Síldarvinnslan Skip frá Síldarvinnslunni við bryggju í Neskaupstað.
Síldarvinnslan Skip frá Síldarvinnslunni við bryggju í Neskaupstað. — Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
Yfir 500 starfsmenn Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum, Helguvík og Akranesi fagna um helgina 60 ára afmæli fyrirtækisins í Póllandi.

Yfir 500 starfsmenn Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum, Helguvík og Akranesi fagna um helgina 60 ára afmæli fyrirtækisins í Póllandi. Hópurinn býr í borginni Sopot, sem er á milli Gdansk og Gdynia og í kvöld er mikil afmælishátíð á dagskránni, m.a. með góðum gestum að heiman.

Flogið var með þotum Flugleiða til Póllands og á fimmtudag var flogið frá Egilsstöðum, en í gær bæði frá Egilsstöðum og Keflavík. Flugstjóri í Egilsstaðavélinni á fimmtudag var Norðfirðingurinn Kári Kárason og notaði hann tækifærið í einstakri veðurblíðu og flaug út Fannardal og Norðfjörð á leiðinni til Póllands.

Rólegra yfir bæjarbragnum

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, sagði um miðjan dag í gær að talsverður munur væri á bæjarbragnum og rólegra yfir. Hann átti erindi í grunnskólann og mörg barnanna tjáðu honum að þau gistu hjá ömmu eða öðrum ættingjum þessa helgina.

Sjálfur afmælisdagur Síldarvinnslunnar er 11. desember og verður þá kynnt útgáfa bókar um sögu fyrirtækisins eftir Smára Geirsson. aij@mbl.is