Magnús Heimir Jónasson
mhj@mbl.is
Málefnasamningur tilvonandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins er klár. Næstu daga munu formenn flokkanna ákveða ráðuneytaskiptingu en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er gert ráð fyrir því að
Vinstri græn og Framsókn fái þrjú ráðuneyti og Sjálfstæðisflokkurinn fimm. Enn á þó eftir að hnýta lausa enda í þessu efni og fastsetja hversu mörg embætti koma í hlut hvers flokks fyrir sig.
Ekkert hefur fengist uppgefið um ráðherraskipan, skiptingu ráðuneyta eða hver verður forseti Alþingis.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ráðherraskipan hafi verið rædd síðustu daga og að niðurstaðan verði kynnt síðar í vikunni. „Við erum búin að ræða þetta öðru hvoru óformlega og svo höfum við verið að setjast yfir þetta síðustu tvo til þrjá dagana. Við erum með ólíkar sviðsmyndir og svo komumst við að einhverri niðurstöðu, segir Sigurður. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fer á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, kl. 10.30 í dag þar sem hún fær umboð hans til stjórnarmyndunar. Formennirnir þrír munu funda í dag með þingmönnum sínum í einrúmi. Katrín segir spurð að þingflokkur Vinstri grænna hafi fengið að sjá málefnasamning væntanlegrar ríkisstjórnar. „Já, það eru allir þingmenn mínir búnir að sjá málefnasamningin.“ Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gildir ekki hið sama um þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Spurð hvort hún telji líklegt að flokksráðið muni samþykkja upplegg formannanna þriggja segir Katrín að hún vænti þess að umræður verði góðar á fundinum. Sigurður Ingi telur líklegt að miðstjórn Framsóknarflokksins muni samþykkja samstarfið.