Lögfræðingur Haraldur Pálsson.
Lögfræðingur Haraldur Pálsson.
Þetta er algjört príma, maður getur ekki verið meira miðsvæðis en hér,“ segir Haraldur Rafn Pálsson, eigandi Thor Guesthouse, en hann á 30 ára afmæli í dag.

Þetta er algjört príma, maður getur ekki verið meira miðsvæðis en hér,“ segir Haraldur Rafn Pálsson, eigandi Thor Guesthouse, en hann á 30 ára afmæli í dag. Gistiheimilið er á Skólavörðustígnum beint fyrir ofan verslunina Geysi, á móti Eymundsson og Sjávargrillinu. Haraldur á reksturinn en leigir húsnæðið.

„Við erum á 4., 5. og 6. hæð og það er rosalega flott útsýni hérna, en við erum með þrettán herbergi og tvær íbúðir. Við erum með hrikalega flotta stúdíóíbúð í turninum með 180 gráðu svölum meðfram allri íbúðinni sem er mjög vinsæl hjá ríkum túristum og svo erum við með ódýrari herbergi líka á neðri hæðunum sem eru þá með sameiginlegu baði og eldunaraðstöðu þannig að við náum ansi stórum markhópi með þessum fimmtán einingum. Öll herbergin eru með frábæru útsýni yfir borgina og það selur vissulega.“

Haraldur er lögfræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík og útskrifaðist árið 2015. „Svo fór ég eiginlega beint í þennan rekstur þegar túrisminn var á mikilli uppleið, en ég var áður búinn að brasa aðeins í þessu og hafði verið með íbúðir á leigu. Lögfræðin hefur nýst vel í rekstrinum sem hefur gengið blússandi vel.“

Áhugamál Haraldar eru ferðalög, stangveiðar og bílar. „Ég reyni eins oft og ég get að ferðast um heiminn og á sumrin er ég forfallinn veiðiáhugamaður, en uppáhaldsáin núna er Víðidalsá. Frá blautu barnsbeini hef ég einnig haft mikinn áhuga á bílum og hef enn. Skipti reglulega um bíla og finnst gaman að prufa eitthvað nýtt.“

Afmælisdagurinn hjá Haraldi verður hefðbundinn framan af en svo verður slegið upp hátíðarhöldum um kvöldið. „Ætli ég byrji ekki daginn eins og alla aðra daga vikunnar á smá vinnu en svo er ég búinn að leigja sal og ætla að bjóða nánum vinum og vandamönnum í smá veislu.“

Haraldur er ókvæntur og barnlaus, en foreldrar hans eru hjónin Páll Haraldsson viðskiptafræðingur og Björg Sigurðardóttir sjúkraliði.