Svöl Tónlistarkonan Peaches.
Svöl Tónlistarkonan Peaches. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Hljómsveitin Sigur Rós hefur bætt við nýjum dagskrárlið á hátíð sína Norður og niður í Hörpu og það æði forvitnilegum, jólatónleikunum Gloomy Holiday sem haldnir verða á fyrsta degi hátíðarinnar, 27. desember.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hljómsveitin Sigur Rós hefur bætt við nýjum dagskrárlið á hátíð sína Norður og niður í Hörpu og það æði forvitnilegum, jólatónleikunum Gloomy Holiday sem haldnir verða á fyrsta degi hátíðarinnar, 27. desember. Söngvararnir sem fram koma eru æði ólíkir og úr ýmsum áttum, sumir þekkt jólabörn en aðrir ekki: Alexis Taylor úr hljómsveitinni Hot Chip, kanadíska tónlistarkonan Peaches, Björgvin Halldórsson, Daníel Ágúst Haraldsson, Helga Möller, Helgi Björns, Katrína Mogensen, Laddi, Ragga Gísla, Sigga Beinteins og Svala Björgvinsdóttir.

Í tilkynningu vegna tónleikanna segir að um sé að ræða glæsilega en lágstemmda hátíðartónleika fyrir fólk sem sé enn í jólaskapi en orðið þreytt á hefðbundnum jólalögum. Liðsmenn Sigur Rósar eiga hugmyndina að tónleikunum og vildu heyra vinsæl jólalög í annars konar og myrkari útgáfum. Fengu þeir til liðs við sig samstarfsmann sinn til margra ára, Samúel Jón Samúelsson básúnuleikara, og mun hann stjórna hljómsveit tónleikanna auk þess að leika með henni á básúnu. Andri Ólafsson leikur á raf- og kontrabassa, Diddi Guðnason á víbrafón, klukkuspil og slagverk, Magnús Trygvason Elíassen leikur á trommur, Mattías Stefánsson á gítar og fiðlu, Snorri Sigurðarson á trompet og flügelhorn, Stefán Jón Bernharðsson á franskt horn, Tómas Jónsson á píanó og orgel og Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló.

„Einstakur viðburður“

Samúel sér um útsetningar laganna, auk þess að stjórna hljómsveitinni og leika með henni og segir hann að lögin sem íslensku söngvararnir syngi verði að öllum líkindum lög sem þeir séu þekktir fyrir að flytja en þó mögulegt að þeir flytji önnur lög. Lögin á tónleikunum verði í hægari útgáfum og melankólískari en þeim upphaflegu. „Þetta verður samt fallegt, svona milli jóla og nýárs, „gloomy“ fílíngur,“ segir Samúel sposkur.

–Einhvers konar jólaþynnka eftir allt kjötátið og sykurneysluna?

„Ekki beint en þetta er dálítill viðburður líka, performans. Maður veit eiginlega ekkert fyrr en þetta er afstaðið hvernig þetta verður nákvæmlega. Þetta er einstakur viðburður og galdrarnir munu gerast þetta kvöld,“ svarar Samúel.

–Og líka einstakur viðburður ef maður lítur til þess hvaða söngvarar koma þarna saman á tónleikum, t.d. Peaches og Laddi?

„Já og það er náttúrlega geggjað,“ segir Samúel og hlær við.

Spurður að því hvort lögin verði öll í moll segir Samúel að myndlíkingin sé með þeim hætti, að allt sé í moll, þó einhverjir verði útúrdúrarnir. „Þetta verður drungalegt en þó fegurð í drunganum, ljósglæta í myrkrinu á dimmasta tíma ársins,“ segir Samúel um tónleikana. Jólalögin verði svipt glamúr og glimmeri og matreidd með nýjum hætti.

Vefsíðu hátíðarinnar Norður og niur má finna á slóðinni nordurognidur.is.