Merkileg stjórnarmyndun í sögulegu samhengi.

Með valdatöku ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er þeim sögulega áfanga náð að köldu stríði í íslenzkum stjórnmálum er lokið. Í fyrsta sinn frá árunum 1944-1946 hafa þeir tveir andstæðu pólar, sem var og er að finna í Sjálfstæðisflokki og VG og forverum síðarnefnda flokksins, náð samkomulagi um að vinna saman í ríkisstjórn.

Þess vegna er myndun þessarar ríkisstjórnar afrek út af fyrir sig hjá því unga fólki sem að henni stendur og líkleg til að stuðla að þroskaðra samfélagi.

En þar að auki er margt forvitnilegt að finna í þeim stjórnarsáttmála sem kynntur var í fyrradag.

Kannski er mikilvægasta þáttinn, þegar horft er til lengri framtíðar, að finna í kafla um umhverfis- og loftslagsmál. Þar stendur:

„Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum.“ Í þessari einu setningu er að finna vísbendingu um einhverja mestu hættu sem steðjað getur að tilvist þessarar litlu þjóðar hér á norðurslóðum.

Fyrirheit nýrrar ríkisstjórnar í þessum efnum eru sennilega það mikilvægasta sem í stjórnarsáttmálanum er að finna svo og skýr yfirlýsing um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Ráðherraval VG í umhverfisráðuneytið lofar góðu en nýr ráðherra málaflokksins er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Landverndar.

Fyrirheit um eflingu Alþingis sem stofnunar eru líka grundvallarmál, þegar horft er til framtíðar. Í þeim efnum ættu flokkarnir á þingi að huga að því að flytja sjálfa lagasmíðina úr ráðuneytum til Alþingis. Þar er hún á réttum stað.

Enn eitt mál sem varðar miklu fyrir framtíðina í ljósi fenginnar reynslu er stofnun Þjóðarsjóðs sem taki við afrakstri af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Af aðkallandi úrlausnarefnum líðandi stundar má nefna fyrirheit um fullvinnslu heilbrigðisstefnu, þar sem gera má ráð fyrir að tekið verði á ágreiningsmálum sem hafa verið að skjóta upp kollinum varðandi hlut einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu. En knýjandi vandamál eru mörg á þessu sviði og sum þeirra tilgreind sérstaklega í textanum.

Þá ætlar hin nýja ríkisstjórn að láta taka saman hvítbók um fjármálakerfið, sem er alger forsenda þess að ríkið hefjist handa við sölu á hlutum í fjármálafyrirtækjum. Það er traustvekjandi að gert er ráð fyrir að ríkið verði áfram leiðandi eignaraðili að einu fjármálafyrirtæki.

Áform um afnám verðtryggingar vekja athygli svo og fyrirheit um að skera á tengslin á milli vísitölu og fasteignaverðs.

Áhugamenn um skattalækkanir munu taka eftir fyrirheitum um lækkun tekjuskatts á lægstu skattþrepum og lítilsháttar hækkun fjármagnstekjuskatts en þar er sérstaklega tekið fram að markmiðið sé að „gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna“.

Þetta er skynsamlegt. Af hverju ætli tekjur af vinnu hafi svo lengi verið í hærri skattþrepum en tekjur af eignum?

Í umfjöllun um menntun og menningu er að finna athyglisverða yfirlýsingu um viðurkenningu á störfum kennara, sem er löngu tímabær og þá ekki sízt á fyrstu skólastigunum, sem eru þau mikilvægustu.

Þar er líka að finna skýra yfirlýsingu um afnám virðisaukaskatts á bókum og að breyta skattlagningu höfundatekna til samræmis við skattlagningu annarra eignatekna.

Afstaða hinnar nýju ríkisstjórnar til veiðigjalda í sjávarútvegi er afdráttarlaus. Þar segir:

„Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.“

Það er líka ljóst að ríkisstjórnin ætlar að gera flug valkost fyrir landsbyggðarfólk á ný en eins og allir vita er kostnaður við innanlandsflug orðinn fáránlega hár.

Loks er að finna í stjórnarsáttmálanum stefnumörkun í kynferðisafbrotamálum, sem nú eru komin á dagskrá þjóðfélagsumræðna um allan hinn vestræna heim.

Þessi stjórnarsáttmáli er nútímalegt plagg sem lofar góðu.

Til þess að hann verði að veruleika þurfa nýir ráðherrar að hafa eitt grundvallaratriði í huga, þegar þeir setjast inn í ráðuneyti sín. Þeir eru þangað komnir til að þjóna fólkinu í landinu en ekki embættismönnum, sem hafa hreiðrað þar um sig og hafa tapað svo rækilega tengslum við umhverfi sitt að þeir hafa í of ríkum mæli gleymt því til hvers þeir voru ráðnir þangað.

Látið ekki Kerfið kaffæra ykkur á fyrsta degi!

Þótt stjórnarsáttmálinn sem slíkur lofi góður eins og hér hefur verið rakið stendur ný ríkisstjórn frammi fyrir alvarlegum vanda í kjaramálum bæði hjá hópum opinberra starfsmanna og á almennum vinnumarkaði. Það er rétt sem forseti ASÍ hefur sagt að þar eru ákvarðanir Kjararáðs fleinn í holdi.

Þar eiga allir flokkar hlut að máli. Þeir hafa allir tekið þátt í því með þögninni að taka við launahækkunum úr hendi Kjararáðs og máttu vita að þær yrðu notaðar sem röksemdir fyrir launakröfum annarra starfshópa.

Það mun þurfa mikla lagni og útsjónarsemi til þess að leysa úr þeim vanda, sem þannig hefur orðið til og ógnar þeim sæmilega stöðugleika sem náðst hefur í efnahagsmálum.

Og þess vegna mun reyna strax á þetta stjórnarsamstarf – svo um munar.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is