Fundur Margir íbúar svæðisins sem orðið getur fyrir áhrifum af völdum goss í Öræfajökli mættu til fundarins.
Fundur Margir íbúar svæðisins sem orðið getur fyrir áhrifum af völdum goss í Öræfajökli mættu til fundarins. — Morgunblaðið/Sigurður Gunnarsson
Þorgerður Anna Gunnarsdóttir thorgerdur@mbl.is Íbúafundur um stöðu mála í Öræfajökli var haldinn Hofgarði í Öræfum í gærkvöldi, en fundinum var frestað vegna veðurs í síðustu viku.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

thorgerdur@mbl.is

Íbúafundur um stöðu mála í Öræfajökli var haldinn Hofgarði í Öræfum í gærkvöldi, en fundinum var frestað vegna veðurs í síðustu viku.

Á fundinum töluðu sérfræðingar sem fóru yfir stöðuna í jöklinum, sem og fulltrúar frá lögreglu auk þess sem fulltrúar frá Almannavörnum voru á staðnum til þess að svara fyrirspurnum. Markmið fundarins var að upplýsa íbúa svæðisins um þróun aðstæðna í jöklinum.

Tómas Jóhannsson, fagstjóri á sviði jöklafræði hjá Veðurstofu Íslands, fór yfir atburðarásina í jöklinum undanfarnar vikur og túlkaði þær mælingar sem fyrir liggja. Í gær var flogið með radarmæli yfir jökulinn til að afla nýrra upplýsinga um sig sigketilsins sem myndast hefur í Öræfajökli. „Hann heldur áfram að dýpka í svipuðum takti og verið hefur,“ sagði Tómas í samtali við Morgunblaðið fyrir fundinn.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, kom einnig fram á fundinum og sagði frá því hvernig Veðurstofan hefði brugðist við með bættri vöktun á svæðinu. Hún útskýrði hvar mælar hefðu verið settir upp og hvernig þeir gætu hjálpað til við vöktun eldstöðvarinnar. Í samtali við blaðamann fyrir fundinn sagði hún fleiri mæla verða setta upp í vikunni, auk þess sem fleiri mælar hefðu verið pantaðir og óskað hefði verið eftir auknum fjármunum til verkefnisins.

Fyrir hönd lögreglunnar á Suðurlandi fór Víðir Reynisson yfir fyrstu hugmyndir að rýmingaráætlun með íbúum svæðisins. Sóst var eftir áliti þeirra á því hvernig rýming í þrepum gæti farið fram, auk þess sem neyðarrýmingaráætlunin sem kynnt var í síðustu viku var rædd. Reynir sagði mikilvægt að íbúar gætu komið því á framfæri ef eitthvað væri í ólagi við áætlunina.