[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þegar leiðrétt er fyrir því að lífeyriskerfi landa eru fjármögnuð með misjöfnum hætti, sum í gegnum skattkerfið en önnur ekki, kemur í ljós að skattheimta á Íslandi er ein sú mesta meðal aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Tilefnið er frétt í Morgunblaðinu sl. laugardag. Þar var fjallað um útreikninga OECD á sköttum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ekki rétt mynd af stöðunni

Samkvæmt þeim var hlutfallið 36,4% á Íslandi í fyrra en 34,3% að meðaltali í OECD-ríkjunum. Skilaði þessi niðurstaða Íslandi í 15. sæti af 35 á lista OECD. Samkvæmt tölum stofnunarinnar hefur þetta hlutfall farið lækkandi á Íslandi síðustu ár.

Halldór Benjamín segir þessa útreikninga ekki segja alla söguna. Raunar gefi þeir ranga mynd.

„Skattheimta á Íslandi er ein sú mesta meðal þróaðra ríkja og töluvert yfir meðaltali OECD. Við fyrstu sýn kann að líta út fyrir að skattar á Íslandi séu lágir en algeng mistök í umræðunni eru að gleyma að leiðrétta fyrir mismunandi lífeyriskerfum landa. Með því að skoða skatta án tryggingagjalda (e. social security contributions) má nálgast skatttekjur leiðréttar fyrir mismunandi lífeyriskerfum landanna. Á Íslandi er sjóðsöfnunarkerfi en í mörgum löndum eru lífeyrisgreiðslur fjármagnaðar með tryggingagjöldum í svokölluðu gegnumstreymiskerfi,“ segir Halldór Benjamín.

Það þriðja hæsta á Íslandi

Samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins voru heildarskatttekjur á Íslandi í fyrra um 33% af vergri landsframleiðslu, þegar leiðrétt er fyrir greiðslum til almannatrygginga. Samkvæmt því er Ísland í 3. sæti af 35 ríkjum. Meðaltal ríkja OECD var 25%.
Danmörk í efsta sæti
» Skv. útreikningum SA var hlutfall skatta af VLF, leiðrétt fyrir greiðslum til almannatrygginga, hæst í Danmörku í fyrra. Greiðsla almannatrygginga fer beint í gegnum skattkerfið í Danmörku og því er ekki hægt að leiðrétta fyrir þeim í samanburðinum.