Gunnlaugur Skúlason fæddist í Bræðratungu 10. júní 1933. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi 19. nóvember 2017.

Foreldrar Gunnlaugs voru hjónin Skúli Gunnlaugsson, bóndi og oddviti í Bræðratungu, og Valgerður Pálsdóttir húsfreyja frá Tungu í Fáskrúðsfirði. Auk Gunnlaugs áttu þau synina Svein, bónda í Bræðratungu (1927-2007), og Pál, lögfræðing og ritstjóra, sem fæddur er 1940.

Gunnlaugur kvæntist 13. apríl 1961 Renötu Vilhjálmsdóttur, f. 1939, kennara og leiðsögumanni frá Berlín í Þýskalandi. Börn þeirra eru fimm: Barbara, f. 1961, leikskólakennari í Þýskalandi. Maður hennar er Thomas Schwarzlose efnafræðingur og eiga þau tvö börn. Helga, f. 1963, matvælaverkfræðingur og búsett í Garðabæ. Maður hennar er Óskar Þór Jóhannsson krabbameinslæknir og eiga þau tvö börn. Elín, f. 1965, tónskáld á Selfossi. Maður hennar er Bjarni Harðarson rithöfundur og eiga þau tvo syni og eitt barnabarn auk tveggja barna sem Bjarni átti áður. Skúli Tómas, f. 1968, hjartalæknir og listaverkasafnari í Bandaríkjunum. Fyrri kona hans er Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir og börn þeirra eru þrjú. Yngstur er Hákon Páll, f. 1972, húsasmíðameistari, búsettur í Þrándarholti. Kona Hákonar er Karen Kristjana Ernstsdóttir verkfræðingur og eiga þau þrjú börn. Fyrir á Hákon tvær dætur.

Gunnlaugur ólst upp í Bræðratungu og gekk í barnaskóla í Reykholti. Eftir það var hann um tíma í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Flensborgarskóla en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1955. Hann nam dýralækningar í Hannover á árunum 1957-1962. Árið 1963 tók hann við embætti héraðsdýralæknis í Laugarási og starfaði við fag sitt í hálfa öld. Fyrstu misserin eftir heimkomu frá Þýskalandi bjuggu þau Renata í Bræðratungu og Reykholti en fluttu í embættisbústað dýralæknisembættisins í Laugarási 1964 og bjuggu þar í hartnær tvo áratugi. 1983 fluttu þau í nýbyggt einbýlishús sitt Brekkugerði í Laugarási og áttu þar heimili fram til ársins 2015 er þau fluttu á Selfoss. Í Laugarási var Gunnlaugur lengstum með bæði hesta og nokkrar kindur og ræktaði um skeið ferhyrnt fé.

Gunnlaugur tók virkan þátt í félagslífi sveitar sinnar og var t.d. um tíma formaður í Hestamannafélaginu Loga og um nokkur ár formaður sóknarnefndar Skálholtssóknar. Þá var hann fyrsti formaður Hins íslenska hundaræktarfélags, sat um tíma í stjórn Dýralæknafélags Íslands, var formaður Þýsk-íslenska félagsins á Suðurlandi og lengi formaður Heilbrigðisnefndar Laugaráslæknishéraðs.

Gunnlaugur tók um áratugaskeið dýralæknakandídata í starfsnám, bæði íslenska og þýska. Richard von Weizsäcker Þýskalandsforseti sæmdi Gunnlaug þýsku heiðursorðunni Verdienstkreuz fyrir störf að þýsk-íslenskum menningartengslum og þátt hans í uppfræðslu þýskra dýralæknanema.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 2. desember 2017, klukkan 11.

