Jóló Það er allt í lagi að spila og syngja jólalög í desember.
Jóló Það er allt í lagi að spila og syngja jólalög í desember. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er kominn desember og þá telja flestar útvarpsstöðvar í lagi að spila jólalög. Mér finnst það fínt. Það eru viss jólalög sem koma mér í góðan jólagír en sömuleiðis önnur sem manni finnst maður fá að heyra furðulega oft.

Það er kominn desember og þá telja flestar útvarpsstöðvar í lagi að spila jólalög. Mér finnst það fínt. Það eru viss jólalög sem koma mér í góðan jólagír en sömuleiðis önnur sem manni finnst maður fá að heyra furðulega oft.

Þeim sem hafa með lagaval að gera í útvarpinu bendi ég á að besta jólalagið er úr smiðju Sigurðar Guðmundssonar; „Nú mega jólin koma fyrir mér“. Ég tengi mjög sterkt við textann í þessu lagi og nýt þess mun betur að hlusta á hann en eitthvert blaður um að hatturinn hans Snæfinns snjókarls hafi mátt muna fífil sinn fegurri.

„Ef ég nenni“ er svo lag sem breytir æðakerfinu mínu í jólaseríu, jafnvel á Þorláksmessu í fyrra þar sem ég sat í sól og snæddi mjög skrýtinn hamborgara í enn skrýtnari vegasjoppu á ferð um suðurströnd Spánar.

Útvarpsstöðvarnar virðast flestar finna ágætt jafnvægi í fjölda jólalaga. Þeir sem vilja taka þetta alla leið geta svo stillt á Léttbylgjuna en ég mæli ekkert sérstaklega með slíkri jólageðveiki. Mér finnst það vera svona eins og að setja upp og skreyta jólatréð snemma í desember. Þá verður þetta allt orðið frekar hversdagslegt og þreytt þegar aðfangadagur rennur loksins upp.

Sindri Sverrisson