Útdráttur Stuðningsmenn Tólfunnar fögnuðu ákaft á Ölveri í gær, þegar fyrsti mótherji Íslands á HM í Rússlandi næsta sumar, Argentína, varð ljós.
Útdráttur Stuðningsmenn Tólfunnar fögnuðu ákaft á Ölveri í gær, þegar fyrsti mótherji Íslands á HM í Rússlandi næsta sumar, Argentína, varð ljós. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Andri Steinn Hilmarsson Vilhjálmur A.

Andri Steinn Hilmarsson

Vilhjálmur A. Kjartansson

Víðir Sigurðsson

„Það verður þjóðhátíðarveisla hjá Íslendingum í Moskvu,“ segir Hilmar Jökull Stefánsson, stjórnarmaður í Tólfunni, stuðningsmannasveit Íslands, um fyrsta leik Íslands á HM í Rússlandi laugardaginn 16. júní nk., gegn Lionel Messi og félögum í liði Argentínu, sem er í 4. sæti á heimslista FIFA.

Tólfan safnaðist saman á Ölveri í gær til að fylgjast með drættinum í riðla á HM. Hilmar sagði allt stefna í þrefalda þjóðhátíð þessa helgi, frá 15. til 17. júní 2018. Ísland spilar í D-riðli í Rússlandi, einum erfiðasta riðli mótsins. Auk Argentínu mætum við einnig Nígeríu hinn 22. júní í borginni Volgograd og Króatía er þriðji og síðasti mótherji Íslands í riðlinum, en sá leikur fer fram 26. júní í borginni Rostov.

Þátttökuþjóðir fá 8% miða

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sagðist ekkert hafa sett niður fyrir sér óskamótherja. „Mér datt einhvern veginn í hug að við myndum fá annaðhvort Argentínu eða Brasilíu,“ sagði fyrirliðinn, sem telur heillandi að fá að keppa við sterka fótboltaþjóð frá S-Ameríku.

Icelandair og WOW air hafa þegar hafið sölu á flugi til þessara borga í Rússlandi á leikdögum. Strax eftir helgi hefst sala pakkaferða hjá ferðaskrifstofum.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir þátttökuþjóðir fá 8% miða á hvern leik en miðasala hefst 5. desember nk. og stendur út janúar.

Ný stuðningsmannatreyja landsliðsins fer einnig í sölu hjá Henson eftir helgi en fyrstu treyjurnar voru sýndar eftir dráttinn í gær.