Gangverk heimsins haggast ekki að ráði þegar gamall maður deyr, saddur lífdaga. En fyrir mig var maðurinn einstakur, enda faðir minn. Þannig er það þó með Gunnlaug Skúlason, því meira sem skrifað um manninn, þá er þeim mun minna sagt. Hann var þjóðsagnapersóna í uppsveitum Árnessýslu, kynslóðir þekktu tilsvör hans og sagnagáfu eftir farsæl dýralæknastörf í hálfa öld. Pabbi fæddist undir heillastjörnu og fékk kærleiksríkt uppeldi í Bræðratungu enda ekkert meðalfólk sem réð þar húsum. Amma Valgerður sagði oft að pabbi hefði alltaf verið eins og hugur manns, gerði allt rétt, þurfti litla leiðsögn þó svo að hann gæti verið stríðinn á stundum. Hann var hamhleypa til verka strax sem unglingur og freistaðist aldrei til að fara hjáleið um eigin orð. Hann fór vel nestaður að heiman í langskólanám til Þýskalands og kom aftur heim til að sinna köllun sinni. Pabbi er líklega duglegasti og um leið skynsamasti maður sem ég hef kynnst. Mér auðnaðist sem barn og unglingur að fara með honum í vitjanir um langt árabil og kynntist þá sjálfur langflestum uppsveitungum. Þetta var margt ógleymanleg fólk, í raun fjársjóður í minningunni. Pabbi hafði unun að því að umgangast þetta fólk og það treysti honum alltaf. Þetta traust sem hann hafði, var logandi kyndill í öllu hans starfi og fólkið fékk þetta allt til baka. Hann kunni best við menn sem kunnu að segja sögur og helst bæta vel við þær, enda var hann húmoristi og átti minnsta samleið með fólki sem þekkti kímnigáfu mest af afspurn. Hann gekk hreint til verks og var kjarkmikill sem er mjög nauðsynlegt dýralækni. Ég hafði stundum áhyggjur af föður mínum, þar sem hann var að eiga við þessar stóru skepnur sem voru gjarnan duttlungafullar í hegðun.

En hann var aldrei smeykur og verkstjórn hans var fumlaus. Auðvitað ætlaði ég alltaf að verða dýralæknir en örlögin tóku völdin þannig að ég fór að lækna mannfólkið og flutti vestur um haf þó svo að það sjái fyrir endann á því eftir tveggja áratuga dvöl. En oftast var það þannig við systkinin sáum lítið af föður okkar. Hann vann heila daga og hálfar nætur og hafði ekkert val þar um. Það kom í hlut móður okkar að berja okkur til bókar og fórst það vel úr hendi. Þó það lægi fyrir pabba að að þjóna sveitum landsins þá var hann fráleitt fastur í fásinni hversdagsleikans. Hann hafði yndi af ferðalögum, las mikið þó svo að hann væri mörgu leyti ólíkur föðurfólki mínu sem var fróðleiksfúsara. Í honum voru vissulega andskeyttar rásir en hann var fyrst og fremst náttúrubarn.

Sjálfur ferðaðist ég með honum um flest fylki Bandaríkjanna og víðar. Hann bar virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Hann var listelskur sem hafði meiri áhrif á mig seinna en mig gat nokkurn tímann órað fyrir. Undir það síðasta var komið hausthljóð í vindinn og dauðinn vann að lokum miskunnarverk sitt. Eftir stendur minning um ljúfan mann sem gegndi skyldu sinni alla tíð af ljúflyndi og trúmennsku. Það ljómaði alltaf af honum manngæskan, lítillæti, hógværð eða flest sem prýða má góðan mann. Blessuð sé minning pabba míns.

Skúli Gunnlaugsson.

„Ég er nú bara gamall maður.“

Hann situr kyrr í sófanum frammi í holi. Morgunblaðið hefur verið opið á sama stað síðustu korterin og húsmóðirin sem rétt fyrr hafði spurt Gulla sinn hvort hann ætlaði ekkert að koma inn í stofu er löngu farin, þegar svarið loks berst. Ég sit í stól á móti gamla manninum og nýt þess hvað þetta er Gunnlaugslegt svar. Ekkert okkar er tilbúið að átta sig á að þeir hafa hér runnið saman með einkennilegum hætti, hinn andstyggilegi alzheimersjúkdómur tengdaföður míns og stórfræg mild kímnigáfa sem hann hafði tekið óskipta í arf eftir föður sinn.

Það eiga enn eftir að líða ár þar til kallað er eftir sjúkdómsgreiningu. En þá koma gömlu hjónin við hjá dóttur sinni á Selfossi að segja henni fréttirnar. Sem Gunnlaugi þótti ekki neitt til að býsnast yfir.

„Það er ekki að búast við að maður sé alltaf eins og tvítugur unglingur.“

En tengdafaðir minn var ævilangt hamingjuhrólfur sem gjarnan sá við því sem vildi leggja snörur í veg hans. Undir lokin sá hann við þessum harða húsbónda með hjartabilun og sofnaði hálfóforvarendis á sunnudagskvöldi frá amstri daganna. Fáeinum dögum áður hafði hann haft orð á að það væri uppgangur. Jafnvel í banalegunni fengum við enn að sjá glimta í gömul karaktereinkenni og um leið vissu þess að alzheimer lagði þennan jöfur góðlátlegrar kímni aldrei alveg að velli.

