Aukning Áhugasamir matreiðslunemar í MK taka til hendinni.
Aukning Áhugasamir matreiðslunemar í MK taka til hendinni. — Morgunblaðið/Ómar
Þótt nemendum í matreiðslu og framreiðslu við Menntaskólann í Kópavogi hafi fjölgað mjög á undanförnum árum er enn hægt að bæta við.

Þótt nemendum í matreiðslu og framreiðslu við Menntaskólann í Kópavogi hafi fjölgað mjög á undanförnum árum er enn hægt að bæta við. Áfangastjóri verknámsgreina segir að þeirra sem útskrifast úr þessum iðngreinum bíði áhugaverð og krefjandi störf, bæði hérlendis og erlendis, og störfin séu ekki eingöngu á veitingastöðum.

MK útskrifar seinna í mánuðinum 24 matreiðslumenn og 13 framreiðslumenn. Nemar eru útskrifaðir tvisvar á ári og er heildarfjöldinn um 50 kokkar og 26-28 þjónar á ári. Er það 10 kokkum fleira en var fyrir um sjö árum og tvöfalt fleiri þjónar.

Baldur Sæmundsson, áfangastjóri verknámsgreina hjá MK, segist ekki hafa greint ástæður aukinnar aðsóknar. Hann nefnir þó að möguleiki á að fá reynslu metna þegar nám er hafið og stuðningur úr námssjóði eigi væntanlega þátt í því. Þá segir hann að áhugaverð störf bjóðist útskrifuðum nemum. Þau séu ekki bundin við veitingastaði og eldhús þeirra. Nefnir Baldur að 300-400 fagmenn úr ýmsum iðngreinum starfi við sölumennsku á mat og víni. Það sé vel, þeir þekki vel vörurnar sem verið er að selja. Þá fari margir til útlanda til að afla sér frekari menntunar og reynslu.

„Við höfum pláss fyrir fleiri nema. Við reynum að kynna námið og þá möguleika sem það skapar og mættum gera betur í því,“ segir Baldur. helgi@mbl.is