Einu sinni var stelpa sem átti heima í enskri sveit og hún hélt meira upp á bækur en nokkuð annað í heiminum. Jane vildi ekkert frekar en að hringa sig uppi í sófa í bókasafni pabba síns og sökkva sér niður í bók.

Einu sinni var stelpa sem átti heima í enskri sveit og hún hélt meira upp á bækur en nokkuð annað í heiminum. Jane vildi ekkert frekar en að hringa sig uppi í sófa í bókasafni pabba síns og sökkva sér niður í bók. Hún lifði sig svo algjörlega inn í sögurnar að stundum þrætti hún við söguhetjurnar eins og þær gætu svarað henni.

Jane og systkini hennar sjö settu upp leikrit og léku látbragðsleiki til að skemmta sér og foreldrum sínum. Þegar Jane var enn kornung byrjaði hún að skrifa sögur og las þær svo upphátt fyrir Cassöndru systur sína til að koma henni til að hlæja. Sögurnar sem Jane skrifaði voru eins og hún sjálf: greindarlegar, hugmyndaríkar, fyndnar og beittar. Öll smáatriði skiptu hana máli: hvernig kærustupar þrætti sín á milli, göngulag manna, hvað þjónustustúlkurnar pískruðu sín á milli – allt voru þetta vísbendingar um skapgerð fólks. Jane punktaði allt hjá sér í minnisbækur og greip til þess í sögunum sínum.

Á þessum tíma var ætlast til þess að stúlkur giftu sig. Jane langaði ekkert til að giftast svo að hún gerði það aldrei.

„Ó, Lizzy! Gerðu allt fremur en að giftast án ástar,“ skrifaði hún í einni skáldsögunni sinni.

Jane Austen varð einn frægasti rithöfundurinn í bókmenntasögu Englands. Það er enn hægt að heimsækja fallega húsið í litla þorpinu þar sem hún sat iðulega og skrifaði við lítið skrifborð og horfði á blómagarðinn fyrir utan gluggann.