Bjarni Halldór Baldursson fæddist í Vestmannaeyjum 3. mars 1943. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 25. nóvember 2017.

Foreldrar Bjarna voru Jón Baldur Sigurðsson, f. 1913, d. 2002, og Vilhelmína Sigríður Bjarnadóttir, f. 1916, d. 1972. Bjarni var þriðji í röð fjögurra systkina. Elstur er Birkir, f. 1936, Guðný Sigríður (Silla), f. 1940, og Guðbjörg Ósk, f. 1955.

Bjarni kvæntist Oddnýju Ögmundsdóttur, f. 1944, þau slitu samvistum árið 1986. Saman eiga þau tvær dætur: 1) Svövu, f. 17.1. 1964, gift Gunnari Darra Adólfssyni, f. 19.9. 1961, börn þeirra eru: a) Sæþór, f. 1983, maki Bjartey Gylfadóttir, f. 1983, þeirra börn eru Bjartey Ósk og Eyþór Addi, b) Herdís, f. 1991, sambýlismaður Jóhann Rafn Rafnsson, f. 1993, c) Jóhanna Svava, f. 1994, og d) Darri, f. 1997, unnusta Jóhanna Helga Sigurðardóttir, f. 1998. 2) Sirrý, f. 24.12. 1969, gift Árna Gunnarssyni, f. 9.12. 1969, saman eiga þau a) Ingvar, f. 1999, b) Gunnar, f. 2002, og c) Arnar, f. 2007.

Seinna hóf Bjarni sambúð með Jarþrúði Júlíusdóttur, f. 8.10. 1947, d. 20.8. 1997.

Bjarni lærði ungur bifvélavirkjun og starfaði lengst af við þá iðn. Rak bifvélaverkstæði um tíma með Kristjáni Ólafssyni. Seinni árin vann hann einnig hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja við ýmis störf og hjá Fiskimjölsverksmiðju Vinnslustöðvarinnar áður en hann hætti störfum vegna aldurs.

Bjarni var mikill íþróttamaður á yngri árum, spilaði hann fótbolta með Tý og varð bikarmeistari með ÍBV árið 1968.

Útför Bjarna fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 2. desember 2017, klukkan 14.

Það var fyrir rúmlega 26 árum að ég kynntist Bjarna, sem síðar átti eftir að verða tengdafaðir minn. Bjarni var á sínum yngri árum mikill íþróttamaður og var lykilmaður í sigursælu fótboltaliði ÍBV. Hann stundaði einnig golf og var á tímabili með mjög lága forgjöf. Við ræddum í gegnum tíðina nokkuð oft um golf og þegar svo bar við að ég spilaði hring í Eyjum var hann iðulega mættur á bílnum sínum að fylgjast með. Passaði sig þó ávallt á því að vera ekki á bílnum fyrir framan teig, vitandi það að tengdasonurinn er ekki þekktur fyrir að vera sérstaklega öruggur í upphafshöggunum. Hann laumaði síðan nokkrum góðum ráðum til mín um völlinn og hvernig ætti að lesa í vindinn, en eins og þeir sem hafa spilað í Eyjum vita getur hann spilað nokkuð stórt hlutverk. Strákarnir okkar Sirrýjar minnast hans fyrir ís-bíltúrana, en í þeim var nauðsynlegt að stoppa á Olís/Kletti og fá sér ís og jafnvel pylsu og kók ef vel bar við. Barnabörnin voru í miklu uppáhaldi hjá Bjarna og gaf hann sér iðulega tíma til að sýna þeim Eyjarnar og segja þeim sögur af heimaslóðum sínum. Bjarni var ekki mannblendinn en hafði samt þörf fyrir að vera á ferðinni og fylgjast með. Það var því ákaflega mikilvægt í þeim veikindum og miklu aðgerðum sem hann hefur farið í á undanförnum árum að geta haldið bílprófinu og bíl til að komast um og á milli staða. Þannig var hann ávallt mættur þegar von var á okkur með Herjólfi til Eyja og beið á sama stað á bryggjunni til að taka á móti okkur og heyra hvernig ferðin hefði gengið. Nú er Bjarni lagður af stað í sína hinstu för, hvíli hann í friði með guðs blessun.

Árni Gunnarsson.

Nú ertu farinn, elsku afi minn. Þú ert búinn að vera ansi seigur í veikindabaráttunni þinni síðastliðin ár, en nú er tími þinn kominn, samt svo snöggt og fyrirvaralaust, finnst mér. Ég sit hér við eldhúsborðið með tárin í augunum og rifja upp minningar og nóg eigum við af þeim saman.

