Út er komið hausthefti Skírnis 2017, 191. árgangur. Meðal fjölbreytts efnis að þessu sinni er athyglisverð grein eftir Jón Karl Helgason, Sigurð Ingiberg Björnsson og Steingrím Pál Kárason sem hafa í krafti nýrra aðferða ráðist í stílmælingu fornsagna, m.a. í þeim tilgangi að greina samsvaranir milli sagna. Segir í tilkynningu að slíkt „gæti fært okkur nær svari við því hvort til dæmis Snorri Sturluson hafi skrifað Egils sögu eða Sturla Þórðarson Njálu“.
Birgir Hermannsson skrifar um hinar ýmsu gerðir þjóðernishyggju; Sveinn Yngvi Egilsson fjallar um ljóðabréf Benedikts Gröndal; Helgi Skúli Kjartansson skrifar grein í anda „Hvað ef? sagnfræðinnar“ – um flutning Íslendinga til Jótlandsheiða í kjölfar Skaftárelda 1793, og einnig birtist síðari hluti greinar Kristínar Ingvarsdóttur um samskipti Íslands og Japans. Þá er birt grein Kjartans Ómarssonar um Bergsvein Birgisson og eitt lykilverka hans, Handbók um hugarfar kúa . Og í framhaldi af greinum um íslam í fyrri heftum skrifar Sigurjón Árni Eyjólfsson um pólitískan rétttrúnað. Að vanda er svo grein um stöðu íslenskrar tungu, þar sem Jón Sigurðsson, fyrrum skólastjóri og ráðherra, skrifar um ís-enskuna.
Skáld Skírnis er Kristín Ómarsdóttir og í myndlistarþættinum fjallar Friðrik Sólnes um hinn unga en athyglisverða málara, Þránd Þórarinsson. Ritstjóri er Páll Valsson.