Bríet Bjarnhéðinsdóttir
Bríet Bjarnhéðinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvaða íslenskar konur ættu að vera í bók um magnaðar konur?

Að svara þessari spurningu er mikið lúxusvandamál. Það eru svo margar sem koma til greina. Ég tilnefni þrjár konur á ólíkum sviðum og tímum. Sú fyrsta er Bríet Bjarnhéðinsdóttir, hvatakona að stofnun Kvenréttindafélags Íslands. Félagið var stofnað 1907, starfar enn og berst fyrir kynjajafnrétti á öllum sviðum. Svo er Auður Jónsdóttir, einn af mínum uppáhaldsrithöfundum. Bækurnar hennar eru æði, og konur í aðalhlutverkum. Hún skrifar líka frábæra pistla í fjölmiðla og mér finnst að fleiri mættu hlusta á hana.

Sú þriðja er Katrín Tanja Davíðsdóttir, tvisvar hraustasta kona heims. #dóttir varð til í kringum hana og hinar Crossfitstelpurnar (Annie Mist og Ragnheiði Söru) og fótboltastelpurnar hafa notað það líka. Það er stórkostlegt hvað við eigum margar íþróttakonur á heimsmælikvarða og Katrín Tanja er í þeim hópi. Ég stunda ekki Crossfit en horfi alltaf á leikana og tryllist yfir velgengni þeirra.