Eiðný Hilma Ólafsdóttir, Didda, fæddist að Kleif á Skaga 5. júlí 1936. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 17. nóvember 2017.

Foreldrar hennar voru Ólafur Ólafsson, f. 24. maí 1905, d. 4. ágúst 2001, og Sveinfríður Jónsdóttir, f. 2. apríl 1898, d. 23. júlí 1967.

Hálfsystkini sammæðra voru: 1) Guðmundur, f. 27. desember 1921, d. 24. desember 1998, 2) Guðrún, f. 26. október 1922, d. 6. mars 2011, 3) Erlenda, f. 15. desember 1923, d. 4. október 2003. Hálfsystkini samfeðra eru: 1) Hallur, f. 3. október 1931, d. 5. desember 2008, 2) Þórey, f. 3. október 1931, 3) Fríða, f. 11. janúar 1933, d. 11. júlí 2016. Alsystkini Diddu eru: 1) Jónmundur Friðrik, f. 3. maí 1934, d. 19. apríl 2017, 2) Olga, f. 29. maí 1935, 3) Ólafur, f. 3. nóvember 1939, 4) Guðríður Fjóla, f. 19. janúar 1941. Tvö frændsystkini, börn Guðrúnar, ólust upp með Diddu, þau Gísli Ófeigsson, f. 13. júní 1943 og Sveinfríður Sigrún Guðmundsdóttir f. 16. desember 1947.

Eiginmaður Diddu er Jón Skagfjörð Stefánsson, f. 7. júní 1931, og gengu þau í hjónaband 14. september 1958. Börn þeirra eru: 1) Stefán Pétur, f. 30. ágúst 1958, hans kona er Ólöf Svandís Árnadóttir, dætur þeirra eru: Gígja Hrund, Klara Björk , Halla Mjöll og Edda Borg. 2) Eiður, f. 5. nóvember 1961, d. 20. júní 2016, kvæntur Huldu Rúnarsdóttur, börn: Hilma og Jón Ólafur, stjúpbörn: Þórunn, Kolbrún, Rúnar, Sigurður og Friðrík. 3) Sveinfríður Ágústa, f. 8. júlí 1965, eiginmaður, Jóhannes Jóhannesson, synir: Máni Jón og Ingi Sveinn. Langömmubörnin eru sjö stúlkur.

Didda ólst upp á Kleif á mannmörgu heimili, fór í barnaskóla á ýmsum bæjum í sveitinni þar sem kennarinn var Gunnar Einarsson á Bergskála. Vorið 1949 flutti fjölskyldan að Kambakoti á vestanverðum Skaga, en um haustið brann bærinn. Hluti fjárhúsanna var þá útbúinn til íveru og bjó fólkið þar meðan byggt var nýtt hús. Didda fór snemma að vinna, var í vist og sem kaupakona á bæjum í Húnavatnssýslu eystri. Einnig vann hún í Reykjavík á unglingsárum svo sem í vist, frystihúsi og var vökukona á Sólheimum sjúkrahúsi, þá 14 ára. 17 ára fór hún í Kvennaskólann á Blönduósi í eitt misseri. Árið 1954 flyst hún í Gauksstaði er þau Jón eiginmaður hennar hefja búskap saman, í félagi við Eið bróður Jóns og Stefaníu móður þeirra bræðra. Þau eru mörg sumarbörnin sem dvalið hafa í hennar skjóli í lengri og skemmri tíma. Einnig var hún ráðskona í barnaskóla sveitarinnar á Fossi í tvo vetur. Vegna heilsubrests hefur hún dvalist á DII á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkóki síðan í júní 2014.

Útför Diddu verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 2. desember 2017, klukkan 11.

Elsku amma Didda.

Nú kveðjum við þig í hinsta sinn. Þegar við hugsum til þín rifjast upp góðar minningar – þá helst í sveitinni okkar. Á Gauksstöðum leið okkur alltaf vel og upplifðum mikið frelsi. Þar mátti leika sér með allt mögulegt hvar og hvenær sem var. Einstaklega skemmtilegt þótti okkur að vera uppi á lofti og fá að gramsa í því sem þar var að finna. Þú áttir mikið safn af gömlum kjólum og slæðum sem við máttum endalaust leika okkur með. Við nutum þess að fá að hlaupa um túnin í svona fínum kjólum og með slæðurnar blaktandi í sumargolunni. Alveg sama hversu oft við komum með vönd af apablómum úr skurðinum handa þér varstu alltaf jafn ánægð með blómin. Svo var aldrei leiðinlegt úti í drullubúinu við stóra skúrinn eða í rólunum.

