Árskógar Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er að byggja tvö ný fjölbýlishús í næsta nágrenni við Mjóddina. MótX verktakar byggja húsin.
Árskógar Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er að byggja tvö ný fjölbýlishús í næsta nágrenni við Mjóddina. MótX verktakar byggja húsin. — Teikning/ARKÍS arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) hefur látið stækka tvö fjölbýlishús, sem það er nú að reisa í Árskógum 1-3, þannig að þau rúmi samtals 68 íbúðir í stað 52 íbúða.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) hefur látið stækka tvö fjölbýlishús, sem það er nú að reisa í Árskógum 1-3, þannig að þau rúmi samtals 68 íbúðir í stað 52 íbúða. Bætt var einni hæð við hvort hús og verða þau fimm hæðir auk þakhæðar.

Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri FEB, sagði að búið væri að samþykkja breytt deiliskipulag á öllum vígstöðvum. Nú er þess beðið að það verði auglýst í Stjórnartíðindum.

„Við fundum fyrir svo miklum áhuga að við ákváðum að fara fram á að bæta við einni hæð í hvoru húsi og fjölga íbúðunum,“ sagði Gísli. Bygging húsanna er hafin og hefur fengist leyfi fyrir einni hæð í einu á meðan beðið er eftir auglýsingu á nýju deiliskipulagi.

Lögð er áhersla á að bílageymsla verði undir húsunum og til hliðar við þau. Hún mun skýla bílunum fyrir veðri og vindum en ekki vera algjörlega lokuð. Þannig verður hún hagkvæmari í rekstri en væri hún bæði lokuð og upphituð. Gísli kvaðst reikna með að sala íbúðanna gæti hafist á fyrri hluta næsta árs. Hugsanlega verður haldinn kynningarfundur um miðjan desember fyrir félagsmenn FEB. Þar verður væntanlega greint frá því hvaða fasteignasali mun selja íbúðirnar og farið yfir þau skilyrði sem sett verða fyrir úthlutun til félagsmanna FEB. Íbúðirnar eiga að vera tilbúnar til afhendingar á fyrri hluta árs 2019.

En hyggur félagið á frekari byggingarframkvæmdir?

„Já, við höfum leitað eftir lóðum í nágrenni við Árskóga og höldum bæði borgarstjóra og borgarfulltrúum vel við efnið. Við erum ekkert hætt,“ sagði Gísli. FEB hefur byggt í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Gísli kvaðst eiga von á að félagið mundi einnig banka upp á hjá nágrannsveitarfélögum og kanna með fjölbýlishúsalóðir hjá þeim.

„Við leitum allra leiða til að fá fleiri lóðir vegna mikils áhuga félagsmanna á íbúðunum og mikillar þarfar fyrir búsetuúrræði. Það hefur sýnt sig að þetta er það eina sem getur haldið niðri íbúðaverði í Reykjavík, það er að félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni eins og við byggi íbúðirnar,“ sagði Gísli. Hann sagði að stækkun nýju fjölbýlishúsanna mundi væntanlega gera íbúðaverðið hagkvæmara en ef íbúðirnar hefðu verið færri.