Þjóðleikhúsið býður meira en átta þúsund grunn- og leikskólabörnum í leikhús í vetur. Tíunda árið í röð er efstu deildum leikskóla boðið í Sögustund að fylgjast með brúðumeistaranum Bernd Ogrodnik auk þess sem sýningin Oddur og Siggi er sett upp á 25 stöðum á landsbyggðinni og öllum börnum á aldrinum 10-12 ára boðið að sjá verkið.
„Þjóðleikhúsið hefur um árabil sinnt mikilvægu uppeldishlutverki og gert fjölda barna kleift að upplifa leikhús burtséð frá efnahag,“ segir í tilkynningu frá leikhúsinu. Þar er á það bent að Þórhallur Sigurðsson hafi lengi sinnt barnastarfi Þjóðleikhússins, en á síðasta ári bættist honum liðsauki þegar leikarinn Björn Ingi Hilmarsson var ráðinn í barna- og fræðsludeild. Björn Ingi leikstýrði Oddi og Sigga og skrifaði sýninguna í samstarfi við Odd Júlíusson og Sigurð Þór Óskarsson. „Okkur langaði að finna áhugaverða leið að því að tala um einelti, en um leið langaði okkur að tala um vináttuna,“ sagði Oddur í viðtali við Morgunblaðið þegar sýninign var frumsýnd á Ísafirði í október.