Bára Friðriksdóttir
Bára Friðriksdóttir
Eftir Báru Friðriksdóttur: "Þegar til lengdar lætur er stóraukin heimaþjónusta og heimahjúkrun mikill sparnaðarauki jafnvel þó að laun þeirra lægst launuðu hækkuðu verulega."

Að baki alþingiskosningum eru mörg mál sem brenna á. Eitt af þeim stóru eru málefni eldra fólks. Mig langar sem öldrunarfræðingur að tæpa á stefnumótun í málefnum aldraðra. Við sjáum öll að vandamálin kalla hástöfum í samfélaginu. Fráflæðisvandi er það kallað þegar aldraðir verða fastir inn á sjúkrastofnun og komast hvorki heim né á stofnun. Þarna eru einstaklingar og fjölskyldur í mjög viðkvæmum aðstæðum. Það eru flestir sammála um að þessu verði að breyta. Það geta verið nokkrar leiðir að sama marki og misdýrar fyrir samfélagið. Það vill enginn verða fráflæðisvandi og ljóst að íslensku samfélagi hefur mistekist einhversstaðar þar sem Landspítalinn (LSH) er orðinn hálfgert hjúkrunarheimili.

Samanburður við önnur Norðurlandaríki

Hlutfallslega eru miklu færri hjúkrunarheimili í öðrum ríkjum Norðurlandanna en hér; samt er hlutfall aldraðra hærra þar en á Íslandi. Hvað getum við lært af þeim? Hvernig leysa nágrannaþjóðirnar þetta verkefni? Það er engin ein lausn en í stefnumótun sem hin Norðurlandaríkin framkvæma er sameiginlegt að heimaþjónusta og heimahjúkrun er margfalt meiri en hér tíðkast. Þar er stefnt að því að eldra fólk fái þjónustu heim og annan stuðning svo að það geti búið í sínu umhverfi sem lengst og við sem mest lífsgæði. Dvöl á hjúkrunarheimili ef til þarf verður því styttri. Þetta er farsælli lausn fyrir þann gamla þó að alltaf geti verið undantekningar. Þetta er líka mun ódýrari leið fyrir samfélagið því dvöl á hjúkrunarheimili eða sjúkrahúsi er alltaf dýrasti kosturinn.

Lögin sem tryggja eldra fólki rétt

Í markmiðum laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra segir: „Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.“ Í skýrslu stýrihóps hjá ráðuneytinu um stefnumótun í málefnum aldraðra til ársins 2015 kemur fram að „Markmið eftirfarandi tillagna er að stuðla að heilbrigðri öldrun með áherslu á að aldraðir viðhaldi sem lengst sjálfstæði á eigin heimili og fái til þess nauðsynlega aðstoð og hjálp til sjálfshjálpar.“ Og enn fremur úr markmiðunum: „að auka og bæta þjónustu við aldraða í heimahúsum og gera þeim þannig kleift að búa lengur í eigin húsnæði.“ Við erum með stefnuna en það er ekki nóg. Það er alveg ljóst að við erum ekki að fylgja lögum og stefnu eftir.

Við getum og viljum búa betur að öldruðum

Laun þeirra sem sinna öldruðum í heimaþjónustu (ekki inni í því hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun) eru svo skammarlega lág að illa gengur að manna þessa gefandi en viðkvæmu vinnu. Ef þjóðinni auðnaðist að veita margfalt meiri stuðning inn á heimili eldra fólks sem þarf á því að halda, þá væri sjálfhelda á sjúkrahúsi mun sjaldgæfari. Ef þjónustunet með ófaglærðum, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum yrði þétt verulega í stuðningi inn á heimilin þá gæti fólk búið lengur í sínu umhverfi í öryggi. Til viðbótar þyrfti að vera greitt aðgengi að næringarríku fæði því ekki er óalgengt að fábreytt fæði dragi úr heilsu aldraðra. Auk þess getur dagþjálfun og hvíldarinnlögn bætt lífsgæði. Allt þetta stuðlar að bættri heilsu þeirra sem hefur síðan þau áhrif að innlögn á stofnun seinkar. Bætt þjónusta við eldra fólk eykur ekki aðeins lífsgæði þeirra og fækkar þeim sem þurfa að búa á dvalar- eða hjúkrunarheimilum, það bætir líka lífsgæði aðstandenda. Rúsínan í pylsuendanum er handa stjórnvöldum. Þegar til lengdar lætur er stóraukin heimaþjónusta, heimahjúkrun, dagdvöl og hvíldarinnlögn mikill sparnaðarauki í krónum og aurum jafnvel þó að laun þeirra lægst launuðu hækkuðu verulega. Nýlega bentu forsvarsmenn LSH á að ¼ aldraðra sem bíður eftir hjúkrunarplássi í dag deyr á meðan á biðinni stendur. Við getum og viljum gera miklu betur við elstu kynslóðina. Um stundarsakir þarf að bæta við hjúkrunarheimilum en sé ofangreindri stefnu fylgt eftir eins og í nágrannalöndunum minnkar þörfin fyrir hjúkrunarheimili þegar til lengdar lætur.

Heimildir:

Lög um málefni aldraðra nr. 125/1999.

https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/Skyrslur/stefnum-aldradir.pdf.

Höfundur er öldrunarfræðingur og prestur.

Höf.: Báru Friðriksdóttur