Í sveitinni hjá þér var besti matur í heimi, hvort sem það var kjötsúpa eða ristað brauð, þú hafðir sérstakt lag á að gera svo góðan heimilismat, svo auðvitað djúsklakarnir sem sviku aldrei. Þú tókst aldrei í mál að við færum svangar að sofa og færðir okkur oftast kex og mjólkurglas. Þú þvoðir okkur alltaf vel um andlitið og hendurnar fyrir svefninn og stundum lastu fyrir okkur Jesúbækurnar.

Seinna meir var farið í ýmsar styttri ferðir. Hvort sem það var skottúr í Varmahlíð, heimsókn í Kambakot til Jónmundar eða fyrir Skagann voru það alltaf fróðlegar ferðir sem við höfðum gaman af. Margoft baðstu um að bíllinn yrði stöðvaður því eitthvað rakstu augun í til að skoða. Þegar við vorum á jeppanum hans pabba var gamli goskassinn góði notaður til að þú gætir klifrað upp í bílinn.

Í einni ferðinni var æðislegt að fylgjast með ykkur systrunum skipuleggja óvænta veislu fyrir Jónmund þegar hann varð sjötugur og þið gáfum honum farsíma. Það vakti mikla kátínu og þið hlóguð mikið og töluðuð um skemmtilega hluti sem okkur finnst einmitt hafa einkennt ykkur systkinin þegar þið komuð saman.

Ekki má gleyma Frakklandsferðinni góðu sem þið Klara fóruð í og heimsóttuð Fríðu og fjölskyldu, þú naust þín þar og þér fannst gaman að fylgjast með mannlífinu og það var margt að sjá og tala um.

Við getum ekki gleymt Leiðarljósi, eða Leiðindaljósi, eins og þú kallaðir það. Þú hafðir gaman af því að gera grín að allri þessari vitleysu sem þar fór fram og það var alveg bíó að horfa með þér þar sem þú varst dugleg að rífast við sjónvarpið og hlóst að hamaganginum.

Nú þegar komin er kveðjustund hugsum við til þín með bæði söknuði og gleði. Við þökkum fyrir allar stundirnar sem við fengum að eiga með þér og vera svo heppnar að eiga þig að, elsku amma okkar. Þú ert búin að fá hvíld og við treystum að þú sért á góðum stað með fólkinu þínu og líði vel, elsku kellingin okkar. Megi guð geyma þig.

Þínar sonardætur,

Gígja, Klara, Halla og Edda.

Elsku amma mín,

Þú kenndir mér svo margt.

Þú kenndir mér að elska, þú kenndir mér að elda, þú kenndir mér að prjóna, þú kenndir mér að dæma ekki og kenndir mér að hafa samkennd með fólki. Þú kenndir mér að fara vel með dótið mitt, því þú áttir ekkert dót þegar þú varst lítil.

Takk fyrir allar góðu stundirnar, takk fyrir alla leikþættina og hláturinn, takk fyrir allar sögurnar og ræturnar mínar, takk fyrir allar erfiðu stundirnar, takk fyrir grátinn og sorgina.

Verst fannst mér að fá ekki að syrgja pabba minn með þér, heyra sögurnar þínar um hann, því Elli kerling var búin að rugla þig í ríminu. Þú slappst þá við að vita af sonarmissinum.

Áfallið við að missa pabba í fyrra kenndi mér að meta kveðjustundirnar með þér. Yndisleg rólegheit sem eru lúxus í þessu samhengi.

Það var alltaf notalegt að koma til þín, amma mín. Að fá að hlýja kaldar hendur og tær eftir fjárhúsferðir. Að fá uppáhaldsmatinn minn þegar ég kom heim frá útlöndum, ég varð að hringja frá Blönduósi svo þú gætir sett bjúgun upp.

Þú kenndir mér að lífið er dans á rósum, stundum stígur maður á þyrna. Lífið getur verið erfitt, en samt svo gott.

Þú áttir enga ömmu þegar þú varst barn, og sagðir mér að þú hefðir öfundað börn sem áttu ömmu. Þú einsettir þér líka að verða frábær amma, og það tókst þér svo sannarlega. Takk fyrir að vera amma mín.

