[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hildur Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 2.12. 1967 og bjó fyrstu árin í Laugarásnum. Hún gekk í Langholtsskóla til átta ára aldurs þegar fjölskyldan flutti í Norðurbæinn í Hafnarfirði sem þá var að rísa.

Hildur Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 2.12. 1967 og bjó fyrstu árin í Laugarásnum. Hún gekk í Langholtsskóla til átta ára aldurs þegar fjölskyldan flutti í Norðurbæinn í Hafnarfirði sem þá var að rísa. Hún var einnig í sveit á sumrin frá sex ára til 10 ára aldurs, hjá þeim hjónum, Ingibjörgu og Sigurði í Vík í Skagafirði.

Hildur kvaddi Víðistaðaskóla með því að dúxa í sínum árgangi, fór í VÍ, var skiptinemi í Maine-ríki í Bandaríkjunum í eitt ár og útskrifaðist frá VÍ 1988, dvaldi á Spáni í nokkra mánuði og stundaði síðan nám í tískumarkaðssetningu í San Diego í Kaliforníu.

Á menntaskólaárunum var Hildur í sumarvinnu hjá Flugleiðum og starfaði hjá útgáfufélaginu Gramminu. Eftir námið í San Diego starfaði hún í stórversluninni Harrods í London um skeið og stundaði þar skriftir, flutti síðan heim og hefur auk þess starfað hjá Miðlun, Vífilfelli, Taugagreiningu, Listasafni Reykjavíkur og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hún var síðan lengst af skrifstofustjóri hjá Ragnari Aðalsteinssyni lögmanni: „Ég ákvað að reyna að kynnast sem flestum atvinnugreinum til að fá innsýn í samfélagið fremur en að öðlast frama í viðskiptageiranum.“

Eftir að Hildur kom frá London gekk hún í Áhugaleikfélagið Hugleik og hóf leikritaskrif. Hún hóf nám í þjóðfræði við HÍ árið 2000, meðfram vinnu og barnauppeldi og útskrifaðist árið 2009. Á þessum árum fór hún að kynna sér heilun, tók námskeið í reiki og dáleiðslu og þróaði aðferðir til að vinna með tilfinningar, áföll og andlega erfiðleika. Í tvo vetur bauð hún í sjálfboðavinnu upp á vikulega opna hugleiðslutíma hjá Hugarafli þar sem hún kenndi þessar aðferðir.

Hildur hefur skrifað smásögur, leikrit og sjálfshjálparbækur. Leikrit hennar eru Undir hamrinum, sem fór á leiklistarhátíðir hér á landi, í Eistlandi, Rússlandi og Mónakó, í sviðsetningu hjá Hugleik og var sviðsett af Ungmennafélagi Biskupstungna; einþáttungurinn Hjartað er bara vöðvi, sýndur af leikfélagi Hafnarfjarðar á einþáttungahátíð Borgarleikhússins; Völin, mölin og kvölin, samið af Hildi, Vilhjálmi Kára Heiðdal og Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, var sýnt af Hugleik í Reykjavík og af Leikfélagi Austurlands á Egilsstöðum, og leikritið Upprisa holdsins, leikið hjá Stúdentaleikhúsinu.

Sjálfshjálparbækur Hildar eru Taumhald á tilfinningunum – leið til betra lífs, útg. 2013, einnig á hljóðbók í lestri höfundar, og Finndu styrkinn til að gera það sem þú vilt, 2014. Loks kom út skáldsagan Á leið stjarnanna og vindsins, árið 2015.

Hildur bauð sig fram til forseta Íslands árið 2016. Hún boðaði þá breyttar áherslur og að ný stjórnarskrá yrði samþykkt.

Fljótlega eftir forsetakosningarnar setti Hildur niður í töskur og lagði af stað út í heim. Á ferðalaginu hefur hún komið við í lengri eða skemmri tíma í Jórdaníu, Líbanon, Palestínu, Ísrael, Tyrklandi, Þýskalandi, Sviss, Brasilíu og Paragvæ. Um þessar mundir dvelur hún í Argentínu. Hún hefur komið til 30 landa og þeim fjölgar óðum.

Hildur vann ýmis sjálfboðastörf í Rauða kross húsinu í Borgartúni, á kaffistofu Samhjálpar, hjá ABC barnahjálp og sat í stjórn Reykjavíkurdeildar Rauða krossins um skeið.

Á Verslunarskólaárunum sat Hildur í stjórn Málfundafélagsins, lék á sviði með leikfélaginu og tók þátt í uppsetningum kórsins á Nemendamótinu. Sem skiptinemi lék hún einnig á sviði, spilaði í hljómsveit og söng með kór. Hún starfaði með JC Nes og Árbæ og hlaut þar þjálfun í ræðumennsku.

Fjölskylda

Hildur giftist 1997 Vilhjálmi Kára Heiðdal, f. 14.9. 1966, rafeindavirkja á Landspítalanum. Foreldrar hans: Hilmar Heiðdal, f. 2.3. 1941, d. 7.4. 2001, og Hrefna Smith, f. 9.11. 1944, eigendur þvottahúss A. Smith í Reykjavík. Hildur og Vilhjálmur Kári skildu árið 2014.

Synir Hildar og Vilhjálms eru Þórður Hrafn Heiðdal, f. 19.9. 1997, og Hilmar Heiðdal, f. 29.4. 2002.

Hálfsystur Hildar, sammæðra, eru 1) Björg Sigríður Anna Þórðardóttir, f. 24.7. 1972, doktor í iðjuþjálfun, búsett í Lundi í Svíþjóð, og 2) Bergljót Þórðardóttir, f. 8.1. 1975, viðskiptafræðingur í Reykjavík.

Hálfbróðir Hildar, samfeðra, er 3) Gunnar Þór Bjarnason, f. 7.5. 1971, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Hildar eru Björg Sigríður Anna Kofoed-Hansen, f. 18.7. 1948, íslenskufræðingur í Reykjavík, og Bjarni Hjaltested Þórarinsson, f. 1.3. 1947, listamaður. Eiginmaður Bjargar, fósturfaðir Hildar og kjörfaðir frá 1983, er Þórður Jónsson, f. 2.3. 1945, viðskiptafræðingur.