Einleikari María Emilía Garðarsdóttir leikur einleik á tónleikunum.
Einleikari María Emilía Garðarsdóttir leikur einleik á tónleikunum.
Í dag kl. 17 heldur Sinfóníuhljómsveit áhugamanna tónleika í Seltjarnarneskirkju. Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Nótuna 2017, sem er uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem fór fram síðastliðið vor.

Í dag kl. 17 heldur Sinfóníuhljómsveit áhugamanna tónleika í Seltjarnarneskirkju. Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Nótuna 2017, sem er uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem fór fram síðastliðið vor. Sem verðlaun fær framúrskarandi nemandi að leika einleik með hljómsveitinni á tónleikunum. Flutt verða fjögur verk, Háskólaforleikurinn eftir Brahms, Fiðlukonsert eftir Max Bruch, Valse triste eftir Sibelius og Svíta nr. 2 um stúlkuna frá Arles eftir Bizet. Stjórnandi verður Oliver Kentish. Einleikari í fiðlukonsertinum er María Emilía Garðarsdóttir sem stundar nám í Tónskóla Sigursveins undir handleiðslu Auðar Hafsteinsdóttur og Aðalheiðar Matthíasdóttur.

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna var stofnuð haustið 1990 og hefur starfað óslitið síðan, eða í rúmlega aldarfjórðung. Í hljómsveitinni leika hljóðfæraleikarar sem flestir hafa atvinnu af öðru. Hún er einnig vettvangur nemenda og tónlistarkennara til að iðka tónlist og viðhalda færni sinni. Hana skipa að jafnaði 40-60 manns, en alls hafa vel á annað hundrað manns leikið með henni í lengri eða skemmri tíma.

Frumflutningur íslenskra verka hefur verið mikilvægur þáttur í starfi hljómsveitarinnar.

Hljómsveitin hefur átt samstarf við marga kóra og flutt smærri og stærri verk fyrir kór og hljómsveit.

Aðalstjórnandi og listrænn leiðtogi síðustu 12 árin er Oliver Kentish. Sinfóníuhljómsveit áhugamanna gekk til samstarfs við Nótuna á síðasta ári með því að gefa ungum tónlistarmönnum, þátttakendum í uppskeruhátíðinni tækifæri til að leika einleik með hljómsveitinni. Þetta kemur fram í tilkynningu.