Birgir Guðjónsson
Birgir Guðjónsson
Eftir Birgi Guðjónsson: "Heilbrigðiskerfið þarf ekki aðeins mygluhreinsun húsakosts heldur einnig forystuhreinsun."

Góð læknisfræði er ekki eingöngu framkvæmd flókinna tæknilegra aðgerða hvort sem er í skurð- eða lyflækningum, heldur almenn kunnátta og dómgreind til að ákveða hvenær eigi og ekki síður hvenær eigi ekki að nota þær.

Karólínska stofnunin í Svíþjóð telur plastbarkaígræðsluna mestu mistök og hneyksli stofnunarinnar og sænska heilbrigðiskerfisins. Ráðherra rak stjórn stofnunarinnar og margir yfirmenn sjúkrahússins voru einnig reknir þótt þeir væru ekki beinir aðilar að málinu. Nóbelsnefndarmenn hafi orðið að segja af sér. Þátttakendur í þessu hneyksli voru þrír íslenskir læknar á mismunandi hátt, en hvað er gert hér?

Hin „óháða“ nefnd kennara og nemenda Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahúss komst loks að því að eitthvað hefði verið athugavert við þátttöku tveggja lækna þegar málið er farið að fyrnast hérlendis. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að skurðlæknirinn hefði verið blekktur til þátttöku, það ætti að þýða; a) senda fyrsta sjúklinginn, erlendan ríkisborgara í þessa ólöglegu tilraunaðgerð, b) hagræða tilvísun, c) að taka þátt í aðgerðinni og þekkja ekki mun á plasti og lífrænum vef, d) verða meðhöfundar að grein í hinu virta læknablaði Lancet sem þykir mikill heiður, þótt sterkur grunur væri um rangar upplýsingar, e) kynningu í Hátíðarsal Háskóla Íslands um afrekið með sýningu á sjúklingnum, f) látið hjá líða að draga sig úr hópi höfunda eins og margir meðhöfunda gerðu þegar ljóst var að fullyrðingar í greininni stæðust ekki.

Sænsk siðanefnd hefur nú úrskurðað að upplýsingar þar eru rangar og úrskurðað það sem vísindamisferli. Í virtum háskólum leiðir það til endaloka akademísks ferils. Fróðlegt verður að sjá hvað Háskóli Íslands gerir.

Hvað furðulegust er dómgreind þáverandi forstjóra Karólínska sjúkrahússins sem leyfði aðgerðina og var þannig ábyrgari en margir brottreknir Svíar. Hann væri ekki gjaldgengur í neina ábyrgðarstöðu í Svíþjóð en tekur að sér æðsta embætti heilbrigðiskerfis Íslands, þ.e. Landlæknisembættið. Hann gagnrýnir heilbrigðiskerfið með allt öðru en lítillæti og úthúðar læknum, einkum þeim sem hafa haft forystu í að veita sérfræðiþjónustu utan kostnaðarsamra legudeilda sjúkrahúsa.

Íslenskur almenningar sem og útlendingar eiga að geta treyst því að yfirmenn heilbrigðiskerfisins hafi sæmilega dómgreind og séu gerðir ábyrgir gerða sinna. Heilbrigðiskerfið þarf ekki aðeins mygluhreinsun húsakosts heldur einnig forystuhreinsun.

Höfundur er fyrrverandi aðstoðarprófessor við Yale University School of Medicine og leiðarahöfundur í Lancet.