Á heimleiðinni frá sjúkrahúsinu rifjaðist upp fyrir mér að þessi maður hafði ekki einasta látið það hlutlaust að ég ætti prinsessuna hans fyrir konu og seinna haft mig í því afhaldi að líkja mér við langafa sinn Skúla Gíslason. Hann hafði einnegin kennt mér ungum að binda heyband sem var jafnvel þá úreltur lærdómur. Mér barninu þótti þetta enda hálfgerð fásinna að troða heyinu ekki bara óbundnu í kerru. En víðfræg óþekkt mín var mátuð af mildri tilsögn þessa dularfulla dýralæknis sem tók sér allan heimsins tíma uppi á köntunum við Lyngás, að láta mér skiljast hvernig leggja ætti reipi og bera ofan á þau föngin.

Nokkrum árum síðar varð það hlutskipti Laugarásfeðra að skiptast á með að keyra okkur unglingana í skóla í Skálholti. Hópurinn var við þrír óalandi dratthalar og tvær álfkonufagrar hálfvaxnar konur. Það eina sögulega sem ég man eftir eru ferðirnar með Gunnlaugi sem tók því með náttúrulegu æðruleysi þó eitthvað skrölti í nýlegum jeppanum. Stundum voru hurðir við það að detta af en ekkert slíkt kom þessum vinnusama manni beinlínis við. Ég kynntist því þá fyrst hvað snæri var tengdaföður mínum oft gagnlegt til að komast í gegnum hamingjuríka daga.

Í lífi Gunnlaugs Skúlasonar voru mörkin milli fjarstæðu og raunveruleika allt að því óglögg. Hann lifði í afslappaðri kímni og trúði held ég jafnt öllu og engu. Fyrir margt löngu sagði hann konu minni ungri að hún væri prinsessa og einhvers staðar undir niðri held ég að bæði hafi alla tíð haft það fyrir satt. Mitt er ekki annað en að þakka fyrir vegferð með þessum launfyndna galdramanni sem tilheyrði oftlega allt annarri öld og annarri veröld en við hinir.

Bjarni Harðarson.

Minningarnar eru svo margar að við gætum skrifað heila bók. Hafragrauturinn á morgnana, sem þú gafst þér svo mikinn tíma í að elda, var heimsins besti hafragrautur og þar með hápunkturinn í tilverunni. Og svo varst þú svo mikill eftirréttamaður og sagðir alltaf: „Jæja, þurfum við ekki að sækja ísinn niður í frystikistu?“ Þú hafðir mjög gaman af hestum og varst alltaf til í að koma með okkur á hestbak. Umhyggja þín og góðmennska er okkur mjög kær sem og allri sveitinni, þar sem þú hljópst hvað eftir annað í vitjanir hvenær sem er. Grillið á sumrin var hápunktur sumarsins og það er svo margt sem vekur upp bros og minningar, eins og skrifstofan þín í Brekkugerði, heiti potturinn, rakvélin, Spori, bíllinn og dýralækningataskan. Elsku afi, minning þín lifir, þú kenndir okkur svo margt og varst okkur svo kær.

Þínar

Þórey og Eygló Rut.

Þegar ég hugsa til afa míns Gunnlaugs verður mér einkum hugsað til haustsins 2004 en það haust lögðu kennarar niður störf og fóru í verkfall. Það var þó lán í óláni, því ég var sendur í sveitina til ömmu og afa og var hjá þeim stóran hluta verkfallsins og vann, þá 11 ára, sem aðstoðarmaður afa, dýralæknisins.

Þessa daga og vikur fékk ég að kynnast þeim betur en ég hafði þá áður gert og mest munaði um þar, allar þær vitjanir sem ég fór í með afa og fékk að fylgjast með honum að störfum.

Þegar ég hafði fylgst með honum í nokkra daga og við vorum staddir á einum bænum, að gelda nokkur trippi, rétti hann mér sprautu með deyfilyfi og sagði í sama mund og hann benti í áttina að einu trippinu: „Þú sprautar þessu svo í hálsinn.“ Þannig byrjaði skammlífur ferill minn sem yngsti dýralæknir landsins.

Þessar vikur fékk ég einnig að kynnast ómetanlegu skopskyni hans sem fólst einkum í einfaldri en þó margræðri glettni en það skopskyn hef ég reynt að tileinka mér að einhverju leyti, með misjöfnum árangri þó.

Þá er mér sérstaklega minnisstætt þegar við sátum saman í bílnum einn daginn og hann hnerraði, en þeir sem þekktu afa vita að hann hélt nú ekki aftur af hnerranum þegar hann kom. Þegar hann hafði gert það sneri hann sér að mér og spurði: „Varst þetta þú?“ Enn þann dag í dag hugsa ég til þessa atviks með mikilli hlýju og kæti. Þetta voru auðvitað ekki okkar einu samvistir því þær voru margar, bæði fyrir og eftir, en þetta haust hugsa ég oft um og þá sérstaklega til afa.

