Michael Flynn
Michael Flynn
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hefur játað sig sekan um að hafa logið að alríkislögreglunni FBI um samskipti sín við sendiherra Rússlands við yfirheyrslur vegna rannsóknarinnar á tilraunum Rússa til að...

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hefur játað sig sekan um að hafa logið að alríkislögreglunni FBI um samskipti sín við sendiherra Rússlands við yfirheyrslur vegna rannsóknarinnar á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á kosningabaráttuna í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Flynn kom fyrir dómara í Washington í gær tveimur klukkustundum eftir að Robert Mueller, sérstakur saksóknari, birti ákæru á hendur honum fyrir að hafa veitt alríkislögreglunni „rangar“ og „ósannar“ upplýsingar um fund með sendiherranum í janúar sl., skömmu eftir að Trump tók við forsetaembættinu. Flynn neyddist til að segja af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi í febrúar, aðeins 23 dögum eftir að hann tók við embættinu, þegar í ljós kom að hann hafði sagt Mike Pence varaforseta ósatt um samræður sínar við sendiherra Rússlands, m.a. um hugsanlegt afnám refsiaðgerða gegn landinu. Ákæran á hendur honum gæti skaðað Trump sem er sagður hafa reynt að fá yfirmann FBI, James Comey, til að stöðva rannsóknina á máli Flynns áður en forsetinn vék Comey úr alríkislögreglunni.

Þrír aðrir fyrrverandi aðstoðarmenn Trumps hafa verið ákærðir í tengslum við rannsókn sérstaka saksóknarans. Paul Manafort, sem var kosningastjóri Trumps, og samstarfsmaður hans, Richard Gates, hafa verið ákærðir fyrir samsæri gegn hagsmunum Bandaríkjanna, peningaþvætti og fleiri lögbrot. Fyrrverandi ráðgjafi forsetans í utanríkismálum, George Papadopoulos, hefur játað að hafa logið að FBI í tengslum við rannsóknina.