Sérfræðingar vöruðu við því í gær að eldfjallið Agung gæti farið að gjósa á hverri stundu. Indónesísk yfirvöld ákváðu að lýsa yfir hæsta viðbúnaðarstigi vegna hættunnar á eldgosi, en þykkur reykjarmökkur hefur staðið upp úr fjallinu síðustu daga. Áætlað er að reyksúlan nái nú um þrjá kílómetra upp í loftið, og hefur mörgum flugferðum verið aflýst vegna þessa. Þúsundir ferðalanga hafa því setið fastar á Balí síðustu daga.
Um 40.000 manns hafa yfirgefið heimili sín í nágrenni eldfjallsins og er talið að um 100.000 í viðbót muni þurfa að vera fluttir á brott.