Blessuð sé minning hans.

Gunnlaugur Bjarnason.

Fyrir rúmum þremur áratugum eignuðumst við hús í Laugarási í Biskupstungum. Staðurinn sem er á bökkum Hvítár hefur allt til að bera sem hugsast getur, þar er einstök náttúrufegurð, endalaus víðátta og nóg af köldu og heitu vatni. Auk þeirra gæða vorum við svo lánsöm að eignast einstaka nágranna svo ekki verður á betra kosið. Það er Gunnlaugur Skúlason, konan hans Renata og hans stóra og góða fjölskylda sem við teljum til vina okkar og fjölskyldunnar allrar.

Nú er Gunnlaugur Skúlason dýralæknir og mannvinur allur. Með honum er genginn heiðursmaður sem setti svip á sveitirnar austanfjalls, einkum Biskupstungurnar. Hann er ættaður af hinu sögufræga höfuðbóli og kirkjustað Bræðratungu þar sem hann ólst upp og þar sem Sveinn bróðir hans bjó eftir föður þeirra Skúla og núna Kjartan sonur hans. Það var fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á Gunnlaug tala um Tungurnar og aðrar sveitir, jarðirnar og fólkið sem hann vissi svo mikið um og langflesta þekkti hann enn frekar vegna starfa sinna. Konan hans, hún Renata, alin upp í Berlín og sannur heimsborgari, er fróðari en flestir Íslendingar um landið, sem varð hennar heimaland, sögu þess, menningu og náttúru. Þau ræktuðu garðinn sinn í eiginlegri merkingu, garðurinn þeirra var verðlaunagarður og létu sér annt um fólkið sitt og sveitunga. Gunnlaugur var ræðinn og það var sannarlega gaman að tala við hann um hans fjölmörgu áhugamál og alltaf komum við fróðari af hans fundi um staðhætti og örnefni, ekki bara í Tungunum heldur í öllum landshlutum. Heimilið var gestkvæmt og hjónin höfðingjar heim að sækja. Við minnumst með virðingu og söknuði margra góðra samverustunda, en þar er af nógu að taka.

Þau hjónin stunduðu útivist og við mættum þeim glöðum í bragði á gönguferðum með göngustafi á sumrin, á gönguskíðum á vetrum eða við mættum honum á bláa jeppanum þar sem dýralæknirinn var að fara á milli bæja að sinna sínum mikilvægu störfum nótt sem nýtan dag. Hann var alltaf á vakt. Og hann setti svip sinn á Tungnaréttir þar sem allir hittust ungir sem gamlir og sungu saman. Hann var glæsilegur maður sem eftir var tekið, bjartur yfirlitum og öllum leið vel í návist hans. Hann lagði alltaf gott til mála.

Afkomendur hans bera sterkt svipmót hans og þau hafa erft frásagnargáfu hans og um margt lífssýn og víðan sjóndeildarhring. Þau eru hæfileikafólk sem ber með sér menningarlegt uppeldi og umhverfi. Það er dýrmætt veganesti.

Við vottum Renötu og börnunum fimm þeim Barböru, Helgu, Skúla, Elínu og Hákoni og fjölskyldunni allri innilega samúð. Megi minningin um góðan eiginmann, föður og afa lýsa þeim veginn áfram.

Hjalti Geir Kristjánsson

og fjölskylda.

Gunnlaugi kynntist ég 1951 er við hófum báðir nám við nýstofnaðan Menntaskóla að Laugarvatni. Okkur varð strax vel til vina og enn treystust vinabönd er við tvö seinni árin á Laugarvatni urðum herbergisfélagar. Gunnlaugur var hávaxinn og myndarlegur, fríður sýnum og hafði bjart og hlýtt bros. Hann var hraustmenni, sem ég kynntist áþreifanlega þegar ég einu sinni fékk að smala fé og reka á fjall með þeim Bræðratungumönnum. Við smalamennskuna höfðu menn tvo til reiðar og var annar hestur Gunnlaugs lítt taminn foli. Á fyrsta degi var Bræðratunguland smalað og féð rekið upp fyrir Gullfoss og þar áð seint um kvöld. Voru menn þá vel þreyttir og köstuðu sér niður á milli þúfna til að hvílast fyrir næsta dag, allir nema Gunnlaugur. Hann fór á bak folanum og tók til við að temja hann. Það síðasta sem ég sá áður en ég sofnaði var að Gunnlaugur var ýmist að elta folann eða kastast af baki honum. Í birtingu næsta morguns var lagt af stað og rekið sem leið liggur meðfram Bláfelli og komið seint að kveldi að skálanum í Svartárbotnum. Morguninn eftir var svo féð rekið í haga og látið lemba sig. Því var lokið um miðjan dag og voru þá örþreyttir menn fegnir að komast í bíla sem komnir voru til að flytja þá til byggða. Alla nema Gunnlaug, sem sté á bak hesti sínum og rak alla hestana niður í Bræðratungu. Þegar ég um kvöldið, þreyttur og lurkum laminn, vildi tala um þetta afrek okkar var ekki neina þreytu á Gunnlaugi að sjá og brosti hann góðlátlega að vesöld minni.