Takk fyrir allt, amma mín, ég bið að heilsa pabba í sumarlandinu.

Þín nafna,

Hilma Eiðsdóttir Bakken.

Flogin er á vit feðra sinna móðursystir mín Eiðný Hilma, eða Didda eins og hún var ávallt kölluð.

Hún frænka mín var stórbrotin kona, ákveðin á skoðunum sínum en samt svo ljúf og góð.

Ég var lítið stelpuskott þegar ég dvaldi fyrst sumarpart hjá fjölskyldunni á Gaukstöðum. Þá var margt sýslað í sveitinni og alltaf voru þónokkur aukabörn og mikið líf og fjör. Þrátt fyrir annríki á heimilinu var ávallt tími til að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum, fara í lautarferð, berjamó eða eitthvað annað sem skemmti smáfólkinu. Það var alltaf jafn skemmtilegt að koma á Gaukstaði.

Hún var myndarleg til allra verka og umhyggjusöm og fór mín fjölskylda ekki varhug af því.

Á erfiðum tíma í lífi mínu buðu þau hjónin syni mínum Ólafi Braga, þá sex ára gömlum í sumarvist hjá sér sem varð til þess að hann var hjá þeim næstu fimm sumur.

Það voru ýmsar skondnar sögur sem mér voru sagðar frá vistinni, eins og þegar Didda var að koma matvöndum syni mínum til að borða kjöt sem hann hélt að honum þætti ekki gott sem mig minnir að hafi verið saltkjöt. Matur er á borð borinn og drengurinn spyr hvað þetta sé. Úldið hundakjöt segir húsfrúin. Sá stutti ákveður að smakka og þykir ekki slæmt, klárar af diskinum og spyr hvort hann geti fengið meira af svona úldnu hundakjöti. Nafna hans og langafa var verulega skemmt og hló sínum dillandi hlátri.

Afi minn Ólafur var einnig áralangt hjá þeim á Gauk og var umhyggjan og natnin við hann afar óeigingjörn. Móðir mín hefur og haft orð á því að Didda hafi haft svo mikil hjúkrunargen í sér og sem unglingur hafi hún verið yfirsetukona á sjúkrahúsi og fengið mikil meðmæli fyrir vinnu sína þar.

Það var alltaf gaman að hitta frænku og spjalla, því að gamansemin var sjaldan langt undan og rökræðum hafði hún líka gaman af. Einu sinni gistu þau Jón, Fríða og Jón Máni hjá okkur á leið sinni norður frá Reyðarfirði og áður en gengið var til hvílu spurði Didda hvort Gummi (maðurinn minn) færi snemma að morgni til vinnu, því hana langaði að hitta á hann og eiga við hann spjall; það væri svo gaman að skiptast á skoðunum við hann, þau höfðu jú bæði nokkuð ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og kannski ekki alltaf að öllu leyti sammála.

Það hallaði verulega undan fæti hjá frænku síðustu árin og þótt alltaf sé erfitt að kveðja sína nákomnu getum við glaðst yfir að nú líður henni vel og víst er að það hafa verið fagnaðarfundir á hinum staðnum, ekki síst hjá þeim mæðginum, en sonur hennar Eiður féll frá langt fyrir aldur fram.

Ykkur fjölskyldu Diddu sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, elskulega frænka.

Kristín Ólafsdóttir

og fjölskylda.

Samfélagið á Skaganum fylgir í dag einum grannanum enn til grafar þegar Didda á Gauksstöðum verður kvödd hinstu kveðju.

Didda hefur nokkra sérstöðu þegar kemur að upprifjun miðaldra manns á atburðum æskunnar og nokkrir þeirra þar sem hún kemur við sögu standa mér enn ljóslifandi fyrir augum þó mislangt sé um liðið. Formleg skólaganga mín hófst með vikudvöl á Fossi vorið sem ég var níu ára. Þá átti ég að taka próf úr námsgögnum sem ég hafði stautað í gegnum heima á Hrauni um veturinn. Minnist ég þess að í prófi í náttúrufræði var ég settur einn nemenda í borðkrókinn í kjallaranum hvar Didda á Gauksstöðum var ráðskona, sýslandi í eldhúsinu nokkrum skrefum frá mér. Vandræðalítið svaraði ég spurningunum einni af annarri og hjartslátturinn minnkaði í takt við kunnáttuna.

