Bráðum koma blessuð jólin – og ríkisstjórn kampavíns og kavíars er að verða til. Aðventan mun nú, sem oft áður, fara í þvarg um fjárlög og stefnu eða stefnuleysi væntanlegrar ríkisstjórnar. Búið er að boða að „nýtt“ fjárlagafrumvarp verði lagt fram en svona til að bjóða stjórnarandstöðunni að hafa eitthvað að dunda sér við þangað til, átti hún að spjalla um gamla frumvarpið. Auðvitað tók væntanleg stjórnarandstaða það ekki í mál enda frekar undarlegt boð. Til hvers að eyða tíma í að ræða eitthvað sem búið er að tilkynna að verði breytt.
Það er reyndar frekar pínlegt að VG skuli strax komin með kampavínsglasið í höndina eftir að hafa fengið Kjartan Ragnarsson til að gera grín að kampavínsdrykkju sjálfstæðismanna í myndbandi. Hvolpamyndbandið var hins vegar krúttlegt. Kampavínsmyndbandið er nú líklega vinsælla í dag en fyrir kosningar.
En þetta er reyndar í stíl við annað hjá VG. Sýndarviðræður fóru fram til vinstri þar sem ekki var allt reynt eins og fram hefur komið. Ég er hræddur um að VG fái bara kartöflur í skóinn í ár.
Börnin fara hlakka til – jólanna þótt ljóst sé að foreldrar þeirra sem gegna þingstörfum sjáist lítið fyrr en í janúar í fyrsta lagi. Eitt er að leggja fram fjárlagafrumvarp sem samið er af þremur flokkum og annað að „renna því“ í gegnum þingið fram hjá nefjum fimm stjórnarandstöðuflokka. Stjórnarandstaðan mun þurfa að kynna sér frumvarpið og eftir atvikum leggja til breytingar.
Allir fá þá eitthvað fallegt – eða verður það ekki þannig þegar stjórnin er orðin að veruleika? Verður stjórnarsáttmálinn, ráðherraskiptingin og fjárlögin þannig að einn stendur uppi sem sigurvegari? Verða þau e.t.v. þrjú á palli með gullpening um hálsinn er þau hitta sitt fólk og þykjast öll hafa unnið.
Í það minnsta kerti og spil – munu einhverjir fá. Mér segir svo hugur um að það verði ekki VG sem fái kerti og spil. Það hlýtur nefnilega að vera að „mamma“ jólasveinanna hafi náð að tugta þá Hurðaskelli og Askasleiki til svo restin af jólasveinunum samþykki óskalistann. Hafi ég rangt fyrir mér þá fer þetta varla í gegnum óþekktarangasíuna hjá VG því annars fer sá flokkur í jólaköttinn.
Þessi draumur gamalla íhaldskarla og komma að lifa það af sjá stjórn þvert yfir miðjuna verður líklega til þess að skerpa enn frekar línurnar í íslenskri pólitík. Því ef að líkum lætur munu ekki allir jólasveinarnir fara næst til byggða og lofa Gunnu nýjum skóm og pabba síðum buxum fyrir kosningar sem reynast svo vera sandalar og notaðar stuttbuxur af þvottasnúrunni í Valhöll. gunnarbragi@althingi.is
Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.