Gunnlaugur lauk dýralæknanámi í Hannover í Þýskalandi. Að því loknu var hann settur og síðar skipaður héraðsdýralæknir á Suðurlandi. Eftir að héraðsdýralæknakerfið var lagt af starfaði hann sjálfstætt til ársins 2011, þá orðinn 78 ára. Gunnlaugur var mjög farsæll í starfi og vinsæll meðal bænda. Orðstír hans barst einnig til gamla háskólans í Hannover, sem á hverju sumri fékk að senda honum nema til verklegrar menntunar. Þetta kennslustarf Gunnlaugs var metið að verðleikum þegar Þýska sambandslýðveldið veitti honum orðuna „Verdienstkreuz erster Klasse“, sem er fyrsta gráða orðu fyrir framúrskarandi starf í þágu Þýskalands. Í Hannover kynntist Gunnlaugur tilvonandi eiginkonu sinni, Renötu, sem var þar við nám í kennaraháskólanum. Rétt eins og kona mín er hún fædd og uppalin í Berlín og reyndar úr sama borgarhluta. Þetta þótti okkur skemmtileg tilviljun og varð til þess að styrkja vinabönd enn frekar.

Að loknu stúdentsprófi fórum við bekkjarsystkinin í hálfsmánaðar ferð til Kaupmannahafnar með Gullfossi. Ferðin var sú fyrsta af sameiginlegum ferðalögum, sem síðar urðu árviss. Var ýmist ferðast hér heima eða farið til útlanda. Ein ferð um Suðurland í blíðskaparveðri er sérlega minnisstæð, en þá heimsóttum við Gunnlaug og Renötu á óðali þeirra í Laugarási, þar sem þau höfðu reist sér myndarlegt einbýlishús. Var okkur fagnað forkunnarvel með höfðinglegum veitingum og svo var farið í sundlaug í garðinum og neytt ávaxta úr gróðurhúsi þeirra hjóna.

Eftir að Gunnlaugur veiktist annaðist Renata hann af sérstakri nærfærni og kom t.d. með hann að austan á mánaðarlega kaffifundi okkar gömlu bekkjarfélaganna. Við öllum sem kynntumst Gunnlaugi söknum þess góða drengs. Mestur er missirinn fyrir Renötu. Henni, börnum þeirra og öllum ástvinum sendum við Kristín innilegar samúðarkveðjur.

Ormar Þór

Guðmundsson.

Síðsumars árið 1984 kom ég í Laugarás til að leysa af héraðsdýralækninn. Gunnlaugur tók vel á móti mér og við ókum af stað í vitjanir, þá var ætlast til að dýralæknar hæfu störf hér við hlið annars reyndari. Eftir tvo daga í bílnum þar sem ég heyrði margt um mannlíf, búskaparhætti og kennileiti sagði Gunnlaugur: þú kannt þetta allt, ég er farinn í frí! Fljótlega áttaði ég mig á því að vinnudeginum hér lauk við upphaf hins næsta og sjö dagar voru í vinnuvikunum. Héraðið víðfeðmt og vegirnir vondir. En fyrir Gunnlaugi var þetta eðlilegt líf, bændurnir bjuggu við það sama. Fólkið kunni líka að meta hann og ég naut þess áfram, það þótti t.d. alveg sjálfsagt að dýralæknirinn kæmi inn í mat og kaffi til að halda kröftum. Félagslegi þátturinn var honum mikilvægur, Gunnlaugur leitaði frétta og fylgdist grannt með fólkinu sínu og velferð þess. Ef einhver stóð höllum fæti hjálpaði hann honum endurgjaldslaust án þess að hafa um það orð.

