Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik sigraði Slóvakíu, 28:26, þegar þjóðirnar áttust við í fyrri vináttulandsleik sínum í Slóvakíu í gær. Liðin mætast aftur í dag.
Íslenska liðið náði yfirhöndinni snemma leiks og var tveimur til þremur mörkum yfir lengst af í fyrri hálfleik. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn hins vegar kominn í fimm mörk og Ísland 16:11 yfir í hálfleik.
Ísland hélt forskotinu í síðari hálfleik en Slóvakar náðu að minnka muninn. Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir var Ísland með þriggja marka forskot og spennandi lokakafli framundan. Slóvakía hafði möguleika á að minnka muninn í eitt mark þegar skammt var eftir en missti boltann og Ísland sigldi sigrinum í höfn, 28:26.
Mörk Íslands : Þórey Rósa Stefánsdóttir 7, Birna Berg Haraldsdóttir 7, Helena Rut Örvarsdóttir 6, Thea Sturludóttir 3, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 2, Arna Sif Pálsdóttir 1.