Lögregluforinginn „Fares er eins og fæddur í hlutverk lögregluforingjans, sem reynir að komast af við aðstæður þar sem engum er að treysta og auðvelda leiðin getur þýtt að hann komist í gegn heill á líkama en með sálartetrið í molum, en að breyta rétt getur kostað lífið,“ segir um frammistöðu Fares Fares í Atvikinu á Nile Hilton-hótelinu.
Lögregluforinginn „Fares er eins og fæddur í hlutverk lögregluforingjans, sem reynir að komast af við aðstæður þar sem engum er að treysta og auðvelda leiðin getur þýtt að hann komist í gegn heill á líkama en með sálartetrið í molum, en að breyta rétt getur kostað lífið,“ segir um frammistöðu Fares Fares í Atvikinu á Nile Hilton-hótelinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Tarik Saleh. Leikarar: Fares Fares, Mari Malek, Yasser Ali Maher og Hania Amar. Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland og Frakkland. 2017. 106 mínútur.

Sagan hefst 11. janúar 2011. Dagsetningin skiptir máli því það kraumar undir niðri í Kaíró og ólgan nálgast yfirborðið og óvíst er hvort lögmál gærdagsins verði í gildi á morgun. Ung kona finnst látin í herbergi á einu fínasta hótelinu í Kaíró. Eina vitnið er svört ræstingakona, innflytjandi frá Súdan, sem sá hverjir komu og fóru úr herberginu. Ungum lögregluforingja, Noredin Mostafa, er falin rannsókn málsins og verður fljótt ljóst að það er ekki lykilatriði að finna hinn seka. Spurningin er hins vegar hvað Mostafa eigi að gera. Á hann að rannsaka málið nánar, eða fara þægilegu leiðina og gera ekki meira en þarf.

Spillingin grasserar í egypska stjórnkerfinu. Lögreglan tekur fullan þátt og Mostafa er þar engin undantekning. Það sést þegar í upphafi þegar hann skoðar veski fórnarlambsins og stingur peningunum í því beint í vasann. Allir eru á mála og í krafti peninga er hægt að komast upp með hvað sem er. Það er hins vegar erfitt að sjá að hægt sé að standa fyrir utan spillinguna og lögreglumaður, sem ákveður að starfa af heilindum leggur sig beinlínis í hættu.

Síðan er ljóst að rétt eins og það er ekki hægt að vera pínulítið óléttur er erfitt að vera bara dálítið spilltur. Mörkin færast jafnt og þétt og skyndilega eru mannslíf í húfi.

Mostafa hefur greinilega komið sér þægilega fyrir. Hann þiggur fé á eftirlitsferðum sínum um borgina og er á uppleið í lögreglunni. Rannsókn morðsins er hins vegar erfiðara verkefni en hann á að venjast og samviskan greinilega ekki orðin alveg dofin. Kannski á pabbi hans þátt í því. Í einu atriðinu fer hann að sinna heilsuveilum pabba sínum, sem neitar að taka við peningum af honum vegna þess að þeir séu stolnir.

Atvikinu á Nile Hilton -hótelinu er lýst sem rökkurmynd og vitnar hikstalaust í þann flokk kvikmynda þar sem kaldhæðnar, harðsoðnar löggur lifa og hrærast á mörkum undirheima og öryggis. Ef myndin hefði gerst í Los Angeles hefðu klisjurnar jafnvel kaffært hana, en hið sérstaka sögusvið réttlætir ekki bara klisjurnar, þær verða að styrkleika.

Myndin gerist samhliða því að allt er að fara á annan endann í Egyptalandi og Hosni Mubarak við það að falla. Mótmælin snúast ekki síst um þá spillingu, sem Mostafa á þátt í að viðhalda. Rannsóknin fer fram í andrúmslofti þar sem hriktir í kerfi rótgróinnar spillingar, en stofnanir á borð við lögregluna þumbast enn við að halda valdakerfinu gangandi þótt fullkomin óvissa ríki um afdrif þess.

Við sjáum mótmælin á Tahrir-torgi, sem magnast með hverjum deginum. Í einu atriðinu standa lögreglumenn úr umdæmi Mostafa og láta byssukúlum rigna yfir almenning.

Áhorfandinn kynnist einkum skuggahliðum Kaíró og verður myndin seint notuð til landkynningar. Við blasir vinnþrælkun innflytjenda, sem komnir eru sunnar úr Afríku, fátækt, vændi og valdníðsla hinnar ráðandi stéttar.

Reyndar var myndin ekki tekin í Kaíró, þótt það hafi staðið til í upphafi. Í Egyptalandi verða yfirvöld að samþykkja handrit kvikmynda og ákveðin atriði í handriti Atviksins á Hilton Nile-hótelinu hlutu ekki náð fyrir augum þeirra. Fékk leikstjórinn að vita að illa myndi fara ef hann héldi sínu striki og frekar en að lúta ritskoðun var ákveðið að taka myndina í Casablanca í Marokkó og mun í einhverjum tilvikum hafa verið notast við myndir frá Kaíró í bakgrunni vegna þess hvað borgirnar eru ólíkar.

Það er vert að geta þess að myndin er með norrænan bakgrunn, þótt hann blasi ekki við áhorfandanum. Leikstjóri hennar er Tarik Saleh, sem er fæddur í Svíþjóð. Faðir hans er egypskur og móðir hans sænsk. Saleh lærði kvikmyndagerð í Alexandríu og er nú að leikstýra sjónvarpsþáttum úr þáttaröðinni Westworld . Hann skrifaði jafnframt handritið og sótti innblástur í mál Hishams Talaats Moustafa, auðkýfings og fyrrverandi þingmanns, sem 2009 var sakfelldur fyrir að borga leigumorðingja til að myrða fyrrverandi hjákonu sína, Suzanne Tamim, sem var þekkt söngkona. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma, en það fór ekki jafnhátt þegar forseti Egyptalands náðaði Moustafa fyrr á þessu ári og hann var látinn laus úr fangelsi.

Aðalleikari myndarinnar, Fares Fares, hóf einnig ferilinn í Svíþjóð í myndinni Jalla! Jalla! , sem sló í gegn. Fares er fæddur í Líbanon, en óljúgfróðir segja að hann tali arabísku með ósviknum egypskum hreim í myndinni. Hann hefur leikið í ýmsum norrænum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og er kominn með annan fótinn inn fyrir þröskuldinn í Hollywood. Fares er eins og fæddur í hlutverk lögregluforingjans, sem reynir að komast af við aðstæður þar sem engum er að treysta og auðvelda leiðin getur þýtt að hann komist í gegn heill á líkama en með sálartetrið í molum, en að breyta rétt getur kostað lífið. Þegar þarf að finna einhverja leið þarna á milli verður lífið enn flóknara.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal