Það hefur væntanlega farið framhjá fáum að Harry Bretaprins og bandaríska leikkonan Meghan Markle opinberuðu trúlofun sína í vikunni. Bresku blöðin hafa tekið við sér og skrifa heilu greinaflokkana um tilvonandi tengdadóttur Bretlands.

Það hefur væntanlega farið framhjá fáum að Harry Bretaprins og bandaríska leikkonan Meghan Markle opinberuðu trúlofun sína í vikunni. Bresku blöðin hafa tekið við sér og skrifa heilu greinaflokkana um tilvonandi tengdadóttur Bretlands. Strax eru komnar greinar um hárið á henni og rifjað upp í mörgum myndum hvernig klippingu hún hefur haft síðustu árin. Einnig skrifaði Vogue grein um klæðaburð hennar síðustu árin og getur Víkverji sagt ykkur að hún er klassísk í klæðaburði og eltist ekki við tískustrauma, hún hefur gaman af vönduðum fatnaði og pinnahælum svo eitthvað sé nefnt. Greinin var mjög löng.

Skórnir sem hún var í þegar þau tilkynntu trúlofunina þykja líka segja sögu. Þeir eru nefnilega með ökklaböndum, spísstá og örmjóum pinnahæl. Þeir þykja sérlega ólíkir skónum sem Kate Middleton klæddist við opinberun trúlofun sinnar og Vilhjálms Bretaprins. Skórnir hennar Kate þykja sýna skynsemi á meðan val Meghan sé djarflegra og tískusinnaðara. Merkilegt hvað það er mikið rætt um klæðaburð hennar umfram annað. Það að trúlofast prinsi gerir hana umsvifalaust að tískufyrirmynd, hver einasta spjör er skoðuð í nærmynd og túlkuð.

Hertogaynjan af Cambridge er áhrifamikil í tískuheiminum að því leyti að konur vilja kaupa það sem hún klæðist. Það stefnir í að áhrif Meghan verði síst minni. Við opinberun trúlofunarinnar klæddist hún hvítri kápu frá kanadíska tískumerkinu Line the Label en Meghan bjó í Toronto. Áhuginn á kápunni varð svo mikill í kjölfarið að vefsíða fyrirtækisins hrundi. Tískuhúsið hefur nú ákveðið að þessi ákveðna káputegund gangi framvegis undir nafninu Meghan. Áhrif hennar eru strax mikil í tískuheiminum og má líka búast við því að hún beiti áhrifum sínum á fleiri sviðum en hún hefur starfað að mannúðarstörfum. Munu fjölmiðlar vonandi hlusta þá af jafn mikilli athygli.