Landsdómur var tilraun til að glæpavæða stjórnmálastarfið

Bandaríski lögmaðurinn Alan Dershowitz skrifaði í vikunni grein í New York Times þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af því að verið sé að glæpavæða þátttöku í bandarískum stjórnmálum. Í greininni segir hann að ekki verði þverfótað fyrir fréttum af rannsóknum á því hvort stjórnmálamenn hafi gerst sekir um glæpsamlegt athæfi og rekur nokkur dæmi bæði á hendur repúblikönum og demókrötum.

Dershowitz tekur fram að hann hafi barist gegn því að Donald Trump yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna, en nú sé hann skotmark rannsókna, sem séu pólitískt litaðar. Í fyrra (og aftur nú) hafi það átt við um Hillary Clinton og þar áður mann hennar. Næst í röðinni séu Bernie Sanders og kona hans, sem nú sæti rannsókn að frumkvæði embættismanns repúblikana í Vermont.

Dershowitz skrifar að ekki eigi að reyna að láta sveigjanleg lög ná yfir það hvernig Trump beiti valdi, sem hann hafi samkvæmt stjórnarskrá. Þegar Trump hafi beðið forstjóra alríkislögreglunnar (FBI) að láta niður falla rannsókn sína á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa, og rekið James Comey úr forstjórastóli FBI hafi hann ekki farið út fyrir stjórnarskrárbundin valdmörk. Hann bætir við að jafnvel þótt menn í herbúðum Trumps hafi haft samband við eða unnið með rússneskum útsendurum sé það ekki glæpur nema þeir hafi verið beðnir um eða hjálpað að fremja glæpi á borð við að brjótast inn í tölvur. Ágæti slíkra ákvarðana eigi að setja í dóm kjósenda, ekki kviðdóms.

Vitanlega eigi að taka á spillingu í stjórnsýslunni, en allar þessar rannsóknir á því hvort stjórnmálamenn hafi framið glæpi séu áhyggjuefni. „Fyrir mér bera þau vitni hræðilegri tilhneigingu, sem hrjáir bæði demókrata og repúblikana, til að glæpavæða ólíkar pólitískar skoðanir.“

Þessi tilhneiging teygði sig hingað til lands þegar réttað var yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í Landsdómi. Aðdragandinn var sá að meirihluti þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis ákvað haustið 2010 að leggja fram þingsályktunartillögu um að fjórir ráðherrar, tveir úr Sjálfstæðisflokki og tveir úr Samfylkingu, yrðu sóttir til saka vegna starfa sinna í aðdraganda bankahrunsins. Hinn pólitíski daunn af þessari tilraun til að glæpavæða stjórnmálastarfið var ótvíræður.

Harkalegar deilur fóru fram um málið á þingi. Í atkvæðagreiðslunni var síðan tekinn af allur vafi um hið pólitíska eðli málsins. Tillögur um að ákæra þrjá ráðherra voru felldar. Hins vegar var samþykkt að ákæra þann fjórða, fyrrverandi forsætisráðherra. Á bak við þá niðurstöðu var ákvörðun fjögurra þingmanna úr Samfylkingunni. Þeir ákváðu að hlífa fyrrverandi formanni sínum, en setja leiðtoga samstarfsflokksins á sakabekk.

Ákæruliðirnir gegn Geir voru sex. Tveimur var vísað frá áður en meðferð málsins hófst, þar á meðal að Geir hefði sýnt af sér stórkostlega vanrækslu sem forsætisráðherra. Hann var síðan sýknaður af þremur ákæruliðum af þeim fjórum, sem eftir stóðu. Hins vegar var hann sakfelldur fyrir að hafa ekki sinnt stjórnarskrárbundinni skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg málefni. Fimm dómarar vildu sýkna hann af öllum ákæruliðum.

Sennilega hefur engin ríkisstjórn fylgt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar í þaula, enda sagði Geir þegar dómur féll að hann hefði verið sakfelldur fyrir formsatriði, sem „hefur ekkert með orsakir bankahrunsins að gera“. Ef þetta stjórnarskrárákvæði yrði gert að mælistiku mætti hins vegar búa til fjölda tilefna til að halda Landsdómi uppteknum um ókomin ár, þótt slíkt sjónarspil yrði engum til framdráttar.

Geir fór með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu á þeirri forsendu að réttarhöldin gegn sér hefðu verið pólitísk. Fyrir rúmri viku komst dómstóllinn að því að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefði ekki verið brotinn þegar Geir var sakfelldur og sýknaði íslenska ríkið. Sá úrskurður vekur spurningar um hvað þurfi til að réttarhöld teljist pólitísk og hvort dómstóllinn hafi yfirhöfuð skoðað málatilbúnað og aðdraganda þess að Geir var dreginn fyrir Landsdóm. Þótt Geir hafi ekki haft erindi sem erfiði fyrir dómstólnum í Strassborg breytir það engu um þá staðreynd að það var pólitísk aðför að efna til réttarhaldanna yfir honum og tilraun til að glæpavæða stjórnmálastarfið. Viðbrögð Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra Vinstri grænna, segja alla söguna: „Í mínum huga hefur Geir Haarde ekki tapað í þessu máli. Við sem hófum þetta mál töpuðum því hins vegar frá fyrsta degi, einfaldlega með því að krefjast fangelsisdóms yfir manni fyrir að framfylgja pólitískri sannfæringu sinni.“