[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.

Sviðsljós

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Það var engu líkara en íslenska knattspyrnulandsliðið hefði unnið heimsmeistaramótið, slík voru fagnaðarlæti íslensku stuðningsmannanna þegar ljóst varð að Ísland myndi mæta Argentíu í opnunarleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi næsta sumar.

Ísland endaði í D-riðli ásamt Argentínu, Króatíu og Nígeríu en stuðningsmenn landsliðsins komu saman á Ölveri, heimabar íslensku stuðningsmannasveitarinnar Tólfunnar, og fylgdust með drættinum í beinni útsendingu.

Fylgdust stjörf með drættinum

Stundin var spennuþrungin þegar búið var að draga 16 lið í átta riðla og komið var að því að draga átta lið til viðbótar í jafnmarga riðla úr styrkleikaflokki þrjú, sem Ísland var í.

Íslensku stuðningsmennirnir á Ölveri sungu og trommuðu þegar fyrsta liðið var dregið upp úr pottinum og reyndist það vera Egyptaland sem endaði í A-riðli með Rússum, Úrúgvæjum og Sádi-Aröbum.

Þegar komið var að því að draga næsta lið úr pottinum var staðan hins vegar önnur. Algjörri þögn sló á íslenska stuðningsmannahópinn og fylgdust þeir stjarfir með drættinum þar til Ísland kom upp úr pottinum, í D-riðli með Argentínu og Króatíu, sem íslensku stuðningsmönnunum virtist líka vel.

Þeir hoppuðu og sungu hástöfum, enda ljóst að draumur margra knattspyrnuáhugamanna um að sjá íslenska landsliðið taka á knattspyrnugoðsögninni Lionel Messi myndi rætast. Skömmu síðar hrópaði einn stuðningsmannanna yfir hópinn að leikurinn yrði spilaður í Moskvu og urðu tíðindin til að Tólfumenn fögnuðu enn ákafar, svo ákaft að það var engu líkara en íslenska landsliðið hefði hreinlega unnið sjálft heimsmeistaramótið.

Það hafði lítil áhrif á stemningu Tólfunnar að Nígería skyldi dragast í riðilinn úr fjórða styrkleikaflokki, en margir sparkspekingar töldu nígeríska landsliðið erfiðast þeirra liða sem Ísland gat fengið úr fjórða styrkleikaflokki.

Þeir stuðningsmenn sem Morgunblaðið ræddi við sögðu þessi sterku viðbrögð blöndu af ánægju með riðilinn, en eins hefði HM-ævintýrið orðið raunverulegra um leið og riðillinn var klár. Fulltrúar erlendra sjónvarpsstöðva voru á Ölveri í gær, meðal annars ESPN og CNN.