Ógnandi Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Valencia á Spáni, lék í tæpar 22 mínútur og varði meðal annars sex skot frá Búlgörunum í leiknum.
Ógnandi Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Valencia á Spáni, lék í tæpar 22 mínútur og varði meðal annars sex skot frá Búlgörunum í leiknum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Höllinni Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik er í erfiðri stöðu á botni F-riðils í undankeppni heimsmeistarakeppninnar 2019 eftir tvo leiki.

Í Höllinni

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik er í erfiðri stöðu á botni F-riðils í undankeppni heimsmeistarakeppninnar 2019 eftir tvo leiki. Ísland missti niður góða stöðu gegn Búlgaríu í Laugardalshöll í gærkvöld og tapaði 74:77. Liðið tapaði á dögunum fyrir Tékklandi ytra sem vann Finnland í Helsinki í gær 64:56. Finnland og Búlgaría eru því með sitt hvorn vinninginn en Ísland leikur næst heima gegn Finnlandi og Tékklandi í lok febrúar.

Nokkuð er síðan íslenska landsliðið tapaði mikilvægum leik í Laugardalshöllinni en það var haustið 2014 í lokaleik undankeppni EM gegn Bosníu en Ísland komst þá engu að síður í lokakeppni EM þrátt fyrir tapið. Ekki var heldur mikill heimavallabragur á þessum leik. Körfuboltaunnendur fylltu ekki Höllina og liðið fékk ekki mikinn stuðning af pöllunum. Alla vega ekki miðað við það sem ætti að vera sjálfsagt í mikilvægum leikjum en áhorfendur tóku nokkrum sinnum við sér þegar íslensku landsliðsmennirnir höfðu átt verulega góð tilþrif.

Sigurhefðina vantar

Eins og stundum áður á íslenska liðið erfitt með að ljúka jöfnum leikjum með því að landa sigri. Hefur maður oft orðið vitni að þessu, bæði í Laugardalshöllinni fyrir nokkrum árum, til dæmis gegn þessu sama liði, Búlgaríu, fyrir fjórum árum, einnig gegn Slóvakíu árið 2012 fyrir utan leiki í lokakeppnum EM gegn Ítalíu, Tyrklandi og Finnlandi.

Hér er um raunverulegt vandamál að ræða sem þjálfarateymið þarf að nálgast. Lítil sem engin hefð fylgir íslenska landsliðinu í körfuknattleik. Af og til hafa komið rispur, til dæmis þegar Péturs Guðmundssonar naut við, og liðið spilaði við sterkar þjóðir fyrir um aldarfjórðungi.

Vandi sem þarf að takast á við

Ég er sannfærður um að andlegi þátturinn er ekki afgreiddur rétt miðað við það sem ég hef séð undanfarið í lokakeppni EM og í Höllinni í gærkvöld. Ef þjálfararnir búa ekki yfir slíkri hæfni þá þurfa þeir einfaldlega að fá íþróttasálfræðing til aðstoðar. Sem ættu í raun að vera sjálfsögð vinnubrögð hjá metnaðarfullum landsliðum.

Mér finnst ýmislegt renna stoðum undir þær vangaveltur. Þegar ég horfði á nokkra af lykilmönnum íslenska liðsins í gær þá fannst mér þeir vera með byrðar heimsins á herðunum. Leikurinn var vissulega mikilvægur því liðið sem hafnar í neðsta sæti riðilsins þarf að fara í forkeppni fyrir EM 2021 og vinna sig þaðan inn í undankeppni. En það hefði þurft að keyra upp betri stemningu í íslenska hópnum í stað þess að leikmenn væru allir grafalvarlegir og stutt var í pirringinn að því er virtist. Þegar mikið er undir þarf að skapa andrúmsloft þar sem menn þora að vinna leiki. Á lokamínútunum í gær virtust margir skríða inn í skelina.

Ein skýringin kann að vera sú að íslensku landsliðsmennirnir eru vanir því að Jón Arnór Stefánsson taki af skarið á lokamínútunum í spennandi leikjum. Nú nýtur hans hins vegar ekki við og einhvern tíma þurfa aðrir að taka við keflinu. Martin Hermannsson hafði til dæmis leikið ljómandi vel í sókninni í tæplega tvo leiki en síðan varð maður lítið var við hann á lokamínútunum. Er það ekki vísbending um að taugaspennan segi til sín? Hér er að sjálfsögðu ekki verið að kenna Martin um hvernig fór því hann skilaði góðri frammistöðu í sókninni en þetta er ein af þeim spurningum sem vakna varðandi spennustigið hjá íslenska liðinu.

Jakob tók af skarið

Martin var stigahæstur með 21 stig og gerði því samtals 50 stig í leikjunum tveimur í undankeppninni. Jakob Örn Sigurðarson kom sterkur inn í landsliðið og skoraði 18 stig. Hann átti stóran þátt í því þegar Ísland náði góðu forskoti í fyrri hálfleik. Lenti það töluvert á Jakobi að taka mikilvæg skot undir lok leiksins og setti hann niður þriggja stiga skot og minnkaði muninn í 70:71. En hann brenndi einnig af skoti af stuttu færi. Jakob þorði þó að reyna fyrir sér og það verða menn að gera þegar spennan er mikil.

Haukur Helgi Pálsson meiddist á ökkla þegar örfáar mínútur voru eftir en spilaði engu að síður á lokamínútunum. Hann virtist þó vera haltur. Tryggvi Snær Hlinason lék vel og varði til dæmis 6 skot. Hann var lítið notaður á lokakaflanum þar sem þjálfurunum fannst hann lenda í vandræðum í vörninni í vissum aðstæðum.