrjú, Eygló, Kristinn og Garðar, fæddust voru þau Garðar og Eygló alltaf hjá okkur á páskum, jólum og áramótum. Eftir að Garðar lést hélt Eygló áfram að halda jól hjá okkur. Í ár verða þau hvorugt hjá okkur og það verða mikil viðbrigði.
Eygló var með skýr fyrirmæli um hvernig jarðarförin hennar ætti að fara fram, henni var ekki sama hvernig hún kveddi sitt jarðneska líf. Hún var búin að skrifa niður þessar óskir sínar og minnti reglulega á þær. Hún endaði síðan á því að þakka skyldi auðsýnda samúð og biðja alla Guðs blessunar.
Eygló mun lifa í minningum okkar og ég trúi því að bæði hún og Garðar muni fylgjast með okkur og vernda alla tíð.
Kolbrún Gunnarsdóttir.
Sigríður Eygló Gísladóttir.