2. desember 1929 Minnsti loftþrýstingur hér á landi, 920 millibör (hektópasköl), mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þegar óveður gekk yfir landið. Alþýðublaðið sagði að „afspyrnu-austanrok“ hefði verið í Eyjum. 2.

2. desember 1929

Minnsti loftþrýstingur hér á landi, 920 millibör (hektópasköl), mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þegar óveður gekk yfir landið. Alþýðublaðið sagði að „afspyrnu-austanrok“ hefði verið í Eyjum.

2. desember 1941

Togarinn Sviði frá Hafnarfirði fórst út af Snæfellsnesi með 25 manna áhöfn. Hann var á heimleið af Vestfjarðamiðum með fullfermi. Fjórtán konur urðu ekkjur og 46 börn föðurlaus.

2. desember 1950

Öldin okkar kom út hjá Iðunni. Hún flutti „minnisverð tíðindi 1901-1930“ og var „samin eins og dagblað,“ eins og sagði í auglýsingu. Ritstjóri var Gils Guðmundsson. Þessi bókaflokkur varð mjög vinsæll.

2. desember 2000

Björk Guðmundsdóttir hlaut evrópsku kvikmyndaverðlaunin í París sem besta leikkonan fyrir leik sinn í myndinni Dancer in the Dark. Áhorfendur völdu hana einnig sem bestu leikkonuna í atkvæðagreiðslu á netinu og Ingvar E. Sigurðsson sem besta leikarann í Englum alheimsins.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson