Það hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að stunda ný og betri vinnubrögð á Alþingi undanfarið. En hvað þýðir það í raun og veru?

Það hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að stunda ný og betri vinnubrögð á Alþingi undanfarið. En hvað þýðir það í raun og veru? Að sögn forsætisráðherra þá var eitt dæmi um ný vinnubrögð hvernig stjórnarandstöðunni var boðið upp á að velja um hvort ríkisstjórnin legði fram fjárlagafrumvarp fyrri ríkisstjórnar eða hvort stjórnin ætti að breyta því fyrst og leggja það svo fram. Það sem gleymdist að segja var að samhliða gamla fjárlagafrumvarpinu yrðu lagðar fram breytingatillögur. Niðurstaðan varð þó það sem stjórnarandstaðan bað um, nýtt frumvarp. Að það hafi verið hlustað er merki um ný vinnubrögð að mínu mati. Að það hafi gleymst að greina frá öllum upplýsingum sem málið varðaði er hins vegar merki um hið gagnstæða.

Hver eru þá þessi nýju vinnubrögð? Í stjórnarsáttmálanum er meðal annars sagt: „opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum“ og „með því að styrkja Alþingi“. Hluti af því eru loforð um þverpólitískar nefndir, sem er eitthvað sem allir hafa heyrt áður. Einnig ætlar ríkisstjórnin að setja sér siðareglur, sem hefur verið gert áður og dæmin um það hvernig siðareglurnar eru bara orð á blaði sem enginn fer eftir eru til. Eftir að hafa lesið stjórnarsáttmálann hef ég enn ekki hugmynd um hvaða nýju vinnubrögð eiga að skapa einhverja sátt. Það verður örugglega ýmislegt reynt en á sama tíma mun gamla pólitíkin sífellt vera að þvælast fyrir. Gamlir hundar læra að sitja og þess háttar.

Mig langar því að leggja til nokkrar haldbærar tillögur um nýju vinnubrögðin. Þrjár einfaldar reglur fyrir ríkisstjórnina og ein einföld regla fyrir stjórnarandstöðuna.

Ríkisstjórn

1. Hlustar á gagnrýni og bregst við.

2. Svarar spurningum undanbragðalaust.

3. Axlar ábyrgð með afsögn eða að stíga til hliðar ef eitthvað fer úrskeiðis.

Stjórnarandstaða

1. Kallar ekki „úlfur, úlfur“ eða gerir úlfalda úr mýflugu.

Dæmin eru fjölmörg um stjórnarandstöðuna sem gerir of mikið úr litlu máli. Þar falla kannski alls konar gífuryrði sem vega þá þeim mun minna þegar alvarlegt mál kemur upp. Það er erfitt að sjá hvort er orsök og hvort er afleiðing, að stjórnin hlusti ekki eða andstaðan ýki. Þegar allt kemur til alls þá skiptir það ekki máli, hvoru tveggja verður að ljúka. Stjórnarandstaðan verður að vera málefnaleg og ríkisstjórnin verður að gera ráð fyrir því að gagnrýni og spurningar séu málefnalegar jafnvel þó þeim finnist þær ekki hljóma þannig.

Að lokum vil ég líka gera það að tillögu minni að stjórnarandstaðan heiti héðan í frá ekki stjórnarandstaða eða minnihluti heldur stjórnareftirlit. Orð í íslensku eru lýsandi og andstaða þýðir að „vera andvígur e-u, virk neikvæð afstaða“. Það er ekki málefnalegt. Ný vinnubrögð eru alvöru eftirlit og ábyrgð. bjornlevi@althingi.is

Höfundur er þingmaður Pírata.

Höf.: Björn Leví Gunnarsson