Laugardagsbíltúrarnir okkar þegar ég var barn, þar spjölluðum við um daginn og veginn. Þú sýndir NBA-körfuboltadellunni í mér mikinn áhuga, mitt uppáhaldslið var (og er) Portland Trail Blazers (sennilega vegna þess að enginn annar hélt með þeim) síðan fylgdist þú með úrslitunum úr Portland-leikjunum, við áttum síðasta Portland-spjallið í síðustu viku. Það var líka partur af prógramminu að lotta og kaupa pulsu, ég fékk nú alltaf gos eða safa með minni en þú fékkst þér alltaf G-mjólk með röri með þinni, sem mér finnst skemmtileg minning. Þú smitaðir mig af golfdellunni og græjaðir mig upp svo ég gæti æft golf af krafti sem ég gerði um tíma og hafði gaman af. Ég hætti reyndar að æfa golf á unglingsárunum en ég er afar þakklátur fyrir golftímabilið í minni æsku. Þú sýndir mótorhjóla- og bíladellunni í mér alltaf áhuga og þurftir ávallt að fá helstu tækniupplýsingar um bílana og hjólin sem ég festi kaup á. Í hverri viku spurðir þú mig um Bjarteyju og krakkana, þú vildir vera viss um að fólkið þitt hefði það örugglega gott. Þú varst mikill dýravinur, hún Týra mín á eftir að sakna þín mikið. Þú hefur alla tíð verið stoltur af mér, ég hef alltaf fundið það. Þessar minningar ásamt ótal öðrum á ég til að hugsa um nú og í framtíðinni.

Ég vill trúa því að þú sért á betri stað, laus við veikindi og vanlíðan. Takk fyrir tímann og minningarnar.

Hvíldu í friði, elsku afi.

Þinn

Sæþór.

Elsku Bjarni afi.

Ég á eftir að sakna þess að spjalla við þig í Bragganum, mér fannst mjög gaman að fá nammipening frá þér á virkum dögum. Það er rosaleiðinlegt að þú sért dáinn. Það er búin að vera mikil sorg í fjölskyldunni út af þessu. Öllum ættingjum þínum finnst þetta rosasorglegt. Ég á eftir að sakna þín rosalega mikið. Mér finnst eitthvað vanta í lífið og mér finnst mjög líklegt að það sért þú.

Þín langafastelpa,

Bjartey Ósk.

Bjarni Baldursson, vinur minn, hefur gengið sín síðustu spor hérna megin grensunnar sem skilur að þetta líf og næsta. Dauðinn opnar hliðið inn í eilífðina og býður manni að ganga í bæinn.

Það var hress hópur unglinga í Eyjum fyrir 60 árum og unga kynslóðin þar eins og annars staðar í heiminum var að brjóta af sér klakabönd gamalla siða, boða og banna. Þá blésu vorvindar glaðir um veröldina. Rokkið var múrbrjótur og nýjar hugmyndir leiddu til einlægari og nánari samskipta unga fólksins á milli.

Úr þessum jarðvegi spratt vinátta okkar Bjarna og milli okkar ríkti alltaf vinarþel og væntumþykja. Við vorum mikið saman á unglingsárunum og ræddum margt, gengum saman um götur bæjarins, austur á Urðir, um klappir og kletta, tuggðum strá liggjandi á bakinu, veltum ýmsu fyrir okkur, m.a. volga blettinum í Helgafelli, heimsfrægð og tilgangi lífsins.

Við dæstum yfir hversu merkilegt fyrirbæri og óskiljanlegt kvenfólkið væri, hlógum dátt að einhverri vitleysu og skömmu síðar reyndum við aftur að leysa lífsgátuna. Umræðurnar allar einkenndust af áhyggjuleysi, kjarki og bjartsýni og við vorum ósigrandi. Á því lék enginn vafi. Ég tel enn ekki tímabært að játa mikilfengleg prakkarastrikin sem við stóðum fyrir.

Ekki má gleyma löngum stundum sem við áttum við að hlusta á rokkið í góðum græjum Birkis, bróður Bjarna, Radio Luxemburg og flott plötusafn. Í austurendanum í Vallanesi sungu þeir í okkur kjark Bill Haley, Elvis og fleiri. Þetta var stórkostlegur tími.

Bjarni í Vallanesi var sérstaklega glæsilegur ungur maður, andlitsfríður, kraftalegur, vel íþróttum búinn og slyngur knattspyrnumaður.

Eins og gengur fórum við hvor sína leiðina og gengum léttstígir móts við lífið. Margt gekk okkur vel, annað miður og það sem áður veitti gleði varð að byrði síðar. Á árgangsmóti í Eyjum vantaði Bjarna og okkur var sagt hann hefði undirgengist mikla aðgerð og tvísýnt væri um líf hans. Veislan var haldin aðeins nokkur skref frá Vallarnesi og það var sérkennilegt að horfa á myndasýningu frá unglingsárunum, þar sem Bjarni var á mörgum myndum. Ég held að skólasysturnar hafi beint myndavélinni oftar að honum en okkur hinum strákunum.

Lengi átti Bjarni við alvarlegan heilsubrest að stríða og var mikið á hann lagt. Mér fannst hann taka mótlætinu af miklu hugrekki.

Þó að lengst af væri langt á milli okkar vorum við alltaf í sambandi, hringdumst á og áttum stundir saman. Alltaf var hann jafn hlýr og skemmtilegur. Við hittumst síðast 8. september í Vestmannaeyjum yfir hammara.

Á eftir fór hann með mig í langan bíltúr og spjall. Við hlógum að bernskubrekum, rifjuðum upp glæsta sigra og góðar stundir.

Hann sagði mér stoltur af stelpunum sínum og barnabörnum og það var auðséð að ekkert var honum kærara í lífinu. Við ræddum um dauðann, eins og gamlir og veikir karlar gera. Ég kvíði engu, sagði Bjarni, og svo héldum við áfram að gleðjast yfir gömlum minningum.

Vertu sæll, vinur. Takk fyrir allt.

Atli Ásmundsson.