Undirbúningurinn Marteinn Geirsson ásamt dóttur sinni Margréti Marteinsdóttur en í fangi hennar er Tindur Marinó, öll í nýju stuðningsmannatreyjunni.
Undirbúningurinn Marteinn Geirsson ásamt dóttur sinni Margréti Marteinsdóttur en í fangi hennar er Tindur Marinó, öll í nýju stuðningsmannatreyjunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is „Treyjurnar fara í sölu hjá okkur á mánudag og fólk getur látið setja nöfnin sín, leikmanna eða merkt þær að vild,“ segir Halldór Einarsson, eða Halldór í Henson, eins og hann er betur þekktur.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

„Treyjurnar fara í sölu hjá okkur á mánudag og fólk getur látið setja nöfnin sín, leikmanna eða merkt þær að vild,“ segir Halldór Einarsson, eða Halldór í Henson, eins og hann er betur þekktur. Hann er að sjálfsögðu að tala um stuðningsmannatreyju íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

„Ég er búinn að vera í þessu í 44 ár og þetta verður ekki miklu skemmtilegra en þetta. Það er ótrúlegt hvað þetta landslið er búið að gefa okkur margar góðar stundir og við viljum heiðra þá með fallegri stuðningsmannatreyju.“

Beint flug á alla leikina

Ferðaskrifstofur og flugfélög horfðu á niðurröðun í riðla keppninnar með mikilli eftirvæntingu enda mikil vinna verið lögð í undirbúning ferða á keppnina sjálfa. Sala á beinu flugi til þeirra þriggja borga í Rússlandi þar sem leikir Íslands fara fram er þegar hafin hjá Icelandair og WOW air. Í tilkynningu frá Icelandair segir að verðið sé frá 175 þúsund krónum. Vita og Gamanferðir verða með skipulagðar ferðir á HM líkt og EM fyrir tveimur árum og segir Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gamanferða, að sala hefjist strax eftir helgi. „Við höfum lagt mikla vinnu í þetta verkefni, pantað hótel og skipulagt flug en við verðum með beint flug á alla leiki Íslands,“ segir Þór.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að Ísland, líkt og aðrar þátttökuþjóðir, fái 8% miða á hvern leik. „Miðasalan hefst 5. desember hjá FIFA og komi til þess að kvótinn fyllist verður dregið um það hver fær miða á leikinn,“ segir hún og bendir á að miðasalan standi til loka janúar.

Ekki fyrstur kemur fyrstur fær

„Það skiptir ekki máli hvort þú kaupir miða 5. eða 25. desember. Þetta er ekki fyrstur kemur fyrstur fær,“ segir Klara og varar við því að fólk kaupi miða annars staðar en hjá FIFA og vísar til atvika frá EM í Frakklandi sumarið 2016.