Gunnlaugur var góður dýralæknir og fjölhæfur þótt framan af hafi úrval lyfja og tækja verið takmarkað. Sumum siðum hélt hann lengi, sauð t.d. æðakalkið sjálfur og bændurnir höfðu tröllatrú á Laugarásvatninu, það albesta til að hressa við veikar kýr. Gul baggabönd voru líka ómissandi við fæðingarhjálp, þau bláu ónýt og keðjur bara til vandræða.

Æði margir dýralæknar stigu sín fyrstu spor í praxís hjá Gunnlaugi. Hann var óþreytandi að taka til sín nema, bæði íslenska og erlenda, lærði af þeim nýjungar og byggði upp hjá þeim sjálfstraustið. Og hann vildi ekki síður taka stelpur í nám en stráka og varði þær óhikað ef einhver vildi setja í þær hornin. Þýskalandsforseti sæmdi enda Gunnlaug heiðursorðu fyrir uppfræðslu þýskra dýralæknanema.

Gunnlaugur var náttúrubarn og dýravinur. Hann átti lengi hesta og ferðaðist á þeim bæði um nágrennið og í lengri ferðum með vinafólki. Hann gerði litlar kröfur til reiðtygja og hélt á lofti ýmsum gömlum siðum í hestamennsku. Um tíma ræktaði hann ferhyrnt fé og skoðaði arfgengi viksins í efra augnloki en það háir mörgu ferhyrndu fé. Alltaf fylgdi Gunnlaugi hundur, ómissandi ferðafélagi um sveitirnar.

Gunnlaugur var mjög heppinn með lífsförunaut sinn, hana Renötu. Hún kom úr fjölmenninu í Þýskalandi í fámennt sveitasamfélag, alein með börnin flestalla daga við símsvörun og afgreiðslu lyfja. Í þá daga var ætlast til að eiginkonur dýralækna kynnu ráð við flestum krankleikum, vissu hvaða lyf hentuðu og gætu afgreitt þau út úr apóteki. En allt þetta leysti Renata vel af hendi. Gunnlaugur og Renata áttu stóran og fallegan garð sem Gunnlaugur sló með orfi og ljá, keppnismaður í þeirri grein.

Orðheppinn var Gunnlaugur, örlítið stríðinn og skemmtilegur, börnin mín segja enn ævintýrasögur af vitjunum hans hér í fjósið. Þannig minnast margir mannsins sem var svo lengi hornsteinn í lífi bænda hér.

Við dýralæknar kveðjum nú góðan kollega, ég þakka ómælda aðstoð og trausta vináttu.

Katrín.

Fallinn er frá einn okkar elsti, virtasti og vinsælasti dýralæknir, hann Gunnlaugur Skúlason. Hann hóf störf á Íslandi á sínu heimasvæði, í Laugaráshéraði, 1963, og varð þar síðan héraðsdýralæknir í áratugi og síðast vann hann þar sem sjálfstætt starfandi dýralæknir, allt fram á síðustu ár, þegar heilsu hans tók að hraka.

Kynni okkar hófust árið 1974 þegar ég kom heim frá námi í Skotlandi og var settur héraðsdýralæknir þá um sumarið til að starfa fyrst í forföllum Jóns Guðbrandssonar á Selfossi og síðar einnig í sumarfríi Gunnlaugs í Laugarási.

Það var gaman að starfa í hans héraði og bændur gerðu kröfur um að fá góða úrlausn sinna mála, eins og þeir voru vanir að fá hjá Gulla eins og hann var alltaf kallaður. En það var ekki bara að hann væri góður, ósérhlífinn og útsjónarsamur dýralæknir, heldur þótti alltaf mikill fengur að fá Gulla í heimsókn, því þá voru einatt sagðar góðar sögur um menn og málefni. Til að geta sinnt dýralækningum í þessu stóra héraði, sem oft var erfitt yfirferðar, þá leyfði hann sumum bændum sem hann treysti, að hafa nokkur lyf til að geta bjargað málum hjá sér í neyðartilfellum og oft var viðkvæðið hjá Gulla, þegar hann komst ekki strax í áríðandi vitjun að spyrja – hvað áttu. Það var því margt að læra af Gulla, fyrir ungan dýralækni sem var að hefja sinn ferill, hvað varðaði umgengni við menn og dýr.

Nýlega hitti ég bóndakonu úr héraðinu, sem hafði ung orðið fyrir því áfalli að missa bæði eiginmann og tengdaföður í sviplegu slysi frá stóru búi. Hún lýsti því síðan í löngu máli hve Gulli hefði reynst henni vel í sínum búskap. Eftir á að hyggja þá heyrði ég aldrei nema góðar sögur sagðar af honum, því þannig maður var hann, að hann komst alltaf vel af við alla menn.

Og þótt alltaf væri stutt í hans sérstaka húmor, þá átti hann sínar alvarlegu hliðar sem hann hefur eflaust þurft að nota, þegar hann var fenginn til að verða fyrsti formaður í Hundaræktarfélagi Íslands þegar það var stofnað 1969 til að bjarga íslenska fjárhundinum og hann átti því drjúgan þátt í því merkilega starfi.

Við Steinunn sendum Renötu og afkomendahópi þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur með þakklæti fyrir öll hin góðu og skemmtilegu samskipti í gegnum áratugina.

Halldór Runólfsson, fyrrverandi yfirdýralæknir.

Gunnlaugur Skúlason dýralæknir í Laugarási í hálfa öld (1963-2013) fæddist í Bræðratungu í Biskupstungum 1933. Saga Bræðratungu er tilþrifamikil.

Hér var og er gott undir bú, höfðingjasetur lengst, stórbýli og kirkjustaður í tungunni milli Hvítár og Tungufljóts. Kirkjan var endurbyggð 1911 eftir teikningum Rögnvaldar Ólafssonar. Altaristaflan sýnir síðustu kvöldmáltíðina, máluð af langafabróður mínum, Þorsteini Guðmundssyni frá Hlíð. Nokkrir ábúenda eru nefndir. Hér bjó Ásgrímur Elliðagrímsson. Héðan riðu þeir Hlíðarendabræður: Gunnar, Kolskeggur og Hjörtur úr heimboði hans, er þeim var veitt fyrirsát 30 manna við Knafahóla skammt norðan við Keldur. Hingað reið Flosi Þórðarson til að troða illsakar við Ásgrím eftir að hafa brennt inni Njál vin hans og fólkið á Bergþórshvoli. Flosatraðir eru enn sýnilegar að hluta í Stekkholti á Bræðratungu.

Hér var húsfreyja Þórdís, „hið ljósa man“ ,fyrirmynd Kiljans að Snæfríði Íslandssól. Hér bjó Gissur Þorvaldsson um skeið. Einar Benediktsson skáld átti jörðina um tíma og hugðist búa þar stórbúi. Hér var gott að alast upp.

Gunnlaugur Skúlason var snjall dýralæknir, úrræðagóður og glöggur. Hann var hugulsamur og hjálparhraður, ljúfur maður og gamansamur, jafnvel smástríðinn, en stríðnin hans var blandin hlýju, aldrei særandi. Það birti yfir á bæjum, þar sem Gunnlaugur kom í hlað, því að hann kunni ráð til að lífga skepnur sem voru við dauðans dyr og hugga þá sem hryggðin sló, með glaðværð sinni. Hann hafði skilning á aðstæðum öllum. Hann bruggaði sjálfur lyf til þess að halda kostnaði bændanna sem lægstum og lyfin hans hrifu.

Að loknu dýralæknisnámi fengu margir ungir dýralæknar leiðsögn Gunnlaugs í lækningum og um sérstöðu Íslands, hvað varðar dýrasjúkdóma. Þeir urðu heimilismenn hans. Gunnlaugur og Renata voru farin til Þýskalands er ég kom þangað, en Barbara, Helga og Elín voru heima. Valgerður Pálsdóttir móðir Gunnlaugs var til halds og trausts á heimilinu. Ráðskona var Guðrún Jónasdóttir frá Kjóastöðum. Ég komst fljótt að því, hve starf Gunnlaugs var erfitt, svæðið stórt og kafhlaup á þjóðvegunum á löngum köflum að vorinu. Ég átti í fyrstu erfitt með að komast yfir dagleg verkefni, sem Gunnlaugi virtust leikur einn.

Samband hjónanna var hlýtt. Þau höfðu bæði unað af samvistum við menn og dýr. Umönnun og umhyggja Renötu fyrir Gunnlaugi, þegar mest hann þurfti við síðast, var aðdáunarverð.

Hlýjar samúðarkveðjur og þökk til fjölskyldunnar allrar.

Sigurður Sigurðarson

dýralæknir.

„Það er að koma gemsi á eftir sem getur ekki borið, ætli þurfi ekki að framkvæma keisaraskurð,“ sagði Gunnlaugur. Þetta var á öðrum starfsdegi mínum í starfsþjálfun og afleysingu, „þú bjargar því,“ sagði hann. „Við Renata þurfum að fara að koma okkur.“

Ég man ennþá stríðnissvipinn og brosið sem fylgdi þegar hann sá skelfingarsvipinn á mér. Gunnlaugur og Renata voru á leið í frí en til stóð að ég yrði með honum nokkra daga áður en hann færi, hann bara gat ekki sleppt því að stríða mér aðeins, auðvitað hjálpaði hann mér með aðgerðina. Gunnlaugur var héraðsdýralæknir í Laugarási í hátt í fjóra áratugi og starfaði nánast alla sína tíð í Biskupstungum og nágrenni.

