Skemmdir Stöpullinn fyrir utan göngin er gjarnan notaður til að mylja silfurbergið svo ná megi tærum molum. Náman hefur látið mikið á sjá.
Skemmdir Stöpullinn fyrir utan göngin er gjarnan notaður til að mylja silfurbergið svo ná megi tærum molum. Náman hefur látið mikið á sjá. — Ljósmynd/Lára Björnsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Landvörður stóð vaktina í fyrsta skipti við Helgustaðanámu utan við Eskifjörð síðasta sumar og hafði Lára Björnsdóttir embættið með höndum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Landvörður stóð vaktina í fyrsta skipti við Helgustaðanámu utan við Eskifjörð síðasta sumar og hafði Lára Björnsdóttir embættið með höndum. Hún er ekki í vafa um að nærvera hennar hafi dregið úr því að ferðafólk ylli skemmdum á silfurbergsæðinni í námunni og hefði flísar eða hnullunga úr silfurbergi á brott með sér, sem er algerlega bannað.

Nokkrum sinnum hitti hún fólk sem hafði silfurberg í fórum sínum. „Ég stóð fólk helst að verki ef ég kom óvænt og þá utan reglulegs vinnutíma. Meðan ég var á staðnum virtist vera allt í lagi, en þá getur maður líka upplýst fólk og fylgt því eftir. Ferðamenn kunna sannarlega að meta silfurbergið í námunni, en það er miður að margir þeirra vilja helst hafa mola með sér,“ segir Lára.

Hún segir að náman hafi látið mikið á sjá á síðustu árum, en svæðið er á rauðum lista Umhverfisstofnunar. Lára vonast til að girðing sem samþykkt hefur verið að setja upp innan námunnar og viðvera landvarðar dragi úr skemmdum. Einnig þurfi að setja upp fleiri upplýsingaskilti og er unnið að því, en Umhverfisstofnun og Fjarðabyggð hafa verið í góðu samstarfi við Helgustaðanámu síðustu ár. Búið er að koma þar upp salernisaðstöðu, göngustígum og bílaplani þaðan sem er innan við 10 mínútna gangur að námunni.

Margvísleg ummerki

„Þó ég hafi ekki staðið marga að verki þá sá ég mjög oft ummerki um að flísað hefði verið úr æðinni. Sömuleiðis var greinilegt að fólk hafði verið að príla upp í silfurbergsæðina í 3-4 metra hæð í gömlu námunni. Það má glöggt sjá að búið er að taka mikið úr æðinni og eins í göngum fyrir neðan hana þar sem fólk hefur tekið steina á jörðinni og mulið niður til að ná sem tærustum molum. Sumir sem ég stóð að verki voru skömmustulegir, en aðrir báru fyrir sig vanþekkingu og skort á upplýsingum,“ segir Lára.

Hún segir að fjöldi ferðamanna leggi leið sína að námunni. Langflestir þeirra komi á einkabílum og þeir sem hún stóð að verki hafi í öllum tilvikum verið erlendir ferðamenn.

Með fleiri verkefni

Lára er ráðin til áramóta, en veit ekki hvað þá tekur við þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald landvörslu við námuna. Verkefni séu næg, m.a. við undirbúning á störfum sjálfboðahópa sem koma þangað árlega og skipulag á starfseminni. Á könnu landvarðarins er einnig varsla í friðlandinu í Hólmanesi og fólkvanginum í Norðfirði. Þá eru ýmis tilfallandi verkefni á fjörðunum á vegum Umhverfisstofnunar, en landverðir eru starfsmenn hennar.

Lára segir bagalegt ef ekki sé samfella í starfi landvarða og slíkt dragi úr möguleikum á að fá reynt fólk í starfið.