EHF-bikarinn Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Vissulega er Tatran Presov öflugt lið en að sama skapi erum við einnig með gott lið.

EHF-bikarinn

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Vissulega er Tatran Presov öflugt lið en að sama skapi erum við einnig með gott lið. Við eigum sannarlega möguleika á að vinna síðari leikinn en til þess verðum við að leika almennilega vörn, fá góða markvörslu og ná hraðaupphlaupum,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði handknattleiksliðs FH, sem í dag mætir Tatran Presov frá Slóvakíu öðru sinni í 3. umferð EHF-bikarsins. Flautað verður til leiks í Kaplakrika klukkan 14.

Presov vann fyrri viðureignina á sínum heimavelli, 24:21, fyrir viku. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja ráða því hvort Presov eða FH taka sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Til þess þarf FH að vinna með fjögurra marka mun í dag. Þriggja marka sigur nægir FH ef Presov skorar ekki fleiri en 20 mörk. „Við eigum að geta unnið með fjögurra marka mun, að mínu mati og okkar í liðinu,“ sagði Ásbjörn.

„Ég vænti þess að viðureignin í dag verði hraðari en sú fyrri. Við fórum illa að ráði okkar ytra og brenndum af góðum marktækifærum. Markvörður Presov var með um 50% markvörslu, samt töpuðum við aðeins með þremur mörkum,“ sagði Ásbjörn.

FH-ingar unnu Dukla Prag frá Tékklandi í tveimur leikjum í EHF-keppninni fyrr á þessu keppnistímabili. Ásbjörn segir Presov-liðið vera sterkara en lið Dukla. „Presov-liðið er massívara, það er taktískt séð betra en Dukla auk þess sem Presov hefur einnig á að skipa betri markvörðum. Presov er þrepi ofar en Dukla-liðið, á því leikur enginn vafi,“ sagði Ásbjörn og bætti við að þjálfari Presov væri enginn aukvisi, Slavko Goluza, en hann þjálfaði krótatíska landsliðið frá árinu 2010 til ársins 2015.

„Þetta er skemmtilegt verkefni og gaman að vita til þess að við eigum góða möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslit sem væri stórsigur fyrir íslenskan handbolta. Ég skora á fólk að mæta í Krikann í dag klukkan 14 og styðja við bakið á okkur, hvort sem um er að ræða FH-inga eða aðra handboltaáhugamenn. Við viljum fá fullan Krikann í dag,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH.