Mættur aftur Kristinn Freyr Sigurðsson kominn til Vals.
Mættur aftur Kristinn Freyr Sigurðsson kominn til Vals.
„Þetta var eitthvað sem við þurftum; að „stuða“ aðeins leikmannahópinn eins og við höfum nú gert með því að fá þrjá nýja leikmenn.

„Þetta var eitthvað sem við þurftum; að „stuða“ aðeins leikmannahópinn eins og við höfum nú gert með því að fá þrjá nýja leikmenn. Það eru frábærar fréttir að fá Kristin aftur í liðið, og þar með minn gamla herbergisfélaga,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær. Téður herbergisfélagi er Kristinn Freyr Sigurðsson, besti leikmaður Íslandsmótsins 2016, sem í gær sneri aftur til Vals eftir árs dvöl í atvinnumennsku í Svíþjóð. Kristinn skrifaði undir samning við Val til fjögurra ára.

Í samtali við mbl.is sagði Kristinn fjölskylduástæður hafa haft mest að segja um að hann rifti samningi sínum við Sundsvall í Svíþjóð og ákvað að snúa heim. Sagðist hann orðinn mikill Valsari eftir fjögur ár á Hlíðarenda og því viljað semja aftur við félagið, en FH sýndi einnig mikinn áhuga.

Tveir lykilmanna Vals, fyrirliðinn Haukur Páll og varafyrirliðinn Bjarni Ólafur Eiríksson, skrifuðu í gær undir nýja samninga við félagið. Bjarni Ólafur samdi til ársloka 2019 en Haukur til ársloka 2020.

„Ég kom í félagið til að berjast um titla og það tók smátíma, en svo komu tveir bikartitlar og svo sá stóri. En til að halda áfram að vinna titla þá þarf að spýta í lófana og við erum klárlega að gera það. Við vorum með flottan leikmannahóp fyrir og erum komnir með enn betri núna,“ sagði Haukur Páll, en Valur fékk fyrr í vetur til sín Ólaf Karl Finsen frá Stjörnunni og Ívar Örn Jónsson frá Víkingi R.

Litlar breytingar hafa annars orðið á leikmannahópi Vals en ljóst er að Daninn Nicolas Bögild verður ekki áfram hjá liðinu og óvissa ríkir um landa hans, miðvörðinn Rasmus Christiansen. Þá gæti Orri Sigurður Ómarsson verið á förum en algjör óvissa ríkir þó um hugsanleg vistaskipti hans til Horsens í Danmörku, eins og lesa má um á mbl.is/sport. sindris@mbl.is