Svo var það næstsíðasta spurningin. Um mig fór hrollur. Hver er stærsti spörfugl á Íslandi? Búinn að svara öllum hinum spurningunum hafði ég nógan tíma. Las þær aftur yfir og fullvissaði mig um að svörin væru rétt. Sneri mér því næst að þrautinni og hóf að tauta fyrir munni mér: Hver er stærsti spörfugl á Íslandi? Svona alveg óvart, um leið og hún Didda blessunin sneri sér frá því að setja diskana á matarborðið sem ég sat við, heyrði ég hana segja í hálfum hljóðum, við sjálfa sig auðvitað: „Ætli það sé ekki krummi gamli.“

Didda var einn aðalskemmtikrafturinn á fyrsta þorrablótinu sem haldið var á Fossi. Auðvitað fórum við krakkarnir þangað eins og nánast allir Skeflungar. Opinmynntur horfði ég á Diddu leika Skugga-Svein, syngja gamanvísur og leggja grunn að hefð sem enn er við lýði. Og þau eru orðin mörg þorrablótin síðan þar sem Didda flutti sína stórbrotnu annála. Hallaði sér ögn fram á púltið og mælti af munni fram svo óborganlega fyndnar lýsingar á mönnum og málefnum sveitarinnar, rólega og svipbrigðalaust nánast eins og hún væri að lesa hrakningakafla úr Öldinni okkar á meðan þingheimur veltist um. Tungutak hennar og undirliggjandi kímnigáfa þessarar annars hægu, nánast dulu konu voru svo einstök að fáa hef ég fyrir hitt sem hafa þau tök sem hún hafði þar á og oftlega hugsa ég til hennar sem hið fullkomna viðmið þar sem gamanmál eru viðhöfð.

Þessi fátæklegu orð lýsa ekki persónunni Didda nema frá einni hlið og sú hlið er í björtu ljósi þess sem þetta ritar og þáði frá henni og fleiri sveitungum viðmót og veganesti sem vel hefur dugað.

Blessuð sé minning Diddu á Gauksstöðum.

Gunnar Rögnvaldsson.

Didda mín er farin, haldin á brott á hryssunni sinni fögru, hryssunni sem hún lánaði mér árum saman í göngur. Best allra hrossa fannst mér, enda vorum við vinir. Við Didda vorum einnig vinir, vinir frekar en tengdafólk. Frá fyrstu stundu er ég kom með Fríðu til Gauksstaða urðum við vinir, „velkominn Jói minn“ sagði hún og breiddi út faðminn. Hún var gestrisin kona, enginn fór svangur úr eldhúsi hennar enda var hún þar drottning. Hún sinnti fólkinu sínu á bænum, vissi best allra að það var enginn ákveðinn matartími í sveitinni, fólk kom þegar var lag, hún sat eða stóð við pottana, fór inn og lagði sig litla stund eða hlustaði á fallegan söng, kom fram aftur og sýslaði meira, það var svo einfalt að bíða, þau kæmu.

Didda var góð manneskja en hörð, enginn skyldi reyna að ganga yfir hana, en hún sætti sig við margt. Eins og svo margir átti Didda mín við sín innri mál að stríða og olli það beiskju í lífi hennar, held ég. Hún tók til sín börn á sumrin og veitti þeim góða aðhlynningu, trúi ég. Einnig tók hún til sín aldraðan föður sinn og annaðist hann af alúð og virðingu. Ég held að það hafi verið með hennar bestu dögum. Ég minnist með gleði og þakklæti allra góðu stundanna sem við áttum saman í eldhúsinu hennar yfir rjúkandi kúmenkaffi þar sem pönnukökustaflinn hækkaði og hækkaði og samræður urðu á stundum ekki fyrir viðkvæma, Didda hafði jú skoðanir og lá ekki á þeim, enda óþarfi, þær voru ævinlega réttmætar og alltaf talaði hún máli þeirra sem minna mega sín. Didda treysti á börnin sín, þau voru henni afar mikils virði og stóðu þau undir því. Barna- og langömmubörnin voru ljós hennar, maður sá hve hún gladdist er þau komu til hennar. Já, hún Didda er farin, en við töpuðum henni mörg hver fyrir nokkru, er hún hætti að þekkja okkur, það var okkur feðgum sárt. En svona er lífið, maður á það sem maður á þar til það hverfur.

Ég sakna hennar Diddu.

Jóhannes (Jói).