Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði sagðist ekki hafa sett niður fyrir sér einhverja óskamótherja áður en dregið var í riðla fyrir HM í Rússlandi í gær. „Nei, ég hafði ekkert pælt í því á þann hátt.

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði sagðist ekki hafa sett niður fyrir sér einhverja óskamótherja áður en dregið var í riðla fyrir HM í Rússlandi í gær. „Nei, ég hafði ekkert pælt í því á þann hátt. Maður beið fyrst eftir því að sjá hvernig þetta kæmi út eftir fyrstu tvo styrkleikaflokkana. Mér datt einhvern veginn í hug að við myndum fá annaðhvort Argentínu eða Brasilíu.“

Mörgum Íslendingum þykir sjarmerandi að fá sterka fótboltaþjóð frá S-Ameríku eins og Argentína er í riðil Íslands. Aron tekur undir það. „Algerlega. Þetta er fótboltaþjóð með mikla sögu og með einn besta fótboltamann í heimi innanborðs. Gaman verður að kljást við þetta sóknarsinnaða lið. Við höfum engu að tapa og þegar við erum í þeim gír spilum við oftast mjög góðan fótbolta. Þannig verður þetta í Rússlandi enda engin pressa á okkur nema sú sem við setjum á okkur sjálfir,“ sagði Aron ennfremur við Morgunblaðið í gær. kris@mbl.is