Margir dýralæknanemar tóku sín fyrstu skref í dýralækningum hjá honum í starfsnámi, hann var einstaklega léttur, skemmtilegur og uppörvandi maður fyrir unga og óreynda dýralæknanema. Gunnlaugur var „Hannoverane“, hann lauk námi frá dýralæknaháskólanum í Hannover í Þýskalandi árið 1962, aðeins 22 dýralæknar höfðu þá hlotið íslenskt dýralæknisleyfi, Gunnlaugur fékk dýralæknisleyfi nr. 23 árið 1963.

Ég átti eftir að kynnast því síðar að Gunnlaugur var einstaklega lipur dýralæknir, viljugur og jákvæður maður, alltaf reiðubúinn að fara í vitjun og lækna dýrin, á hvaða tíma sólarhringsins sem var, jafnt á virkum degi sem frídegi.

Hann sá ætíð spaugilegu hliðarnar, það eru ófáar sögurnar úr praxís sem hann sagði í kvöldverðum dýralækna, frábær sögumaður allir veltust um af hlátri rétt í upphafi frásagnar. Gunnlaugur og Renata opnuðu mér heimili sitt og er ég þeim ævarandi þakklát fyrir það. Missirinn er mikill við fráfall lífsförunautar, ég færi Renötu og börnum þeirra mínar dýpstu samúð um leið og ég þakka fyrir samfylgd með Gunnlaugi Skúlasyni dýralækni sem hefur skilað miklu og góðu lífsstarfi, dýrum og bændum til heilla.

Sigurborg Daðadóttir,

yfirdýralæknir.

Kveðja frá bekkjarsystkinum á Laugarvatni.

Gunnlaugur sómdi sér vel í hópi okkar Laugvetninga, hópsins sem lauk námi við menntaskólann vorið 1955. Hár vexti og spengilegur, þekkilegur í andlitsfalli með hið ljósgullna hár sem er prýði ýmissa Sunnlendinga. Við vissum hann upprunninn nærlendis við skólastaðinn, væri þar að finna ætt hans og arf. Gunnlaugur bar með sér ljúfmennsku og hógláta glaðværð hvar sem hann fór; gat stundum virst eins og ögn úti á þekju en svo kom hlýlegt kímnisblik í augu hans og fylgdi þá oftar en ekki launfyndin athugasemd sem bar vitni næmu skopskyni óvæntra tenginga. En græskulaus voru þau gamanmál enda maður óáleitinn og laus við meinbægni, vel kynntur á alla lund.

Má vera að það hafi ekki verið okkur félögum augljóst í hverja átt hann vildi stefna í lífi sínu enda eitt megineinkenni æsku- og mótunarára að vera óráðinn og hvarflandi. Mýkt hans í skapgerð og framgöngu gat villt um og sýnst jaðra við ákvörðunarfælni. En ekki var hann að ófyrirsynju alinn í mildum sveitum gjöfullar moldar „þar sem ljósið lífi glæðist og lítil blómgun þroska nær“. Náttúrunnar lögmál skapar þar mannkindinni markmið og svo var með Gunnlaug sjálfan. Sveitarlífið var honum kært, búsmali sem bændafólk, og það var vafalaust nokkuð sjálfgefið val að halda á námsbraut er legið gæti aftur til heimahaga.

Til að græða og líkna af heilu hjarta en með lærdóm til styrktar.

Að teknu prófi í dýralækningum erlendis kom Gunnlaugur heim með sína ágætu Renötu, sem varð lífsförunautur hans og móðir mannkostabarna. Það var happ Gunnlaugs og gæfa að gerast embættisdýralæknir í efri hluta Árnessýslu við farsæld í starfi og verðskuldaðar vinsældir.

Þar gerðist langt að komin Renata íslenskur sveitarstólpi ekki síðri eiginmanninum. Kært var okkur Laugvetningum að fá þess færi á manndómsárum og síðar að njóta stunda með þeim Gunnlaugi.

Renata var heillin hans, í senn atorkukona og gleðigjafi. Nú eru skapadægur öllum ráðin og skörð skerast í hópinn aldna. Gunnlaugur okkar hverfur aftur til sinnar ættarmoldar, megi sú værðarvoð verða honum mjúk og hlý.

Við sem eftir lifum munum hollan vin og góðan dreng.

Hjalti

Kristgeirsson.