Einu sinni ríkti kynþáttaaðskilnaður í borginni Montgomery í Alabama. Svart fólk og hvítt fólk gekk ekki í sömu skóla, baðst ekki fyrir í sömu kirkjum, verslaði ekki í sömu búðum, notaði ekki sömu lyftur og drakk ekki vatn úr sömu drykkjarfontum.

Einu sinni ríkti kynþáttaaðskilnaður í borginni Montgomery í

Alabama. Svart fólk og hvítt fólk gekk ekki í sömu skóla, baðst ekki fyrir í sömu kirkjum, verslaði ekki í sömu búðum, notaði ekki sömu lyftur og drakk ekki vatn úr sömu drykkjarfontum. Allir ferðuðust með sömu strætisvögnum en máttu ekki sitja á sama stað: hvítt fólk sat fremst, svart fólk aftast. Rosa Parks ólst upp í þessum svarthvíta heimi.

Þetta var erfitt fyrir blökkufólkið og margir voru reiðir og hryggir yfir kynþáttaaðskilnaðinum, en ef einhver mótmælti var honum fleygt í fangelsi.

Dag nokkurn sat Rosa í strætisvagni á leiðinni heim úr vinnu. Vagninn var fullur og ekkert sæti frammi í (þar sem hvíta fólkið sat) svo að bílstjórinn sagði Rosu að standa upp fyrir hvítum manni.

Rosa sagði nei.

Hún þurfti að dúsa í fangelsi um nóttina en þetta dirfskubragð nægði til að sýna fólki að það væri hægt að segja nei við óréttlæti.

Vinir Rosu lýstu yfir viðskiptabanni. Þeir báðu alla blökkumenn bæjarins að sniðganga strætisvagnana og nota þá ekki fyrr en lögunum yrði breytt. Skilaboðin breiddust út eins og eldur í sinu. Viðskiptabannið stóð yfir í 381 dag. Því lauk þegar hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úrskurð um að kynþáttaaðskilnaður í strætisvögnum stangaðist á við stjórnarskrána.

Tíu ár liðu áður en kynþáttaaðskilnaður var bannaður í nokkru öðru ríki en á endanum kom að því, og allt var það því að þakka að Rosa tók fyrst allra í sig kjark og sagði „nei“.