Öflugur Emil Karel Einarsson tók af skarið í sóknarleik Þórsara.
Öflugur Emil Karel Einarsson tók af skarið í sóknarleik Þórsara. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Egilsstöðum Vigdís Diljá Óskarsdóttir sport@mbl.is Þór Þorlákshöfn komst upp úr fallsæti í Dominos-deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar liðið lagði Hött á Egilsstöðum 71:80. Leikurinn var nokkuð jafn framan af.

Á Egilsstöðum

Vigdís Diljá Óskarsdóttir

sport@mbl.is

Þór Þorlákshöfn komst upp úr fallsæti í Dominos-deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar liðið lagði Hött á Egilsstöðum 71:80.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af. Í hálfleik skildu liðin með eins stigs mun, 35:36, Þór Þorlákshöfn í vil. Eftir að átta mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta voru Þórsarar komnir í 10 stiga forskot. Þá tók Höttur leikhlé sem greinilega hleypti nýju lífi í liðið sem setti niður níu stig á einni mínútu og tókst loks að jafna leikinn.

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshöfn, sagði Emil Karel og DJ hafa leitt liðið út úr þessu áhlaupi Hattar. „Þetta var fyrst og síðast öflugur varnarleikur og svo náðum við upp áræði í sóknarleik. Það var Emil sem fór fyrir því og svo tók DJ við.“

Erlendur leikmaður Þórsara, DJ Balentine II, var langstigahæstur með 34 stig, þar af 21 úr þriggja stiga skotum. Í liði Hattar var Kelvin Lewis stigahæstur með 22 stig en hann átti sömuleiðis 16 fráköst, langflest allra leikmanna.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var að vonum ánægður með Kelvin Lewis. „Þetta er bara nákvæmlega það sem við þurfum, hvort sem það er hann eða einhver annar. Þessi leikur var án efa skref fram á við þótt hann hafi ekki unnist.“ Viðar sagði margt hafa verið jákvætt við leik sinna manna. „Við gerðum betur en við höfum verið að gera, vorum staðfastir og ákveðnir, en svo náðu þeir að þrýsta okkur út og þá urðum við að vera sterkari.“

Einar Árni var í heild ánægður með leik Þórsara. Hann hafði þó áhyggjur af fjölda stolinna bolta. „Við vorum með þrjá stolna í síðasta leik og viljum passa hann betur,“ sagði Einar en þeir voru 10 í leiknum í gærkvöldi.

Þór er nú í 9. sæti deildarinnar með sex stig. Höttur er stigalaus á botni deildarinnar eftir níu tapleiki. Í botnbaráttunni með þeim er Þór Akureyri.