[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Múslímum gæti fjölgað úr tæpum 5% af íbúafjölda Evrópulanda í rúm 11% á næstu áratugum ef aðflutningur fólks helst álíka mikill og hann er nú, samkvæmt rannsókn Pew-rannsóknamiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Múslímum gæti fjölgað úr tæpum 5% af íbúafjölda Evrópulanda í rúm 11% á næstu áratugum ef aðflutningur fólks helst álíka mikill og hann er nú, samkvæmt rannsókn Pew-rannsóknamiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum.

Í nýrri skýrslu hugveitunnar kemur fram að á síðasta ári bjuggu um 25,8 milljónir múslíma í 28 aðildarlöndum Evrópusambandsins, auk Noregs og Sviss. Þeir voru um 4,9% af 521 milljón íbúa landanna þrjátíu. Múslímum hafði fjölgað um 6,3 milljónir frá árinu 2010.

Aðflutningur fólks til Evrópulandanna stórjókst árið 2014, einkum vegna fjölgunar flóttafólks frá Sýrlandi, Írak og Afganistan. Þegar aðflutningurinn var í hámarki kom tæp hálf milljón manna til Evrópulandanna á ári en hann tók að minnka aftur um mitt síðasta ár.

Í skýrslu rannsóknamiðstöðvarinnar er leitast við að meta hversu mikið múslímum gæti fjölgað í Evrópulöndunum til ársins 2050. Spá hugveitunnar um fjölgunina er þríþætt og fer eftir því hversu mikill aðflutningur fólks verður á næstu áratugum, þ.e. hvort hann verður „enginn“, „í meðallagi“ eða „mikill“.

Eru yngri og eignast fleiri börn

Í fyrstu sviðsmyndinni er gert ráð fyrir því að aðflutningur fólks stöðvist algerlega næstu áratugina. Út frá þeirri forsendu er talið að múslímum haldi áfram að fjölga í Evrópulöndunum, eða úr 4,9% af íbúafjöldanum í 7,4%. Ástæðan er sú að meðalaldur múslímanna er þrettán árum lægri en annarra íbúa landanna og þeir eignast einnig fleiri börn að meðaltali en aðrir. Um 27% múslímanna eru undir fimmtán ára aldri en meðal annarra íbúa er hlutfallið 15%. Múslímar eiga að meðaltali 2,6 börn en aðrir íbúar 1,6.

Verði aðflutningur fólks enginn, sem telst ólíklegt, verður hlutfall múslíma áfram hæst í Frakklandi, að Kýpur undanskilinni, en um 25,4% íbúa eyjunnar eru múslímar þar sem margir þeirra eru af tyrknesku bergi brotnir. Múslímum myndi fjölga úr 8,8% í 12,7% í Frakklandi frá 2016 til 2050 og úr 8,1% í 11,1% í Svíþjóð.

Gæti fjölgað í 20% í Svíþjóð

Í annarri sviðsmyndinni er gert ráð fyrir því að aðflutningur fólks verði „í meðallagi“, þ.e. að „venjulegur aðflutningur“ haldist óbreyttur og flóttamannastraumurinn minnki og verði álíka mikill og hann var um mitt síðasta ár. Hugtakið venjulegur aðflutningur nær til allra þeirra sem flytja búferlum til Evrópulandanna í öðrum tilgangi en þeim að sækja um hæli eða stöðu flóttamanns.

Þessi sviðsmynd virðist vera líklegust, að öllu óbreyttu, og verði hún að veruleika telur rannsóknamiðstöðin að múslímum fjölgi úr 4,9% í 11,2%. Gangi spá hugveitunnar eftir myndi múslímum fjölga úr 8,1% í 20,5% í Svíþjóð og þeir yrðu hlutfallslega fleiri þar en í Frakklandi, þar sem talið er að þeir verði um 17,4%. Í Bretlandi myndi hlutfallið hækka úr 6,3% í 16,7% og í Finnlandi úr 2,7% í 11,4%, svo dæmi séu tekin.

Í þriðju sviðsmyndinni er gert ráð fyrir því að aðflutningur fólks til landanna verði mikill, þ.e. að venjulegi aðflutningurinn haldist óbreyttur og flóttamannastraumurinn verði jafnmikill og hann var þegar hann var í hámarki, frá 2014 og þar til um mitt síðasta ár. Skýrsluhöfundarnir benda á að flóttamannastraumurinn var miklu meiri á þessu tímabili en að meðaltali síðustu áratugina og hann hefur minnkað vegna þess að Evrópusambandið og mörg aðildarríkjanna hafa breytt stefnu sinni til að draga úr honum. Verði flóttamannastraumurinn eins mikill og árin 2014-2015 samfleytt í rúma þrjá áratugi er talið að múslímum fjölgi úr 4,9% í 14%. Þeim myndi þá fjölga í 30,6% í Svíþjóð, 19,7% í Þýskalandi og 18% í Frakklandi. Hlutfall múslíma myndi þannig þrefaldast í þessum löndum en haldast mjög lítið í löndum í austanverðri álfunni, t.a.m. í Póllandi þar sem múslímum myndi fjölga úr 0,1% í 0,2%.

Skýrsluhöfundarnir segja að múslímar í Evrópu séu mjög fjölbreyttur hópur og mistrúræknir. Sumir þeirra líti ekki á trúna sem stóran þátt í daglegu lífi sínu en aðrir telji hana hafa mikil áhrif á líf sitt.

Íbúunum gæti fækkað
» Í skýrslu Pew-rannsóknamiðstöðvarinnar er bent á að íbúum Evrópulandanna gæti fækkað úr 521 milljón í 482 milljónir frá 2016 til 2050 ef aðflutningur fólks stöðvast alveg.
» Verði aðflutningurinn í meðallagi fækkar íbúunum í 517 milljónir. Verði hann mjög mikill fjölgar íbúunum í 539 milljónir.